Skip to main content
16. júní 2021

Mikil ásókn í námskeið Menntafléttunnar

Mikil ásókn í námskeið Menntafléttunnar - á vefsíðu Háskóla Íslands

Nærri 800 kennarar og stjórnendur á öllum skólastigum, stuðningsfulltrúar, fagfólk skólabókasafna og starfsfólk í frístundastarfi hafa skráð sig á starfsþróunarnámskeið Menntafléttunnar. Í boði eru tuttugu fjölbreytt námskeið sem hefjast næsta haust en skráning stendur yfir. Þátttakendur sem hafa skráð sig til leiks koma af öllu landinu og sem dæmi má nefna eiga 60% allra grunnskóla landsins skráðan þátttakanda í Menntafléttunni. Öll námskeiðin eru kennurum og starfsfólki í menntakerfinu að kostnaðarlausu.

Menntafléttan er samstarfsverkefni Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og Kennarasambands Íslands. Mennta- og menningarmálaráðuneytið styrkir Menntafléttuna og öll námskeiðin eru kennurum og starfsfólki í menntakerfinu að kostnaðarlausu. Viðfangsefni námskeiða snerta fjölbreytt svið náms, kennslu, sjálfbærrar þróunar, vellíðunar, frístundastarfs og forystu.

Sem dæmi um spennandi námskeið má nefna:

Höfum áhrif! Menntun til sjálfbærni á unglingastigi sem ætlað er kennurum í grunnskólum. Markmið námskeiðsins er að styrkja leiðtoga á unglingastigi við að leiða hóp samkennara sinna í  námssamfélagi með samræðum um menntun til sjálfbærni. Lögð verður áhersla á að styðja þátttakendur í að beita gagnrýnum og umbreytandi kennsluháttum sem verka bæði valdeflandi á þá og nemendur þeirra. Leiðarljós námskeiðsins eru að þátttakendur geti leitt þverfagleg verkefni sem taka á áskorunum samtímans og framtíðarinnar.

Tungumál og tjáning í náttúruvísindum sem er ætlað náttúruvísindakennurum í framhaldsskólum. Markmið námskeiðsins er að búa til vettvang þar sem náttúruvísindakennarar í framhaldsskólum hafa tækifæri til að greina, skoða og efla þátt tungumáls og tjáningar í námi í náttúruvísindum á framhaldsskólastigi. Þátttakendur kynna sér kennsluaðferðir sem hafa það að markmiði að efla skilning á orðaforða náttúruvísindanna og efla færni í margvíslegri notkun vísindalegs orðfæris. Kennsluaðferðirnar tengjast til dæmis orðanotkun, lestri, ritun og umræðum.

Allar upplýsingar um námskeiðin má sjá á vef Menntamiðju og þar er einnig hægt að skrá sig.   

Sjá einnig: Starfsþróun í menntakerfinu efld með ríkulegu fjárframlagi

 

Nærri átta hundruð kennarar af öllum skólastigum hafa skráð sig á starfsþróunarnámskeið Menntafléttunar. Í boði eru tuttugu fjölbreytt námskeið sem hefjast næsta haust en skráning stendur yfir.