Kveðjufjarfundur með skiptinemum
Á þessum tíma árs eru haldnir kveðjufundir fyrir erlenda skiptinema sem hafa verið við nám í Háskóla Íslands og farið yfir ýmis praktísk atriði varðandi prófatímabil og hverju þarf að huga að áður en haldið er heim aftur. Í gær héldum við fundinn í gegnum fjarfundakerfi og var þátttaka með eindæmum góð. Þátttakendur voru staddir í fjölmörgum löndum þar sem um helmingur skiptinemanna eru nú þegar farnir til síns heima vegna kórónuveirufaraldursins en aðrir hafa ákveðið að vera áfram á Íslandi út skólaárið.
Á fundinum var farið yfir ýmis hagnýt atriði varðandi skiptinámið, auk þess sem Náms- og starfsráðgjöf bauð upp á erindi um listina að snúa heim aftur (The art of coming home). Þá fengu nemendur örfyrirlestur um íslensk páskaegg og málshætti.
Nær 200 erlendir skiptinemar stunda nám við HÍ á vormisseri. Skrifstofa alþjóðasamskipta og alþjóðafulltrúi SHÍ leggja áherslu á að vera í góðu sambandi við nemendur og taka stöðuna á þeim reglulega. Til þess að kortleggja enn betur stöðu þeirra var nýlega send út könnun þar sem m.a. var kannað hvort þau væru enn á landinu, farin heim eða á heimleið. Nær allir nemendurnir hyggjast halda áfram að stunda námið við HÍ í fjarnámi.
Við þökkum öllum þeim sem tóku þátt fundinum í gær og óskum nemendum góðs gengis í fjarnáminu.