Skip to main content
18. janúar 2024

Jón Pétur hlaut fyrsta styrk Vísindasjóðs Lungnasamtakanna

Jón Pétur hlaut fyrsta styrk Vísindasjóðs Lungnasamtakanna - á vefsíðu Háskóla Íslands

Eliza Reid, forsetafrú og verndari Lungnasamtakanna, afhenti fyrsta styrk úr Vísindasjóði Lungnasamtakanna við hátíðlega athöfn í húsnæði samtakanna í Borgartúni mánudaginn 15. janúar. Styrkinn hlaut Jón Pétur Jóelsson, nýdoktor við Háskóla Íslands og Landspítala.

Jón Pétur vinnur að rannsókn á meðferðarúrræði til að fyrirbyggja og/eða meðhöndla öndunarvélatengdan lungnaskaða í samstarfi við Sigurberg Kárason, yfirlækni á gjörgæslu Landspítalans á Hringbraut.

Öndunarvélarmeðferð er lífsbjargandi úrræði fyrir alvarlega veika sjúklinga gjörgæsludeilda. Hún getur þó leitt til alvarlegra fylgikvilla sem nefndur er öndunarvélatengdur lungnaskaði. Skortur er á meðferðaúrræðum til þess að hindra slíkan skaða. Vísbendingar eru um að sýklalyfið azithromycin hafi þekjustyrkjandi og bólgubreytandi eiginleika og snýr rannsóknin að því hvort lyfið geti spornað að einhverju leyti við lungnaskaða vegna öndunarvélarmeðferðar.

Vísindasjóður Lungnasamtakanna var stofnaður 2017. Tilgangur sjóðsins er að efla rannsóknir á orsökum lungnasjúkdóma, forvörnum og meðferð sem bæta munu lífsgæði lungnasjúklinga. Mikilvægur þáttur í því er að vekja áhuga nemenda á heilbrigðissviði á sérhæfingu á sviði lungnasjúkdóma. Lungnasamtökin leitast jafnframt við að styrkja starfsemi Vísindasjóðs Lungnasamtakanna sem mest þannig að mögulegt verði að styrkja rannsóknir til að uppfylla þau markmið. Því er leitað að styrktaraðilum, stórum sem smáum, sem leggja vilja sjóðnum lið.
 

Styrkinn hlaut Jón Pétur Jóelsson nýdoktor við Háskóla Íslands og Landspítala. Með honum á myndinni er Eliza Reid verndari Lungnasamtakanna.