Skip to main content
21. apríl 2023

Miðstöð í lýðheilsuvísindum hlýtur Íslensku lýðheilsuverðlaunin

Miðstöð í lýðheilsuvísindum hlýtur Íslensku lýðheilsuverðlaunin - á vefsíðu Háskóla Íslands

Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands hlýtur Íslensku lýðheilsuverðlaunin í flokki starfsheilda í ár fyrir framlag sitt til aukinnar þekkingar og skilnings á lýðheilsu á Íslandi, en verðlaunin voru afhent í fyrsta sinn á Bessastöðum síðasta vetrardag. 

Íslensku lýðheilsuverðlaunin eru samvinnuverkefni embættis forseta Íslands, heilbrigðisráðuneytisins, embættis landlæknis, Geðhjálpar og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, tilkynnti um stofnun verðlaunanna í ávarpi sínu á nýársdag 2023. Í febrúar var kallað eftir tillögum frá almenningi að verðugum verðlaunahöfum og fram kemur á vef forsetaembættisins að hátt í 350 tillögur hafi borist úr ýmsum áttum. Sérstök valnefnd fjallaði um tillögurnar og tilnefndi þrjá aðila í tveimur flokkum, flokki einstaklinga og flokki stafsheilda. Að lokum var einn einstaklingur og ein starfsheild sæmd verðlaununum. 

Snorri Már Snorrason hlaut verðlaunin í einstaklingsflokki og tók hann við þeim úr hendi forseta Íslands. Sem fyrr segir fékk Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands verðlaunin í flokki starfsheilda og tók Arna Hauksdóttir, prófessor í lýðheilsuvísindum, við verðlaununum úr hendi Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra fyrir hönd Miðstöðvarinnar. 

„Miðstöð í Lýðheilsuvísindum (MLV) fæst við fjölbreyttar faraldsfræðilegar rannsóknir á áhrifaþáttum heilsu, ekki síst áhrifum áfalla. Meðal þeirra má nefna rannsóknir á áhrifum ofbeldis og samfélagslegra áfalla, svo sem efnahagshruns og náttúruhamfara. Nú síðast hefur miðstöðin staðið að stórum ferilrannsóknum á borð við Áfallasögu kvenna og Líðan þjóðar á tímum Covid-19. Allar þessar rannsóknir eru unnar í alþjóðlegu samstarfi þar sem MLV er oft í forystuhlutverki. Að mati valnefndar má fullyrða að engin stofnun eða rannsóknahópur hafi lagt jafnmikið af mörkum til aukinnar þekkingar og skilnings á lýðheilsu á Íslandi og MLV,“ segir á vef forsetaembættisins.

Miðstöð í lýðheilsuvísindum var stofnuð árið 2007 og til viðbótar við yfirgripsmiklar rannsóknir, sem fengið hafa fjölmarga stóra styrki innan lands og utan, ber miðstöðin ábyrgð á framhaldsnámi í lýðheilsuvísindum, faraldsfræði og líftölfræði við HÍ. Námið er skipulagt í samstarfi við öll fræðasvið HÍ og sinna kennarar við MLV kennslu og leiðbeiningu nemenda í samstarfi við  margar deildir HÍ og gestakennara frá innlendum og erlendum stofnunum í fararbroddi á sínum sviðum. 

Frá stofnun Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum hafa 126 nemendur lokið meistaragráðu, 21 doktorsgráðu og 176 viðbótardiplóma í lýðheilsuvísindum og starfa þau nú við fjölbreytt störf m.a. á sviðum rannsókna, lýðheilsu og í mennta- og heilbrigðiskerfinu.

Rannsóknarverkefni á vegum Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum
 

Áfallasaga kvenna

  • 32.000 konur tóku þátt
  • Öndvegisstyrkir frá Rannís og Evrópska rannsóknaráðinu
  • Framhalds- og undirrannsóknir í undirbúningi

 
Líðan í Covid – Covidment

  • Íslenska rannsóknin tekur til 24 þúsund einstaklinga frá 4 tímapunktum
  • MLV leiðir samstarf 6 þjóða í rannsóknum um langtímaáhrif COVID-19 á heilsufar og líðan
  • Samstarfið felur í sér ferilrannsóknir sem samtals innihalda yfir 550 þúsund þátttakendur

 
Náttúruhamfarir og heilsa

  • Náttúruhamfarir: Snjóflóðin á Flateyri/Súðavík, Eyjafjallajökull, flóðbylgjurnar í SA Asíu 2004 (sænskir þolendur)
  • Gögn: Spurningalistar og heilbrigðisgagnagrunnar
  • Styrkir: Rannís og Nordforsk

 
InPreSS (International Pregnancy Drug Safety Studies) 

  • Áhrif lyfjameðferða á meðgöngu og barn
  • Nordforsk og aðrir alþjóðlegir sjóðir

 
CoMorMent (Genetics of comorbidities between psychiatric- and cardiovascular disease)

  • Horizon 2020

 
Streita og lifun sjúklinga eftir greiningu lungnakrabbameins

  • Styrkir frá Rannís og Cancerfonden í Svíþjóð

 
Framköllun fæðinga á Íslandi

  • Styrkur frá Rannís

 
Áhættuþættir og þróun krónískra sjúkdóma 

  • Hjartasjúkdóma (Hjartavernd)
  • Gigt og verkir (klínískar rannsóknir)
Hluti af rannsóknarteymi Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum ásamt forseta Íslands
Frá afhendingu verðlaunanna á Bessastöðum. Frá vinstri: Guðni Th. Jóhannesson, Snorri Már Snorrason, Arna Hauksdóttir og Willum Þór Þórsson.
Arna Hauksdóttir, prófessor í lýðheilsuvísindum, tók við verðlaununum úr hendi Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra fyrir hönd Miðstöðvarinnar. 
Rannsakendur innan Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum