Markmiðið að nemendur nái að ljúka námskeiðum
Tilkynning frá rektor til nemenda og starfsfólks 20. mars 2020:
„Kæru nemendur og starfsfólk.
Neyðarstjórn Háskóla Íslands fundaði í morgun (20.3. 2020) eins og sérhvern dag í vikunni og mun gera áfram. Neyðarstjórn vill koma eftirfarandi á framfæri:
-
Háskólaráð Háskóla Íslands heldur rafrænan fund í dag þar sem til afgreiðslu er tillaga rektors um að fræðasvið og deildir ákveði í samaráði við kennslusvið með hvaða hætti framkvæmd kennslu, prófa og námsmats verði á þessu misseri. Markmiðið er að tryggja eftir því sem framast er unnt að nemendur nái að ljúka námskeiðum og að námsmat fari eftir gildandi reglum.
-
Þetta var einnig rætt á fundum rektors með helstu stjórnendum Háskólans í morgun og fulltrúum Stúdentaráðs. Í næstu viku verður málið unnið áfram í deildum skólans og kynnt áætlun um hvernig staðið verði að lúkningu misserisins og námsmati.
-
Vegna hugsanlegra erfiðleika doktorsnema og nýdoktora, sem eru styrkhafar, við að sinna námi og vinnu við núverandi aðstæður er þeim bent á að kynna sér upplýsingar á COVID-19 síðu Háskólans.
-
Í ljósi tímabundinna vandamála við doktorsvarnir er öllum hlutaðeigandi einnig bent á að kynna sér upplýsingar á COVID-19 síðu Háskólans.
-
Starfsfólk er beðið um að tilkynna um sóttkví eða smit til næsta yfirmanns. Nemendur eru vinsamlega beðnir um að tilkynna slíkt til deildar. Fræðasvið upplýsi neyðarstjórn með tölvupósti til neydarstjorn@hi.is.
-
Almennar upplýsingar er að finna á COVID-19 síðu Háskóla Íslands. Einnig er minnt á netspjallið.
Fyrstu vinnuviku í samkomubanni vegna útbreiðslu COVID-19 er nú að ljúka. Það hefur verið mikil áskorun fyrir nemendur, kennara og annað starfsfólk að takast á við gerbreyttar aðstæður í skólastarfinu. Allir hafa lagst á eitt um að láta hlutina ganga upp. Þetta hefur tekist vonum framar og vil ég færa ykkur öllum miklar þakkir fyrir einstakt framlag og samheldni.
Förum nú inn í helgina til að hvílast, endurnærast og hlúa að okkur sjálfum, fjölskyldum og vinum. Framundan er ný vika með nýjum áskorunum og munum við takast á við þær af einurð og auðmýkt.
Verum varkár og virðum leiðbeiningar stjórnvalda um hreinlæti og smitvarnir. Við erum öll almannavarnir.
Með bestu kveðju,
Jón Atli Benediktsson, rektor“