Læsi er lykill að menntun
Tveir helstu vísindamenn heims á sviði læsis halda erindi á ráðstefnunni „Læsi er lykill að menntun“ sem fer fram í dag, fimmtudaginn 3. mars, kl. 15-18 í Skriðu, fyrirlestrarsal Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Rannsóknasetur um menntun og hugarfar stendur fyrir ráðstefnunni ásamt Háskóla Íslands með stuðningi sendiráðs Bretlands á Íslandi.
Streymi frá ráðstefnunni
Er læsi lykill að menntun? Hvernig verðum við læs? Hvers vegna er læsi og lesskilningur mikilvægur fyrir menntun og möguleika fólks í samfélagslegri þátttöku?
Læsi er lykill að menntun sem gerir okkur fært að verða virkir þátttakendur í samfélaginu til gagns fyrir okkur sjálf og aðra. En einnig er læsi grundvöllur lýðræðis, félagslegs réttlætis og jafnréttis. Rannsóknir sýna að kunnátta og færni til að skilja prentaðan texta og tjá sig í rituðu máli skipti miklu og stuðli að farsælli skólagöngu og samfélagsþátttöku. Börn sem ekki ná þessari grunnfærni í grunnskóla standa höllum fæti og eru líklegri til að eiga erfitt uppdráttar hvað varðar framhaldsnám og þátttöku í atvinnulífi.
Tveir helstu vísindamenn heims á sviði læsis halda erindi á ráðstefnunni, þær Dr. Margaret Snowling og Kate Nation, prófessorar við Oxford-háskóla í Bretlandi. Dr. Snowling hefur um árabil rannsakað hvernig börn öðlast tök á tungumálinu og hvernig læsi á texta opnar gátt að merkingu og skilningi. Hún hefur sérstaklega beint sjónum sínum að lesblindu. Dr. Nation mun í erindi sínu velta upp spurningunni hvað börn þurfi að kunna til að læra en rannsóknir hennar hafa beinst að tengslum á milli talaðs og ritaðs máls og hvaða kennsluaðferðir skili helst markvissum árangri fyrir öll börn.
Hermundur Sigmundsson, prófessor við Háskóla Íslands og NTNU-háskóla í Noregi, mun einnig fjalla um áskoranir í íslensku menntakerfi og þróunar- og rannsóknarverkefni sem hafið er í grunnskólanum í Vestmannaeyjum með áherslu á læsi, gróskuhugarfar og námsárangur. Auk hans mun Jón Pétur Zimsen, skólastjóri Melaskóla, flytja erindið „Allir skipta máli“.
Ávörp flytja einnig forseti Íslands, mennta- og barnamálaráðherra, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sendiherra Bretlands á Íslandi og rektor Háskóla Íslands.
Í ráðstefnulok verður Rannsóknarsetur um menntun og hugarfar og heimasíða setursins opnuð.
Dagskrá ráðstefnu:
15:00 Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson setur ráðstefnuna
15:05 Ávarp mennta- og barnamálaráðherra - Ásmundur Einar Daðason
15:10 Ávarp sendiherra - Bryony Matthew
15:15 Áskoranir í íslensku menntakerfi - Hermundur Sigmundsson
15:35 Vísindin að baki læsi - Kate Nation
16:30 Kaffihlé
16:50 Vísindin að baki læsi - Margaret J. Snowling
17:40 Allir skipta máli - Jón Pétur Zimsen
17:50 Ávarp rektors - Jón Atli Benediktsson
17:55 Ávarp háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra - Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir
Í lok ráðstefnunnar mun Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra mun opna nýja heimasíðu Rannsóknarseturs um menntun og hugarfar. Háskóli Íslands og Samtök atvinnulífsins standa saman að setrinu sem hefur aðsetur við Menntavísindasvið. Hermundur Sigmundsson, prófessor við Háskóla Íslands og NTNU-háskóla í Noregi, mun leiða rannsóknir á vegum setursins ásamt teymi innlendra og erlendra fræðimanna. Rannsóknir á vegum setursins munu beinast að grunnfærni í læsi og lestri, stærðfræði, náttúrufræði. Einnig verður lögð áhersla á rannsóknir á tengslum hreyfingar og vitsmunastarfsemi og á mikilvægi ástríðu, gróskuhugarfars og flæðis í skólaumhverfinu. Sérstök áhersla er á að efla samstarf við atvinnulíf, sveitarfélög og skóla á landsbyggðinni.