Meðal 200 bestu á sviði verkfræði og tækni í heiminum
Tímaritið Times Higher Education birti í dag lista yfir bestu háskóla heims á sviði verkfræði og tækni og þar er Háskóli Íslands í sæti 176-200. Þetta er þriðji listi tímaritsins yfir bestu háskóla heims á afmörkuðum fræðasviðum sem Háskólinn ratar á.
Fyrr í haust birti Times Higher Education heildarlista yfir bestu háskóla heims tímabilið 2017-2018 og þar var Háskólinn í 201.-250. sæti. Tímaritið birtir einnig lista yfir fremstu háskóla heims á fjölmörgum fræðasviðum og hafa nokkrir þeirra þegar litið dagsins ljós.
Mat Times Higher Education á bestu háskólunum á sviði verkfræði og tækni nær til fjölbreyttra verkfræðigreina, þar á meðal rafmagns-, véla-, iðnaðar- og efnaverkfræði auk almennra verkfræðigreina. Alls eru 500 háskólar á hinum nýbirta lista og Háskóli Íslands raðast þar í sæti 176-200 sem fyrr segir.
„Það er sérstaklega ánægjulegt að fá þessa staðfestingu á sterkri alþjóðlegri stöðu verkfræðinnar í Háskóla Íslands. Verkfræðideildirnar mennta lykilfólk fyrir íslenskt samfélag og rannsóknir í verkfræði takast á við áskoranir samtímans, bæði í íslensku og alþjóðlegu samhengi. Þessi sterka alþjóðlega staða endurspeglar einnig það frjóa samstarf sem verkfræðideildir Háskóla Íslands eiga við fjölmarga samstarfsaðila í íslensku atvinnulífi sem styrkir bæði okkar nemendur og rannsóknir,“ segir Sigurður Magnús Garðarsson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands.
Við mat á gæðum einstakra fræðasviða innan háskóla horfir tímaritið til sömu þátta og við mat á háskólum í heild, þ.e. rannsóknastarfs, áhrifa rannsóknanna í alþjóðlegu vísindastarfi, gæða kennslu, námsumhverfis og alþjóðlegra tengsla. Jafnframt er tekið tillit til rannsókna- og birtingarhefða á hverju fræðasviði fyrir sig.
„Háskóli Íslands gegnir veigamiklu hlutverki í íslensku samfélagi og er fjármagnaður að stærstum hluta af íslenskum skattgreiðendum. Að skólinn sé meðal 200 bestu í verkfræði og tækni í harðri alþjóðlegri samkeppni er mikilvæg viðurkenning á starfi skólans. Ég óska íslensku samfélagi og starfsfólki og stúdentum Háskóla Íslands til hamingju með þennan frábæra árangur,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Listi Times Times Higher Education yfir fremstu háskóla heims á sviði verkfræði og tækni er þriðji matslisti tímaritsins sem tengist afmörkuðum fræðasviðum sem Háskóli Íslands kemst á. Hinir tveir eru eru á sviði hugvísinda og félagsvísinda. Matslistar Times Higher Education eru meðal þeirra áhrifamestu og virtustu í heimi þessu sviði og undirstrika alþjóðlegan styrk Háskóla Íslands þvert á fræðasvið.
Von er á fleiri listum frá Times Higher Education síðar í haust, annars vegar á sviði lífvísinda, sálfræði, læknisfræði og lýðheilsuvísinda og hins vegar náttúruvísinda.
Nánari upplýsingar um lista Times Higher Education yfir bestu háskóla heims á sviði verkfræði og tækni má finna á heimasíðu tímaritsins.