Menntavísindasvið og Fróðir foreldrar í samstarf
Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Fróðir foreldrar hafa tekið höndum saman og standa sameiginlega að hagnýtri fræðslu fyrir foreldra barna. Stefnt er að því að halda regluleg fræðslukvöld um fjölbreytt viðfangsefni er varða uppeldi barna og ungmenna.
Fróðir foreldrar er margverðlaunað samstarfsverkefni foreldrafélaga grunnskóla í Vesturbæ, Miðborg og Hlíðum, frístundamiðstöðvarinnar Tjarnarinnar, ungmennaráða Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða og þjónustumiðstöðvar hverfanna. Samtökin hafa m.a. staðið fyrir fræðslukvöldum nokkrum sinnum á ári sem hafa notið mikilla vinsælda.
Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, bindur miklar vonir við samstarfið og telur það mikilvægt skef til að tengjast samtökum foreldra enn betur. „Innan raða sviðsins eru starfandi fræðimenn og kennarar á sviðum uppeldis- og menntunar, íþrótta- og heilsueflingar, tómstunda- og félagsstarfs. Þeir búa yfir miklum fróðleik sem Menntavísindasvið telur brýnt að nái til almennings. Foreldrar eru einn sá hópur sem við viljum gjarnan ná betur til, t.d. með því að miðla til þeirra rannsóknaniðurstöðum sem snúa að velferð barna. Við lítum einnig á foreldra sem okkar bandamenn um gott menntakerfi og framúrskarandi uppeldisaðstæður íslenskra barna og ungmenna, frá fæðingu fram á fullorðinsár,“ segir Kolbrún enn fremur.
Á fyrsta fræðslukvöldinu verða fjórir fræðimenn með stutt og aðgengileg erindi um matvendni, áhrif feðra, söngþroska og árangursríka uppeldishætti. Fræðslukvöldið fer fram miðvikudaginn 16. janúar kl. 20:00 í húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands í Stakkahlíð og er yfirskrift fundarins: Er ég að klúðra þessu?
Dagskrá fundarins má finna HÉR.
Aðgangur er ókeypis og eru allir áhugasamir velkomnir. Skráning fer fram HÉR.