Málþing á lokadögum sýningarinnar Andlit til sýnis
Sýningin „Andlit til sýnis: Íslendingar og aðrir á Kanarísafninu“ á Þjóðarbókhlöðunni hefur verið framlengd til 27. október en jafnframt verður efnt til hádegismálþings í tilefni lokunar sýningarinnar.
Sýningin, sem var opnuð 14. maí, byggist á samnefndri bók eftir Kristínu Loftsdóttur, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands, sem var gefin út af Sögufélaginu á síðasta ári. Sýningin varpar ljósi á samtengdan heim út frá brjóstmyndasafni á Kanaríeyjum, sem Íslendingar eru hluti af. Kristín er jafnframt sýningarhöfundur ásamt mannfræðingnum Önnu Lísu Rúnarsdóttur.
Í tilefni að lokun sýningarinnar verður haldið stutt hádegismálþing á ensku þann 22. október. Yfirskrift þess á íslensku er „Á ferðinni – Ísland og heimur á hreyfingu“. Kristín kynnir í stuttu máli hluta rannsóknarinnar sem liggur að baki bókinni og að því loknu mun fræðifólk gefa nokkur dæmi um birtingarmyndir fólks og hluta á hreyfingu og hvað það hefur að gera með samtímann. Til máls taka Sigurjón B. Hafsteinsson, prófessor í safnafræði við Háskóla Íslands, Katla Kjartansdóttir, doktorsnemi í menningarfræðum við Háskóla Íslands, Goda Cicėnaitė, doktorsnemi í hnattrænum fræðum við Háskóla Íslands, og Unnur Dís Skaptadóttir, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands. Málstofustjóri verður Ólafur Rastrick, prófessor í þjóðfræði.
Eftir málstofuna verður boðið upp á kaffi og kleinur og áhugasömum boðið að ganga um sýninguna með Önnu Lísu Rúnarsdóttur.