Metár og meira en milljón lesendur á Vísindavefnum í fyrra
Rúmlega 1,1 milljón notenda heimsótti Vísindavefinn á liðnu ári og er það í fyrsta sinn sem notendur eru fleiri en ein milljón. Notendum fjölgaði um nærri fimmtung frá árinu 2019 og reyndust svör tengd kórónuveirufaraldrinum vinsælasta efnið á vefnum í fyrra.
Samkvæmt tölum Modernus, sem rekur samræmda vefmælingu á Íslandi, voru notendur Vísindavefsins um 1.150.000 og fjölgaði þeim um 18% frá árinu 2019. Flettingar jukust um rúmlega 13% á milli ára og nálgast nú fjórar milljónir. Flettingar hafa sjaldan vaxið jafn mikið á milli ára og má það hugsanlega rekja til nýs útlits vefsins sem tekið var í notkun snemma árs 2020, en nú eru tengd svör aðgengilegri en áður.
Flestir lesendur heimsóttu Vísindavefinn í marsmánuði 2020, eða alls um 164.000, og flettu þeir um 380.000 síðum. Á þessum tíma var fyrsta bylgja COVID-19-faraldursins í hámarki og langflestir notendur lásu svör sem tengdust faraldrinum. Aðsóknarmet á einum degi var hins vegar sett 20. október og hafði þar mest að segja stór jarðskjálfti á Reykjanesskaga. Þann dag heimsóttu um 10.000 manns Vísindavefinn og lásu flestir fjölmörg svör um jarðskjálfta.
Vikulegur meðalnotendafjöldi árið 2020 var um 37.000. Langflestir komu í 13. viku ársins eða rétt tæplega 50.000 og er það enn eitt metið sem féll á seinasta ári. Samkvæmt árslista Modernus reyndist Vísindvefurinn þriðji mest sótti vefur landsins í fyrra.
Þegar litið er á vinsældir einstakra svara þá kemur eflaust ekki á óvart að svör sem tengdust COVID-19-faraldinum vöktu einna mesta athygli árið 2020. Fjölmargir höfundar Vísindavefsins sinntu þessu brýna máli, sérstök ritnefnd var sett á laggirnar og vinnuhópur þjóðaröryggisráðs um upplýsingaóreiðu og COVID-19 leitaði sérstaklega eftir samstarfi við Vísindavefinn vegna faraldursins. Tíu mest lesnu svör Vísindavefsins snertu m.a. grímunotkun, uppruna kórónuveirunnar og leiðir til að berjast gegn henni en nánar má lesa um þau og vaxandi vinsældir vefsins síðustu ár á vefnum sjálfum.