Skip to main content
14. desember 2023

Kennsluverðlaun HVS afhent tveimur framúrskarandi kennurum

Kennsluverðlaun HVS afhent tveimur framúrskarandi kennurum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 14. desember voru veittar viðurkenningar fyrir virka kennsluþróun og nýmæli í kennslu á Heilbrigðisvísindasviði HÍ fyrir árið 2023 og voru þær veittar til tveggja framúrskarandi kennara. Var þetta liður í kennsluþróunardegi HVS þar sem umræður um kennsluhætti og nýjungar í kennslu fóru fram. Það var Unnur Þorsteinsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs HÍ, sem veitti viðurkenningarnar.

Kennsla á hvaða skólastigi sem er er eitt af mikilvægustu störfum samfélagsins og góður kennari getur haft gríðarleg mótandi áhrif á nemendur sína, t.d. getur hann haft mikil áhrif áhugasvið þeirra og þar með hugsanlega framtíðarstarf nemanda og alla lífsýn. Það muna allir eftir góðum kennara og þeir hafa allir sett mark sitt á líf okkar á einn eða annan hátt. 

Annar aðilinn sem hlaut viðurkenningu er Þóra Jenný Gunnarsdóttir, prófessor, sem hefur kennt við hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild um árabil í ýmsum námskeiðum auk þess að gegna öðrum mikilvægum trúnaðarstörfum fyrir deildina. Hún hefur alla tíð sýnt kennslumálum mikinn áhuga og þá sérstaklega í grunnnáminu þar sem hún hefur þróað og haft umsjón með stórum klínískum námskeiðum. 

Þóra Jenný hefur verið formaður námsnefndar grunnnáms um árabil og allt frá árinu 2008 hefur hún unnið að undirbúningi, þróun og skipulagi nýrrar námsskrár. Án þess að hallað sé á þátt annarra í deildinni er óhætt að segja að Þóra Jenný hafi gegnt lykilhlutverki við endurskoðun námskrár grunnnáms hjúkrunarfræði við síðustu endurskoðun. Hún hefur fylgt námsskrárbreytingum mjög vel eftir og af metnaði sem kennslustjóri og síðar með því að vinna náið með kennslustjórum sem á eftir henni komu, kennurum og nemendum. Einnig hefur hún, haldið utan um fræðsludaga fyrir klíníska leiðbeinendur og tekið þátt í gerð leiðbeininga fyrir klíníska leiðbeinendur sem taka á móti nemendum á vettvangi. Árið 2019 hlaut Þóra Jenný styrk frá Kennslumálasjóði til uppbyggingar kennslu við Hjúkrunarfræðideild 2019-2020. Markmið verkefnisins var að efla kennslu í nýrri námskrá sérstaklega fyrir þriðja árs nemendur sem sett var upp sem lotukennsla. 

Eftir að grunnnám í hjúkrunarfræði fyrir fólk með annað háskólapróf var tekið upp í Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild, sem er nýlunda hér á landi, hefur Þóra Jenný verið lykilaðili í lausn flókinna vandamála við skipulags námsins. Það er óhætt að segja að Þóra Jenný sé einn af máttarstólpum þessarar stóru deildar.

Hinn aðilinn sem fékk viðurkenningu er Sævar Ingþórsson, dósent, sem sér um kennslu í stórum námskeiðum á fyrsta misseri BS náms í hjúkrunarfræði og hefur svo eftir er tekið sett sig einstaklega vel inn í kennslu stórra hópa og hvernig virkja má nemendur í hópum til náms. Hann er vinsæll meðal nemenda, þau finna að hann hefur áhuga á að þau læri og skilji það efni sem hann er að kenna. Kennsluaðferðir Sævars í þessum grunngreinum hjúkrunar- og ljósmóðurfræðinnar hafa skilað sér í vel undirbúnum nemendum þegar þau takast á við  klínísk viðfangsefni, svo sem heilsufarsmat, sjúkdómafræði og hjúkrun mismunandi sjúklingahópa. 

Sævari er í mun að þróa sína kennslu til að mæta þörfum nemenda í takt við stíganda í námsskrá. Hann er virkur í samræðum um kennslumál og hans kennslusýn er til fyrirmyndar. Auk þess að sjá um og kenna grunngreinar hjúkrunarfræðinnar hefur Sævar leiðbeint í BS verkefnum í hjúkrunarfræði og með þeim hefur honum tekist vel að tengja grunngreinar heilbrigðis- og lífvísinda klínískri hjúkrun sjúklinga. Vinna hans í þeim efnum er til fyrirmyndar. 

Auk þess að sinna kennslu og umsjón námskeiða hefur Sævar gegnt stjórnunar- og trúnaðarstörfum í deildinni, á Heilbrigðisvísindasviði og miðlægt við Háskólann. Hann er m.a. formaður Kynningarnefndar Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar og formaður Jafnréttisnefndar Heilbrigðisvísindasviðs.

Sævari tekst með einstakri lagni og fagmennsku að flétta grunngreinar lífvísinda við hjúkrunarþarfir sjúklinga og meðferð þeirra þannig að eftir er tekið. Hann glæðir kennslu sína lífi sem gerir nemendum kleift að tileinka sér efnið og nýta í áframhaldandi nám og vinnu. 
 

Sævar Ingþórsson og Þóra Jenný Gunnarsdóttir hlutu Kennsluverðlaun HVS 2023 fyrir virka kennsluþróun og nýmæli í kennslu. 2023 fyrir
Verðlaunahafarnir ásamt Unni Þorsteinsdóttur, forseta Heilbrigðisvísindasviðs HÍ, sem afhenti verðlaunin.