Skip to main content
4. október 2023

Miðstöð í lýðheilsuvísindum og Mænuskaðastofnun í samstarf

Miðstöð í lýðheilsuvísindum og Mænuskaðastofnun í samstarf - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Auður Guðjónsdóttir, stjórnarformaður Mænuskaðastofnunar Íslands, og Thor Aspelund, prófessor við Miðstöð í lýðheilsuvísindum (MLV) við Háskóla Íslands, undirrituðu í vikunni samning um samstarfsverkefni sem felur í sér að miðstöðin rannsaki faraldsfræði mænuskaða undanfarna tvo áratugi og mögulega nýtingu gervigreindar til að styðja þau sem hlotið hafa slíkan skaða.

Mænuskaðastofnun er félag áhugafólks um að lækning finnist við mænuskaða og hefur það verið starfrækt allt frá árinu 2007. Félagið gengur nú til samstarfs við MLV um verkefnið ,,Mænuskaði og gervigreind“. Í því felst að MLV mun rannsaka faraldsfræði mænuskaða á árunum 2000-2022 en í því felst að greina nýgengi og algengi eftir kynjum og aldri þar sem orsakir eru raktar til slysa. Enn fremur er gert ráð fyrir að MLV taki saman yfirlit um tegund og niðurstöður rannsókna á gagnsemi gervigreindar til stuðnings fólki með mænuskaða.

Mænuskaðastofnun veitir MLV fjárhagslegan stuðning til þess að ráða starfsmann, Margréti Jóhannesdóttur, hjúkrunarfræðing og MS í lýðheilsufræði, í tímabundið starf til rannsóknarinnar og kennslu á sviði mænuskaða. Enn fremur mun Margrét vinna með Mænuskaðastofnun og gegna um leið lykilhlutverki í að styrkja og styðja við virkt samstarf Mænuskaðastofnunar og MLV.

Markmiðið með samstarfinu þannig að skapa sameiginlegt virði fyrir báða aðila, íslenskt samfélag og alþjóðlegt vísindasvið sem snertir mænuskaða.
 

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Auður Guðjónsdóttir, stjórnarformaður Mænuskaðastofnunar Íslands, og Thor Aspelund, prófessor við Miðstöð í lýðheilsuvísindum (MLV) við Háskóla Íslands undirrita samstarfssamninginn
Fulltrúar HÍ og Mænuskaðastofnunar Íslands við undirritunina. MYND/Kristinn Ingvarsson
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Auður Guðjónsdóttir, stjórnarformaður Mænuskaðastofnunar Íslands, og Thor Aspelund, prófessor við Miðstöð í lýðheilsuvísindum (MLV) við Háskóla Íslands undirrita samstarfssamninginn.