Jóhanna Einarsdóttir sæmd heiðursdoktorsnafnbót
Jóhanna Einarsdóttir, prófessor og forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, var sæmd heiðursdoktorsnafnbót við Háskólann í Oulu í Finnlandi laugardaginn 20. maí. Hún var í hópi 23 vísindamanna sem hlutu heiðursdoktorsnafnbót að þessu sinni en nafnbótin er æðsta viðurkenning sem háskólinn veitir.
Í umsögn valnefndar kemur fram að Jóhanna hljóti nafnbótina fyrir vísindaframlag á sviði bernskurannsókna, menntunarfræða ungra barna og siðfræði rannsókna með ungum börnum. Jafnframt fyrir farsælt samstarf á sviði rannsókna og kennslu.
Síðastliðin ár hefur Jóhanna stundað rannsóknir í samstarfi við menntunarfræðideild Háskólans í Oulu og tekið þátt í stórum rannsóknarverkefnum sem hlotið hafa styrk frá Nord Forsk og finnska rannsóknarráðinu. Þá hefur hún kennt og leiðbeint doktorsnemum við skólann.
Jóhanna lauk doktorsprófi í menntunarfræðum frá University of Illinois í Bandaríkjunum um síðustu aldamót. Áður hafði hún starfað sem æfingakennari við Æfingaskóla Kennaraháskólans og sem kennari og stjórnandi framhaldsdeildar Fósturskóla Íslands. Hún var skorarstjóri leikskólaskorar Kennaraháskólans við sameiningu Fósturskólans og Kennaraháskólans, prófessor við Kennaraháskólann og síðar Háskóla Íslands. Árið 2013 tók hún við starfi sviðMenntavísindasviðs Háskóla Íslands. Jóhanna hefur um árabil unnið að stefnumótun í menntamálum hjá ríki og sveitarfélögum.
Jóhanna er brautryðjandi á sviði rannsókna í menntunarfræðum ungra barna hér á landi og hefur stundað rannsóknir bæði í leik- og grunnskólum. Eftir hana liggur fjöldi fræðigreina og bóka um efnið og hefur hún einnig mikla reynslu af því að ritstýra tímaritum og bókum. Hún stofnaði Rannsóknarstofu í menntunarfræðum ungra barna (RannUng) við Háskóla Íslands árið 2007 en stofan hefur verið leiðandi vettvangur fyrir rannsóknir og þróunarstarf í leikskólum landsins. Jóhanna hefur í gegnum tíðina verið í umfangsmiklu alþjóðlegu rannsóknarsamstarfi og stýrt evrópskum rannsóknarhóp á sviði bernskurannsókna. Enn fremur situr hún í stjórn European Early Childhood Education Research Association.
Háskólinn í Oulu er einn af stærstu háskólum Finnlands og veitir hann framúrskarandi vísindamönnum heiðursdoktorsnafnbót á fjögurra ára fresti. „Mér finnst það mikill heiður að taka við heiðursnafnbót við Háskólann í Oulu og að rannsóknir mínar hafi fengið æðstu viðurkenningu við þennan virta háskóla,“ segir Jóhanna að endingu.
Háskóli Íslands óskar Jóhönnu innilega til hamingju með heiðursdoktorsnafnbótina.