Skip to main content
17. október 2025

Jón Atli kjörinn heiðurs-senator við Innsbruck-háskóla

Jón Atli kjörinn heiðurs-senator við Innsbruck-háskóla - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, fyrrverandi rektor Háskóla Íslands, hefur hlotið nafnbót heiðurs-senators við Leopold-Franzens háskólann í Innsbrück og tók hann við viðurkenningunni á árlegri háskólahátíð skólans (Dies Academicus) í dag, föstudaginn 17. október. Viðurkenninguna hlýtur Jón Atli fyrir framúrskarandi framlag á vettvangi Aurora-samstarfsnetsins.

Háskóli Íslands er einn af stofnháskólum Aurora-netsins, samstarfs níu evrópskra háskóla sem vinnur að kennsluþróun og nýsköpun í starfsemi háskóla með það fyrir augum að gera nemendum betur kleift að takast á við hnattrænar áskoranir samtímans. Jón Atli lagði í rektorstíð sinni við Háskóla Íslands mikla áherslu á eflingu samstarfsins en hann gegndi starfi forseta Aurora á árunum 2020-2024.

Í því starfi gengdi hann lykilhlutverki í að marka stefnu samstarfsnetsins og efla það en Innsbrück-háskóli gekk til liðs við netið í forsetatíð Jóns Atla sem jók mjög sýnileika háskólans innan og utan Evrópu, eins og segir í tilkynningu frá Innsbrück-háskóla vegna viðurkenningarinnar.

Jón Atli Benediktsson, fyrrverandi rektor Háskóla Íslands, ávarpar gesti á háskólahátíð Innsbrück-háskóla. MYND/Innsbrück-háskóli

„Á vettvangi Aurora hefur hann haft forystu um mótun sameiginlegra evrópskra námsskeiða og námsbrauta, samstarfsverkefna í rannsóknum og stefnumörkunar í menntamálum. Undir forystu hans hafði Háskóli Íslands frumkvæði um samvinnu um Aurora 2030 [nýjustu áætlun samstarfsnetsins], sem hlaut um 15 milljóna evra styrk frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, og leiddi verkefnið Aurora Research & Innovation sem nýtur stuðnings Horizon Europe,“ segir í einnig tilkynningu Innsbrück-háskóla.

Þá er Jóni Atla þakkað sérstaklega fyrir samstarfið í kringum vorfund Aurora í Innsbrück í maí 2022 en þar komu saman yfir 200 þátttakendur úr Aurora-háskólunum til að marka stefnu fyrir samstarfsnetið til framtíðar.

„Í forsetatíð sinni lagði hann einnig áherslu á samstöðu með Úkraínu með efldu samstarfi við V. N. Karazin Kharkiv National University í Kharkiv [sem er aukaaðili að Aurora]. Hann gengdi lykilhlutverki í fjáröflun þar sem 51.000 evrum var safnað til að styðja háskólastarf í stríðinu og koma á fót Aurora Karazin University Peace Hub – vettvangi fyrir friðarmenntun og umbreytingu átaka,“ segir í tilkynningu Innsbrück-háskóla. Þetta samstarf hafi náð hámarki með friðarráðstefnu Aurora í Innsbrück í febrúar síðastliðnum þar sem alþjóðlegir sérfræðingar úr háskólum, stjórnmálum og annars staðar úr samfélaginu komu sama til að ræða friðaruppbyggingu en viðburðurinn hafi eflt alþjóðlega stöðu Innsbrück-háskóla enn frekar.

Ávarp Jóns Atla við móttöku viðurkenningarinnar má nálgast hér.

Jón Atli tekur við viðurkenningunni við hátíðlega athöfn í Innsbrück-háskóla. MYND/Innsbrück-háskóli