Lyfjafræðideild HÍ fær styrk til aukins norræns samstarfs
Lyfjafræðideild Háskóla Íslands var með í Nordforsk-styrkumsókn sem hlaut 250 milljón króna styrk í nóvember. Að umsókninni stóðu 10 lyfjafræðiháskólar á Norðurlöndunum og skiptist styrkurinn á milli þeirra. Markmiðið með honum er að auka og þétta samstarf þessara 10 lyfjafræðiháskóla. Áherslan er á rannsóknir í lyfjagjöf (e. drug delivery), nýja framleiðsluhætti lyfja, klíníska þýðingu þeirra og þverfaglega nálgun innan lyfjafræðinnar.
Styrknum má skipta í þrennt:
- Aukinn hreyfanleiki nema á milli skóla sem nýtist doktorsnemum og ungu vísindafólki í þessum 10 skólum þannig að þeir geta farið á námskeið og ráðstefnur sem eru innan þessa samstarfsnets og þeir geta einnig dvalið við skólana tímabundið til að nota rannsóknaraðstöðu.
- Samstarf um námskeið fyrir doktorsnema.
- Þjálfun ungra vísindamanna í samstarfi við nokkur stór lyfjafyrirtæki á Norðurlöndunum.
Þetta þýðir að doktorsnemar og ungir vísindamenn við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands geta farið til hinna lyfjafræðiskólanna og notað aðstöðu þar í sínum verkefnum. Doktorsnemar við deildina komast einnig á námskeið í þessu samstarfsneti án endurgjalds.
„Styrkurinn er gríðarlega mikilvægur fyrir okkur í Lyfjafræðideild HÍ og gerir okkur kleift að vera áfram í samstarfi við stærstu lyfjafræðideildirnar innan háskólanna á Norðurlöndunum,“ segir Hákon Hrafn Sigurðsson, prófessor við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands.
Gríðarlega mikilvægt fyrir Lyfjafræðideild HÍ
Verkefnið leiðir Christel Bergström frá Uppsalaháskóla og Hákon Hrafn Sigurðsson prófessor er tengiliður fyrir Lyfjafræðideild HÍ. Þessir skólar hafa verið í samstarfi síðan 2018 og er á þeim tíma búið að byggja upp gott tengslanet. Verkefnið sem er styrkt núna hefst 1. júní 2024 með sumarskóla í Óðinsvéum en það mun standa í fjögur ár.
„Styrkurinn er gríðarlega mikilvægur fyrir okkur í Lyfjafræðideild HÍ og gerir okkur kleift að vera áfram í samstarfi við stærstu lyfjafræðideildirnar innan háskólanna á Norðurlöndum. Með því fáum við betri aðgang að námskeiðum fyrir okkar doktorsnema og einnig mun meira aðgengi að rannsóknaraðstöðu sem okkur vantar hér heima,“ segir Hákon Hrafn Sigurðsson.
Um norræna samstarfið
Nordforsk er norræn stofnun sem starfar á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og hefur umsjón með og styrkir rannsóknasamtarf á Norðurlöndum. Stofnunin setti á fót áætlunina Nordic University Hubs sem ætlað er að styrkja enn frekar samstarf norrænna háskóla, m.a. stuðla að starfsmannaskiptum, ráðstefnum og frekari rannsóknum sem snerta norrænu ríkin í víðu samhengi.
Þá taka vísindamenn við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands þátt í samstarfsnetinu Nordic POP en markmið þess er að leggja grunn að lyfjaþróun framtíðarinnar þar sem áhersla verður á einstaklingsmiðaða lyfjagjöf til þess að ná hámarksárangri við meðferð kvilla og sjúkdóma. Byggt verður á þverfræðilegri nálgun innan verkefnisins og mikil áhersla verður á nýsköpun. Alls koma lyfjafræðideildir 10 norrænna háskóla frá öllum norrænu ríkjunum að verkefninu sem er unnið undir forystu lyfjafræðideildar Kaupmannahafnarháskóla.