Krónan og Rio Tinto hlutu Hvatningarverðlaun jafnréttismála 2022
Krónan og Rio Tinto hlutu Hvatningarverðlaun jafnréttismála 2022 en verðlaunin voru afhent á fundi um jafnréttismál í Hátíðasal Háskóla Íslands í morgun. Samtök atvinnulífsins og Háskóli Íslands standa að verðlaununum, en í ár var sérstakur Jafnréttissproti veittur vegna framtaks með tilliti til fjölmenningar, fötlunar og annarra brýnna viðfangsefna jafnréttismála.
Markmiðið með Hvatningarverðlaunum jafnréttismála er að vekja athygli á fyrirtækjum sem sett hafa jafnrétti á oddinn og jafnframt að hvetja önnur fyrirtæki til þess að gera slíkt hið sama. Stjórnendur og starfsfólk fyrirtækja sem skapað hafa góða fyrirtækjamenningu þar sem jafnrétti og virðing fyrir fjölbreytileika samfélagsins liggur til grundvallar voru hvattir til að senda inn tilnefningu í umsóknarferlinu.
Dómnefnd veitti Krónunni hvatningarverðlaun jafnréttismála á sviði kynjajafnréttis árið 2022.
Krónan hefur markvisst unnið að jafnrétti innan fyrirtækisins og er ávinningurinn áþreifanlegur. Tekið er mið af jafnréttismálum í stefnumótun fyrirtækisins og á síðastliðnum tveimur árum hafa stjórnendur byggt af miklum krafti ofan á traustan grunn félagsins þar sem horft er til jafnréttis í víðum skilningi.
Krónan hefur stefnu, skýran tilgang og markmið í málefnum starfsmanna af erlendum uppruna og hefur fjölbreytni í starfsmannavali fest þar rætur. Sýnt hefur verið fram á mælanlegan árangur af þeim markmiðum og aðgerðum sem fyrirtækið hefur sett sér í málefnum starfsfólks af erlendum uppruna og eru þau meðvituð um rekstrarlegan ávinning af fjölbreytni á vinnustað.
Með virkri umræðu og aðgerðum innan fyrirtækisins hafa þau náð eftirtektarverðum árangri í að bæta hlutföll kvenna og starfsfólks af erlendum uppruna í lykilstöðum fyrirtækisins.
Krónan hefur sýnt að með markvissum aðgerðum og meðvitund má gera stórar breytingar á stuttum tíma og er sá árangur til fyrirmyndar.
„Við hjá Krónunni erum afar stolt og þakklát fyrir hvatningarverðlaunin. Fjölbreytileiki skiptir svo sannarlega máli og við viljum gefa starfsfólki okkar tækifæri á að vaxa í starfi óháð kyni, uppruna, bakgrunni, aldri, trúarbrögðum og kynhneigð. Við höfum síðustu misseri lagt aukna áherslu á að veita fleiri konum, hinsegin fólki og fólki af erlendum uppruna brautargengi innan félagsins og munum áfram mæla árangurinn til að ná markmiðum okkar. Við vitum að jafnrétti gerist ekki sjálfkrafa og meðvitund um málið er því mikilvæg. Við einsetjum okkur því að forðast einsleitni í ráðningum og vera meðvituð um okkar eigin hlutdrægni,“
segir Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, við þetta tilefni.
„Fjölbreytileiki leiðir af sér skapandi umræðu, aukið umburðarlyndi, skilning fyrir ólíkum sjónarmiðum og víðsýnni mynd á áskoranir og tækifæri. Fjölbreytileiki eykur einfaldlega samkeppnishæfni. Við erum alls konar í okkar samfélagi og vinnustaðir eiga að endurspegla það í ráðningum sínum. Ég er afar ánægð að vera treyst fyrir því að leiða þessa sýn áfram með stjórnendum Krónunnar. Sýn sem Ásta S. Fjeldsted, nú forstjóri Festi í fæðingarorlofi, lagði grunninn að fyrir tveimur árum.“
Þá veitti dómnefnd Rio Tinto Jafnréttissprotann 2022.
Jafnréttismál hafa löngum verið hornsteinn í starfsemi Rio Tinto á Íslandi og hlaut félagið til að mynda Hvatningarverðlaun jafnréttismála fyrst fyrirtækja árið 2014. Nýlega hafa tvö ný frumkvæðisverkefni verið innleidd í starfsemi fyrirtækisins sem eru veigamikið og framsækið skref í jafnréttismálum. Annars vegar er um að ræða útfærslu á fæðingastyrk og hins vegar stuðningur við starfsfólk sem er þolandi heimilisofbeldis. Rio Tinto einsetur sér að vera í fremstu röð og eru þetta framtak til marks um vilja fyrirtækisins og ásetning um að setja jafnrétti, hagsmuni og velferð starfsfólks í forgang.
Stuðningur við þolendur heimilofbeldis hefur vakið verulega athygli annarra fyrirtækja og leggur Rio Tinto áherslu á að vera leiðandi á vinnumarkaði til framtíðar með jafnrétti að leiðarljósi.
„Við tökum stolt á móti þessari viðurkenningu. Jafnrétti er eitt af leiðarstefum í starfsemi okkar og við setjum heilsu og öryggi starfsfólks okkar í forgang. Þessi tvö frumkvæði sem Rio Tinto hlýtur jafnréttissprotann fyrir sýna með beinum hætti hvernig við vinnum að því að stuðla að jafnrétti og hvernig við störfum í samræmi við okkar gildi og sýnum umhyggju fyrir starfsfólki okkar. Orðum þurfa að fylgja raunverulegar aðgerðir og áætlanir. Það er nýlunda að vera með viðbragðsáætlun og stuðning við starfsfólk sem er þolandi heimilisofbeldis. Vonandi reynir ekki oft á þetta en ef þessar aðstæður koma upp viljum við að starfsfólk upplifi stuðning fyrirtækisins.
Varðandi fæðingarstyrkinn er hann augljós ávinningur fyrir nýja þjóðfélagsþegna og styrkir fæðingarorlof fjölskylduböndin. Einnig hefur aukin þátttaka í töku fæðingarorlofs, og þá ekki síður feðra en mæðra, jákvæð áhrif í rekstri fyrirtækisins. Margir þeirra hafa komið til baka úr fæðingarorlofi reynslunni ríkari og samveran með ungabarninu hefur stóreflt virðingu þeirra fyrir lífi og heilsu. Því má segja að taka fæðingarorlofs bæti öryggisvitund og virðingu fyrir heilsu og öryggismálum en í því felst mikill ávinningur fyrir fyrirtækið,“
sagði Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto, við afhendingu virðurkenningarinnar.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra flutti ávarp á verðlaunaafhendingunni og tilkynnti um verðlaunahafa.
„Þótt Ísland mælist best og hæst í jafnrétti á alþjóðavísu erum við svo langt frá því að vera búin. Í raun þýðir árangurinn að við séum skást og eigum mikið eftir. Ef við höldum ekki áfram þá munum við ekki leiða önnur lönd í rétta átt. Jafnrétti og jöfn tækifæri eru hluti af öllum málaflokkum í okkar samfélagi,“ sagði Áslaug.