Jón Atli endurkjörinn forseti Aurora
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, hefur verið endurkjörinn forseti Aurora-samstarfsnetsins til næstu tveggja ára. Netið vinnur nú að nýrri umsókn um stuðning frá Evrópusambandinu til næstu fjögurra ára sem miðar að því að efla enn frekar samstarf Aurora-háskólanna á sviði kennslu og rannsókna og er Háskóli Íslands þar í forystuhlutverki.
Jón Atli tók við sem forseti Aurora haustið 2020 og undir hans forystu hefur samvinna Aurora-háskólanna eflst, m.a. fyrir tilstilli veglegs styrks frá Evrópusambandinu en Aurora var valið sem eitt af svokölluðum European University háskólanetum sem er m.a. ætlað að efla samstarf evrópskra háskóla og styrkja þá til sóknar í samkeppni við háskóla annars staðar í heiminum.
Allir háskólarnir innan Aurora leggja áherslu á hágæðarannsóknir og áhrif á nærsamfélag og hefur styrkurinn frá ESB nýst til efla samstarf um rannsóknir, nýsköpun og kennslu í þágu þeirra samfélaga þar sem þeir starfa. Í úttekt á starfi Aurora, sem birt var nýverið, fékk netið framúrskarandi umsögn hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.
Aukið rannsóknasamstarf og nýjar sameiginlegar námsleiðir
„Við erum nú að hefja nýtt skeið með nýrri umsókn um styrk sem á að tryggja áframhaldandi fjármögnun Aurora University Alliance. Ég hef fylgst með hversu mikið bæði starfsfólk og stúdentar Aurora-háskólanna hafa lagt á sig í þágu samstarfsins og er sannfærður um að samstarfið mun halda áfram að eflast og skapa fleiri tækifæri fyrir nemendur, starfsfólk og samfélögin sem skólarnir starfa í,” segir Jón Atli.
Hann bætir við að mikil þekking hafi orðið til frá stofnun samstarfsnetsins ársins 2016, ekki síst eftir að það var valið eitt af háskólanetum Evrópu 2020. „Við getum nýtt þessa þekkingu til að draga lærdóm af starfinu hingað til og koma auga á þær áskoranir sem fram undan eru og takast á við þær með því að styrkja og samstilla stefnumörkun þvert á Aurora-skólana,” segir Jón Atli.
Jón Atli segist enn fremur stoltur af því að leiða Aurora-samstarfið áfram og hlakkar til að vinna nánar með nýjasta aðildarskóla samstarfsnetsins, Université Paris-Est Créteil í Frakklandi. Fram undan séu tækifæri til að efla rannsóknasamstarf vísindamanna úr háskólunum tíu og ýta úr vör sameiginlegum námskeiðum og námsleiðum ásamt því að þróa áfram háskólakennslu og virkja stúdenta enn frekar innan samstarfsins.
„Það eru spennandi tækifæri til samstarfs við háskóla sunnan miðbaugs og í Norður-Ameríku, þar á meðal University of Minnesota,“ segir Jón Atli og vísar í viljayfirlýsingu sem hann undirritaði ásamt Joan T.A. Gabel, rektor Minnesota-háskóla, í haust um að efla aðkomu háskólans að Aurora-samstarfinu. „Á sama tíma berast okkur hrikalegar fréttir af samstarfsskóla okkar í Úkraínu, Karazin-háskólanum í Kharkiv, og við munum halda áfram að styðja hann eins vel og við getum.“
Tækifæri til samstarfs víða í heiminum
Jón Atli bendir jafnframt á að skólarnir bindi miklar vonir við áframhaldandi stuðning frá ESB við samstarfið en ljóst sé að það muni halda áfram að þeim tíma loknum. „Það er hins vegar erfitt að ráðast í grundvallarbreytingar á háskólastarfi án þess hafa til þess langtímafjármögnun. Við munum leita ýmissa leiða til þess að tryggja að samstarf skólanna blómstri áfram,“ segir hann.
Samhliða þessu er ætlunin, að sögn Jóns Atla, að reyna að víkka út samstarfsnetið, bæði innan og utan Evrópu. „Það eru spennandi tækifæri til samstarfs við háskóla sunnan miðbaugs og í Norður-Ameríku, þar á meðal University of Minnesota,“ segir hann. Þar vísar Jón Atli í viljayfirlýsingu sem hann undirritaði ásamt Joan T.A. Gabel, rektor Minnesota-háskóla, í haust um að efla aðkomu háskólans að Aurora-samstarfinu. „Á sama tíma berast okkur hrikalegar fréttir af samstarfsskóla okkar í Úkraínu, Karazin-háskólanum í Kharkiv, og við munum halda áfram að styðja hann eins vel og við getum.“
Jón Atli segir ljóst að bæði áskoranir og tækifæri bíði Aurora-háskólanna á næstunni „en við munum hvergi hvika frá því markmiði okkar að nesta nemendur með þeirri færni og því hugafari sem þörf er á til að stuðla að samfélagslegum breytingum og takast á við áskoranir á alþjóðavettvangi.“
Um Aurora
Aurora er samstarfsnet öflugra evrópskra rannsóknaháskóla sem vinnur að kennsluþróun og nýsköpun í starfsemi háskóla til að mæta samfélagslegum áskorunum nútímans. Með þátttöku í Aurora öðlast starfsfólk Háskóla Íslands tækifæri til að kynnast nýjum kennsluaðferðum, taka þátt í viðburðum erlendis, laða að alþjóðlega nemendur í námskeið og finna evrópska samstarfsaðila í rannsóknum og kennslu. Háskólarnir í Aurora-netinu eru auk Háskóla Íslands, Vrije-háskólinn í Amsterdam (Hollandi), East Anglia háskóli (Englandi), Háskólinn í Duisburg-Essen (Þýskalandi), Háskólinn í Innsbruck (Austurríki), Háskólinn í Napólí – Federico II (Ítalíu), Roviri i Virgili háskólinn í Tarragona (Spáni), Palacký-háskólinn í Olomouc (Tékklandi), Copenhagen Business School (Danmörku) og Université Paris-Est Créteil (Frakklandi).
Auk þess eru eftirtaldir háskólar í samstarfi við Aurora: V. N. Karazin National University Kharkiv (Úkraínu), University of Tetova (Norður-Makedóníu), South-West University Neofit Rilski (Búlgaríu) og Pavol Jozef Safarik University Kosice (Slóvakíu).