Jörundi Svavarssyni færðar þakkir
Jörundur Svavarsson, prófessor í sjávarlíffræði, hefur látið af störfum í ráðgefandi nefnd Stofnunar rannsóknasetra en hann sat sinn síðasta fund í nefndinni í ágúst sl. Jörundur hélt kveðjuboð sl. föstudag fyrir framhaldsnemendur og starfsfólk Líf- og umhverfisvísindadeildar, Rannsóknaseturs HÍ á Suðurnesjum og annað samstarfsfólk, í starfsstöð setursins í Sandgerði.
Háskólaráð tilnefndi Jörund formann ráðgefandi nefndar Stofnunar rannsóknasetra þegar nefndin var sett á laggirnar í byrjun árs 2014, en áður hafði hann setið í stjórn Stofnunar fræðasetra Háskóla Íslands frá stofnun hennar árið 2003. Jörundur varð dósent í sjávarlíffræði við Háskóla Íslands árið 1987 og prófessor í sjávarlíffræði frá 1992. Hann lauk BS-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1977, meistaraprófi í dýrafræði frá Háskólanum í Gautaborg árið 1984 og doktorsprófi frá sama skóla 1987.
Jörundur hefur frá upphafi verið lykilmaður í starfsemi Stofnunar rannsóknasetra (áður fræðasetra) Háskóla Íslands. Hann var formaður stjórnar Háskólaseturs Suðurnesja í Sandgerði (nú Rannsóknaseturs HÍ í Sandgerði) frá stofnun þess árið 2004, en upphaf setursins má m.a. rekja til rannsóknarverkefnisins Botndýr á Íslandsmiðum (BIOICE) sem hófst árið 1992. BIOICE-verkefnið og framhald þess hefur stórlega aukið þekkingu á lífríkinu á botni sjávar við Ísland, og m.a. leitt í ljós tugi dýrategunda sem áður voru óþekktar í heiminum og mörg hundruð tegundir botndýra sem ekki var áður getið við Ísland. Rannsóknasetrið í Sandgerði sinnir m.a. rannsóknum á útbreiðslu nýrra tegunda í hafinu við Ísland og áhrifum mengandi efna á sjávarlífverur sem er meðal sérsviða Jörundar en hann hefur verið leiðandi í rannsóknum á flokkun og dýralandafræði krabbadýra með sérstaka áherslu á jafnfætlur. Hann hefur einnig rannsakað vistfræði margvíslegra sjávardýra og jafnframt staðið fyrir viðamiklum verkefnum á þeim sviðum. Jörundur hefur gefið út bækur og birt fjölmargar greinar um sjávarlíffræði. Hann hefur skipulagt alþjóðlegar ráðstefnur sem haldnar voru hér á landi og verið ritstjóri um árabil fyrir tímaritið Zootaxa á fræðasviði krabbadýra.
Jörundur var forvígismaður þess að sýningin Heimskautin heilla var sett upp í Þekkingarsetri Suðurnesja 2007. Sýningin er helguð rannsóknastarfi franska vísindamannsins og heimskautafarans Jean-Baptiste Charcot sem fórst með skipi sínu Pourqoui-pas? ásamt áhöfn við Álftanes á Mýrum árið 1936. Á sýningunni er líkt eftir brú og káetu í skipi frá tíma Charcots og þar má líta fjölmarga merka gripi sem afkomendur Charcots og aðrir velunnarar hafa gefið. Árið 2012 sæmdu Frakkar Jörund Chevalier des Palmes Académiques-orðunni fyrir störf hans að sýningunni en orðan er veitt fyrir afrek á sviði vísinda og fræða.
Jörundur hefur verið ötull við að laða ungt fólk til starfa við rannsóknir og leiðbeint fjölda meistara- og doktorsnema. Það er mikið fagnaðarefni að þótt störfum fyrir Háskóla Íslands sé formlega lokið heldur Jörundur áfram leiðbeiningu doktorsnema og rannsóknasamstarfi við Rannsóknasetur HÍ á Suðurnesjum. Stofnun rannsóknasetra færir honum bestu þakkir fyrir ómetanlegt framlag hans til rannsóknasetra Háskólans.