Námsbraut í tómstundafræði fagnar tuttugu ára afmæli
Í ár eru liðin tuttugu ár frá því nám í tómstundafræði hófst hér á landi. Af því tilefni verður haldin stafræn ráðstefna fimmtudaginn 18. nóvember undir yfirskriftinni Tómstundadagurinn – Lifum og leikum. Tómstundadagurinn er árlegur viðburður á vegum námsbrautarinnar og er markmið hans að vekja fólk til umhugsunar um tómstundir og mikilvægi þeirra í lífi hverrar manneskju.
Mikil ánægja með námið
Tómstundafræði hefur vaxið fiskur um hrygg síðustu ár. Aðsókn í námið er góð, nemendur eiga kost á að ljúka framhaldsnámi og hafa rannsóknir í greininni eflst verulega á undanförnum árum. Þá hefur nám í tómstundafræði átt ríkan þátt í því að auka vegferð og viðurkenningu á óformlegri menntun innan skólakerfisins. Kennarar námsbrautarinnar eru í innlendu og erlendu rannsóknarsamstarfi og hafa fengið styrki úr samkeppnissjóðum sem hafa gert þeim kleift að stofna til þverfaglegs samstarfs víða um heim.
Jakob Frímann Þorsteinsson, aðjúnkt við HÍ og einn af stofnendum námsbrautar í tómstundafræði framkvæmdi nýverið rannsókn sem lýtur að gagnsemi og gæðum námsins. „Fyrstu niðurstöður sýna að öll sem svöruðu könnuninni segjast á heildina litið vera ánægð með grunnnám í tómstunda- og félagsmálafræði við HÍ. Nemendur eiga auðvelt með að fá vinnu þegar námi líkur og nærri 90% svarenda telja að námið hafi búið sig vel undir verkefni í núverandi starfi. Útskrifaðir nemendur vinna flestir á vettvangi frítímans með fólki á öllum aldri eða í öðrum menntastofnunum. Það kom skýrt fram í svörum nemenda að þeir töldu að námið væri „mannbætandi“, 92% svarenda sögðu að námið hafi aukið sjálfsöryggi sitt, 93% töldu bæði að námið hafi eflt siðferðislega dómgreind sína og vitund um samfélagslega ábyrgð.“
Skapandi leiðir og leikir fyrir alla aldurshópa
Fjórir fyrirlesarar munu taka til máls á ráðstefnunni á fimmtudag. Rannveig Björk Þorkelsdóttir, leikkona og dósent við HÍ, mun fjalla um mikilvægi leiksins í skóla – og frístundastarfi. Í erindi sínu leggur hún til að fagfólk leggi meiri áherslu á leik í lífi og starfi en Rannveig hefur kennt leiklist í Háteigsskóla um árabil. Þórey Sigþórsdóttir, leikkona, mun kynna til sögunar nýtt námskeið fyrir eldri borgara þar sem leikgleðin er í forgrunni. Jörgen Nilsson, markþjálfi, mun segja frá notkun leiks í starfi ungmennabúða og þann mikla árangur sem sú aðferð hefur skilað í starfi. Loks mun Ingvi Hrannar Ómarsson, sérfræðingur í skólaþróunarteymi mennta- og menningarmálaráðuneytisins, fjalla um mikilvægi þess að nýta skapandi leiðir og leiki í skólastarfi í ríkara mæli og draga samtímis úr bóknámi. Ingvi Hrannar hefur hlotið ótal viðurkenningar fyrir störf sín á innlendum og erlendum vettvangi. Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, mun jafnframt ávarpa ráðstefnuna en hún var ein sú fyrsta sem lauk doktorsnámi í tómstundafræði hér á landi.
Að lokinni dagskrá geta gestir kynnt sér ýmis nýsköpunarverkefni sem tengjast leiknum, svo sem tómstundakistuna, útiveruappið og leikföng hjá Krumma. Stefnt er að því að fylgja Tómstundadeginum eftir með vinnusmiðjum um leiki í janúar.