Kveðja frá Menntavísindasviði
Erla Kristjánsdóttir, fyrrv. lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, lést 27. október sl., 84 ára að aldri.
Erla fæddist á Akureyri 13. október 1940. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1960 og kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1968. Erla lauk BA-prófi í uppeldisfræði við Háskóla Íslands 1982 og meistaranámi í menntunarfræði við Harvard-háskóla 1985.
Erla var kennari við Melaskóla 1970-1978, starfaði hjá skólarannsóknadeild menntamálaráðuneytisins, var námsstjóri í samfélagsfræði, meðal annars samhliða störfum í Melaskóla. Hún var stundakennari við Kennaraháskóla Íslands frá 1978 og gegndi síðar stöðu lektors allt til 2010 er hún lét af störfum fyrir aldurs sakir, en sinnti kennslu við skólann allt til 2018. Hún var jafnframt kennslustjóri Kennaraháskólans árin 1991-1999.
Erla var frumkvöðull á sviði menntunar og leiddi fram ýmsar nýjungar í skólastarfi. Hún kynnti íslenskum kennurum fjölgreindarkenninguna, og ruddi brautina fyrir fjölbreyttar og skapandi kennsluaðferðir, s.s. leikræna tjáningu. Hún lagði áherslu á mikilvægi tilfinningagreindar í námi og var í forystusveit þeirra sem byggðu upp lífsleiknikennslu í skólum við lok síðustu aldar. Þannig var hún á undan sinni samtíð hér á landi. Mig grunar þó að hún hefði viljað sjá menntayfirvöld nýta þá þekkingu mun markvissar og því miður var lífsleiknikennsla ekki innleidd á þann hátt sem hún sá fyrir sér.
Erla var mikil fræðikona og einkar vel lesin. Hún átti mikið safn fræðibóka og var afskaplega örlát þegar kom að því að „lána“ bækur. Mörg okkar sem unnu með og kynntumst Erlu þáðum slíka gjöf. Menntavísindasvið og skólasamfélagið allt missti ákaflega dýrmæta samstarfskonu þegar Erla lét af störfum. Því miður átti hún við erfið veikindi að stríða síðustu árin en naut góðrar umönnunar fjölskyldu sinnar og starfsfólki á hjúkrunarheimilinu Skjóli.
Ég sendi sonum hennar tveimur, Gunnlaugi og Birni, öðrum ástvinum innilegar samúðarkveðjur. Megi minning Erlu Kristjánsdóttur lifa.
Kolbrún Þ. Pálsdóttir
Forseti Menntavísindasvið HÍ
Kveðja frá Menntavísindasviði
Erla Kristjánsdóttir, fyrrv. lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, lést 27. október sl., 84 ára að aldri.