Mikilvægt að erlendir nemendur séu hluti af háskólasamfélaginu
Emily Helga Reise hefur tekið við starfi alþjóðafulltrúa Stúdentaráðs Háskóla Íslands en þetta er í annað sinn sem ráðið er í stöðuna. Alþjóðafulltrúi hefur yfirumsjón með þjónustu Skrifstofu Stúdentaráðs við erlenda nemendur, gætir hagsmuna þeirra og auðveldar þeim að gerast virkir þátttakendur í háskólasamfélaginu. Fulltrúinn er jafnframt trúnaðaraðili erlendra nema við Háskóla Íslands.
Emily ætlar að leggja áherslu á vel sé tekið á móti erlendum nemum og að þeim verði gert kleift að aðlagast og kynnast betur háskólasamfélaginu og íslensku samfélagi. Hún ætlar að halda áfram að bæta og þróa mentorakerfið, eins og forveri hennar í starfi, enda gegni mentorar afar mikilvægu hlutverki í að bjóða erlenda nemendur velkomna og hjálpi þeim að verða hluti af samfélaginu. „Mentorkerfið gagnast líka íslenskum nemum sem stefna á að læra eða vinna í útlöndum og vilja kynnast fólki frá öðrum heimsálfum. Tengslin sem myndast eru dýrmæt og nemendur fá alþjóðlega reynslu sem getur nýst þeim vel síðar meir,“ segir Emily.
„Að mínu mati er háskólinn nær tvískiptur í dag, annars vegar Háskóli Íslands fyrir íslenska nemendur og hins vegar the University of Iceland fyrir erlenda nemendur. Við þurfum að hugsa nemendahópinn meira sem eina heild og vera meðvitaðri um að erlendu nemarnir séu hluti af háskólasamfélaginu,“ segir Emily. Hún bendir á að það sé líka mjög mikilvægt að styðja við stækkandi hóp íslenskra nema af erlendum uppruna. „Ég vil sjá til þess að Háskóli Íslands fagni þessari auknu fjölbreytni og taki á móti nýjum íslenskum nemum af erlendum uppruna opnum örmum og veiti þeim tækifæri til að mennta sig og greiði þar með götuna fyrir meiri fjölbreytni í íslensku samfélagi.“
Auk þess að gæta hagsmuna erlendra nemenda og sjá um að útvega þeim mentor vinnur alþjóðafulltrúi með Skrifstofu alþjóðasamskipta að skipulagningu viðburða, s.s. kynningardögum fyrir erlenda nemendur og Alþjóðadögum Háskóla Íslands sem haldnir eru árlega. Alþjóðafulltrúi tekur svo þátt í daglegum störfum Skrifstofu Stúdentaráðs í samráði við forseta. Emily er einnig fulltrúi Stúdentaráðs í Aurora sem er samstarfsnet níu evrópskra háskóla.
Emily hefur nýlokið grunnnámi í sálfræði við Háskóla Íslands. Hún er hálf þýsk og hálf íslensk en ólst upp í Svíþjóð. Hún þekkir af eigin raun hvernig er að vera erlendur nemi, bæði við skóla í Hollandi og hér við HÍ, og býr því yfir dýrmætri reynslu og innsýn sem nýtist í starfi alþjóðafulltrúa.
Emily er á Skrifstofu Stúdentaráðs á 3. hæð á Háskólatorgi (HT336) og er með opna viðtalstíma alla miðvikudaga og föstudaga kl. 10.00-12.00. Þá má hafa samband við hana í gegnum netfangið internationalcommittee@hi.is eða í síma 5700850.