Langflestir telja aðgerðir sóttvarnayfirvalda skila árangri
Mikill meirihluti svarenda í könnun á þátttöku og afstöðu Íslendinga til sóttvarnaaðgerða almannavarna vegna COVID-19-faraldursins telur að aðgerðirnar dugi til þess að hægja verulega á útbreiðslu faraldursins. Hins vegar telja einungis á milli 34 og 47 prósent svarendanna að Íslendingar almennt fari eftir tilmælunum að miklu eða öllu leyti. Að könnuninni stendur Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands í samstarfi við Jón Gunnar Bernburg og Sigrúnu Ólafsdóttir, prófessora í félagsfræði, og Magnús Þór Torfason, lektor í viðskiptafræði. Niðurstöður rannsóknarinnar eru m.a. birtar á Vísindavef Háskóla Íslands sem hefur ásamt íslenska vísindasamfélaginu ýtt úr vör átaki um upplýsta umræðu um COVID-19.
Könnunin sem um ræðir byggist á netpanel Félagsvísindastofnunar, sem samanstendur af fólki 18 ára og eldra á landinu öllu. Hún hefur verið send í áföngum á allan panelinn, tæplega 10.000 manns, frá upphafi aprílmánaðar, eða um 400 einstaklinga á hverjum degi en með því er hægt að greina hvernig afstaða Íslendinga breytist yfir tíma.
Í kynningu á niðurstöðum könnunarinnar, sem finna má á Vísindavef Háskóla Íslands, er bent á að þær óvenjulegu aðstæður sem nú eru uppi, með tilheyrandi samkomubanni og takmörkunum á samskiptum fólks, veki upp mikilvægar spurningar um hegðun almennings á tímum óvissu og hættu. Upplýsingar um hegðun og viðhorf almennings með tilliti til sóttvarnaraðgerða yfirvalda á meðan þær standa yfir séu mjög verðmætar, ekki síst eftir að faraldurinn hefur gengið yfir og vísindafólk fer í þá vinnu að meta árangur aðgerðanna.
Innan við helmingur telur Íslendinga almennt fylgja tilmælum
Niðurstöðurnar sem kynntar eru nú ná til þróunar í þátttöku í og afstöðu almennings til sóttvarnaraðgerðanna dagana 1.-19. apríl, en könnunin mun halda áfram fram í maí. Niðurstöðurnar hingað til leiða í ljós að mikill meirihluti svarenda, yfir 95 prósent, hafi á öllu tímabilinu haft þá trú á að sóttvarnaraðgerðir myndu „mjög líklega“ eða „frekar líklega“ skila þeim árangri að hægja verulega á faraldrinum. Þá segjast tæplega 90 prósent svarenda hafa fylgt tilmælunum að frekar miklu eða öllu leyti allt tímabilið sem skoðað er. Enn fremur sýna niðurstöður könnunarinnar að á milli 71 og 85 prósent svarenda telja að þeir aðilar sem þeir eru í mestum samskiptum við fylgi tilmælum almannavarna að mjög miklu eða öllu leyti. „En mikið dregur úr þessu hlutfalli þegar svarendur eru spurðir um hegðun allra annarra í samfélaginu; en einungis á milli 34 og 47 prósent svarendanna töldu að Íslendingar almennt væru að fara eftir tilmælunum að miklu eða öllu leyti,“ segir í niðurstöðunum á Vísindavefnum.
Rannsakendurnir undirstrika að niðurstöðurnar bendi til þess að mikill meirihluti almennings hafi fylgt tilmælum Almannavarna strax í upphafi. „Trú almennings á aðgerðirnar og að þær myndu skila árangri var sömuleiðis mjög sterk, jafnvel á meðan faraldurinn var í fullum vexti,“ segja þeir og benda á að útbreidd þátttaka almennings í sóttvarnaraðgerðum sé líkleg til að hafa átt veigamikinn þátt í hægum vexti faraldursins.
Á vef Félagsvísindastofnunar má finna frekari niðurstöður úr könnuninni en þar sést t.d. að áhyggjur svarenda af faraldrinum sveiflast nokkuð á áðurnefndu tímabili og mælast mestar þegar hann er í hámarki. Þar má líka skoða afstöðu svarenda til einstakra spurninga út frá bakgrunnsbreytum eins og kyni, aldri, búsetu og menntun.
Rannsakendurnir undirstrika að niðurstöðurnar bendi til þess að mikill meirihluti almennings hafi fylgt tilmælum Almannavarna strax í upphafi. „Trú almennings á aðgerðirnar og að þær myndu skila árangri var sömuleiðis mjög sterk, jafnvel á meðan faraldurinn var í fullum vexti,“ segja þeir og benda á að útbreidd þátttaka almennings í sóttvarnaraðgerðum sé líkleg til að hafa átt veigamikinn þátt í hægum vexti faraldursins. MYND/Júlíus Júlíusson
Vísindasamfélagið með átak um upplýsta umræðu um COVID-19
Framlag hópsins á Vísindavefnum er liður í átaki sem vefurinn og íslenskt vísindasamfélag hafa blásið til og ber heitið „Framlag vísindasamfélagsins – upplýst umræða um COVID-19“. Þar er vísindafólk af öllum fræðasviðum hvatt til að leggja sitt af mörkum til umræðunnar í formi efnis á Vísindavefnum en það geta verið „svör við tilteknum spurningum, tölulegar staðreyndir, ábendingar um traust og vandað vísindalegt efni í erlendum miðlum, leiðréttingar á rangfærslum, hagfræðileg ráðgjöf, svör við siðferðilegum álitamálum eða hvaðeina sem vísindamönnum dettur í hug að gagnist almenningi, stjórnvöldum, fjölmiðlafólki og öðrum á óvissutímum,“ eins og segir á Vísindavefnum.
Sérstök ritnefnd hefur tekið til starfa í tengslum við átakið og er hægt að senda framlög eða hugmyndir að framlögum á netfangið visindavefur@hi.is.
Nú þegar má finna mikinn fjölda svara á Vísindavefnum sem snertir þennan skæða faraldur en einnig veirur almennt og COVID-19.