Skip to main content
30. september 2025

Íslenskt jarðvísindafólk uppgötvar steinristur frá bronsöld í Mongólíu

Íslenskt jarðvísindafólk uppgötvar steinristur frá bronsöld í Mongólíu - á vefsíðu Háskóla Íslands

Í sumar tók jarðvísindafólk frá Háskóla Íslands þátt í vettvangsleiðangri í Mongólíu á vegum Max Planck Institute for Social Anthropology í Jena í Þýskalandi. Um var að ræða rannsókn þar sem fléttuðust mjög óvænt saman jarðvísindi og fornleifarannsóknir. Vísindafólkið helgar sig rannsóknum í jarðfræði en uppgötvaði mjög óvænt í för sinni í Mongólíu þrjú þúsund ára gamlar steinristur sem voru áður óþekktar. Í förinni fyrir hönd HÍ voru Steffen Mischke, prófessor við Jarðvísindadeild HÍ og Elma Katrín Örvarsdóttir, grunnnemi í jarðfræði við skólann.

„Á meðan við unnum jarðfræðigreiningar á berangri í Altai-fjöllum í Mongólíu uppgötvuðum við áður óþekktar ristur frá bronsöld. Alls fundum við og skráðum um sextíu steinristur á tiltölulega litlu svæði. Bayarsaikhan Jamsranjav frá Fornminjastofnun Mongólíu, sem er sérfræðingur í bæði brons- og járnöld í Mongólíu, staðfesti að risturnar hefðu ekki verið þekktar áður.“

Þetta segir Steffen um þessa óvæntu uppgötvun íslenska jarðvísindafólksins. Uppgötvanir vísindamanna eru miklvægar, það eru engar fréttir. Þær eru ekki bara fólgnar í því að svipta hulunni af því óþekkta heldur geta þær stundum umbreytt samfélögum. Stundum breyta þær því hvernig við sjáum söguna og okkur sjálf. Uppgötvun eins og þessi færir mannkyninu mikið því hún tengir saman kynslóðir sem þúsundir ára skilja að. Þannig verður eitthvað sem var gert af einstaklingum á bronsöld sýnilegur partur af sameiginlegri arfleifð okkar allra.

Steffen

Steffen Mischke, prófessor við Jarðvísindadeild HÍ, við hluta af steinristunum sem þau Elma fundu.

„Þessi dagur verður svo sannarlega brenndur í minnið á mér og þetta voru gífurleg forréttindi að fá að sjá og uppgötva þessar merkilegu steinristur,“ segir Elma Katrín um þessa óvæntu uppgötvun.

„Ég og Steffen tókum okkur stutt hlé frá mælingunum sem við vorum að framkvæma á svæðinu. Ég man að Steffen ákvað að ganga eitthvað aðeins lengra og ég var á sama tíma að spyrja hann einhverja spurninga en ekkert svar fékkst frá honum. Ég leit upp og sá algjöra undrun og gleði á andlitinu hans. Ég spurði hann hvað hann væri nú að horfa á en ekkert svar fékkst fyrir undruninni. Ég gekk til hans og upplifði nákvæmlega sömu undrun og ánægju þegar ég sá steinristurnar sem voru fyrir framan hann. Eftir að við höfðum aðeins meðtekið þetta héldum við áfram að ganga og fundum fleiri og fleiri steinristur. Þá fyrst fórum við að átta okkur á því hvað þetta væri ótrúlegt og við gátum ekki annað en hlegið, við varla trúðum þessu.“

Að sögn Steffens hyggjast fornleifafræðingar í Mongólíu sækja um að svæðið allt, dalurinn með hellum hans, grafreitum og öðrum minjum, hljóti vernd sem heimsminjasvæði UNESCO.

Mikilvæg heimild um líf, trú og samfélag fólks á bronsöld

Steinristur sem þessar eru afar mikilvæg heimild um líf, trú og samfélag fólks sem lifði fyrir þúsundum ára á þessu svæði. Þær varpa ljósi á hvernig fólk túlkaði umhverfi sitt og samskipti við náttúruna og hver aðkoma þess var að landslagi og hugsanlega auðlindum sem það hafði aðgang að. Það er sannarlega óvænt að jarðvísindafólk uppgötvi ristur af þessum toga en rannsóknir á þeim geta einmitt tengt saman jarðfræði, fornleifafræði og mannfræði og veitt dýrmæta sýn á hvernig menning og náttúra fléttuðust saman í fortíðinni.

Elma

Elma Katrín Örvarsdóttir, grunnnemi í jarðfræði við HÍ, að vonum kát við við eina af steinristunum.

Að sögn Steffens hyggjast fornleifafræðingar í Mongólíu sækja um að svæðið allt, dalurinn með hellum hans, grafreitum og öðrum minjum, hljóti vernd sem heimsminjasvæði UNESCO. „Uppgötvun þessara steinrista mun reynast mikilvægur þáttur í þeirri umsókn,“ segir Steffen.

Uppgötvun þeirra Steffens og Elmu Katrínar úr Jarðvísindadeild HÍ sýnir okkur að ný þekking byggist ekki bara á samansafni vísindalegra staðreynda heldur getur hún verið brú milli löngu liðinnar fortíðar og tímans sem við lifum á. Þegar áður óséðar ristur birtast allt í einu nútímafólki á steini verða þær ekki lengur leyndardómur tiltekins tíma heldur lifandi partur af arfleifð allrar mannkynssögunnar.

Steinristur