Námskeið í bekkjarstjórn nýtist kennurum vel
Það er lykilatriði fyrir kennara að hafa stjórn á aðstæðum í bekk þar sem 20 til 30 börn eru saman komin svo þau hafi vinnufrið og kennarinn nái að sinna öllum. Þetta er útgangspunktur meistaraverkefnis Söru Bjarneyjar Ólafsdóttur sem byggist á rannsókn á námskeiði í bekkjarstjórn sem ætlað er starfandi grunnskólakennurum.
„Þetta eru vel rannsakaðar aðferðir sem kennararnir læra til að hafa stjórn á aðstæðum í bekknum því annars gerist ekkert og tíminn bara klárast,“ segir Sara sem lauk M.Ed.-prófi í grunnskólakennslu yngri barna af Menntavísindasviði Háskóla Íslands í vor en lokaritgerð hennar heitir „Ef við náum ekki bekkjarstjórn þá getum við gleymt þessu“. Hún vinnur nú ásamt leiðbeinendum sínum, þeim Bergljótu Gyðu Guðmundsdóttur og Margréti Sigmarsdóttur, að grein upp úr henni til birtingar í ritrýndu tímariti.
Vísindin í fyrirrúmi
Þegar kemur að menntamálum eru ýmis sjónarmið uppi en fyrir Margréti Sigmarsdóttur, dósent við Menntavísindasvið og sérfræðing í klínískri sálfræði, eru vísindin og vel rannsakaðar aðferðir lykilatriði í því að ná árangri. Þess vegna hefur hún beitt sér fyrir því að innleiða slíkar aðferðir fyrir foreldra og í skólakerfinu og hefur meðal annars verið leiðandi í innleiðingu SMT skólafærni og PMTO foreldrafærni sem víða hafa verið notaðar með góðum árangri. Umræddum aðferðum er ætlað að skapa gott andrúmsloft í skólum og vinna gegn hegðunarerfiðleikum barna í skóla og á heimilum.
Rannsókn Söru er angi af stærra verkefni sem Margrét hefur verið að vinna að og miðar að því að nýttar séu vel rannsakaðar aðferðir í öllu skólastarfi og að vísindin séu í fyrirrúmi þegar kemur að menntavísindum. „Það þarf að vera alveg skýrt hvað eru vísindi!“ segir Margrét.
Jákvæðar niðurstöður
Sara hóf að vinna með Margréti þegar hún vann lokaverkefnið sitt í grunnnámi ásamt öðrum nemenda en verkefnið snerist um tilfinningastjórnun og félagsfærni. Hún ákvað því að halda áfram á svipuðum nótum í framhaldsnámi og kanna hvernig kennarar geti notað slíkar aðferðir við kennslu.
Rannsóknin sneri að því að Sara sat námskeið í bekkjarstjórnun fyrir starfandi kennara. Námskeiðið ber heitið Félagsfærni og sjálfsefling: Áhersla á hegðun og bekkjarstjórnun. Í því hittast kennarar í fimm lotum og fara yfir ýmis hjálpleg verkfæri í bekkjar- og tilfinningastjórnun og slíku. Um leið læra kennarar tilteknar leiðir eða verklag, nota það í vinnunni í framhaldinu og skiptast svo á reynslusögum um það hvernig gekk að nýta „verkfærin“.
Sara notaði bæði eigindlegar og megindlegar aðferðir til að rannsaka námskeiðið og hvernig það nýttist í starfi kennaranna. Niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að kennurum þótti námskeiðið hagnýtt og töldu líklegt að þeir myndu nýta aðferðirnar sem þeir lærðu í framhaldinu í kennslu.
„Það er svo mikilvægt að ná tökum á þessu strax“
Margrét og Sara velta því fyrir sér hvort þetta námskeið geti jafnvel verið hagkvæm viðbót við kennaranám þar sem bekkjarstjórn er svo mikilvæg til að ná að vinna með allan hópinn.
Sara telur að allir kennarar ættu að hafa aðgang að þessari „verkfæratösku“ sem boðið er upp á á námskeiðinu. „Þegar þú ert nemandi í skóla á það ekki að snúast um heppni hvort þú lendir hjá kennara sem hefur gott tak á bekkjarstjórn heldur ætti að vera samfella í aðferðafræði kennara svo allir nemendur hafi jöfn tækifæri. Þannig nýtist tíminn í skólanum best, bekkjarbragurinn er jákvæðari og nemendum líður betur,“ segir hún.
Sara telur afar mikilvægt að nemendur geti gengið út frá því sem vísu að kennarinn nái utan um heildina og geti sinnt öllum nemendum sínum. Hún telur áðurnefnd verkfæri lykilatriði til þess að árangur náist í skólastarfi. „Sérstaklega í upphafi skólagöngu, það er svo mikilvægt að ná tökum á þessu strax.“
Höfundur greinar: Sæunn Valdís Kristinsdóttir, nemi í blaða- og fréttamennsku.