Skip to main content
12. september 2023

Ísland verður leiðandi á sviði færni- og hermikennslu í heilbrigðisvísindum

Ísland verður leiðandi á sviði færni- og hermikennslu í heilbrigðisvísindum  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Í upphaf árs var tilkynnt um veglegan styrk úr sjóðnum Samstarf háskóla til að  efla færni- og hermikennslu í heilbrigðisvísindum, m.a. til að fjölga nemendum í klínísku námi í heilbrigðisvísindum hér á landi. Styrkfjárhæðin nam 165 milljónum kr. en við styrk úthlutunina var greint frá sambærilegu framlagi frá heilbrigðisráðuneytinu sem undirstrikar mikilvægi þessa verkefnis. Verkefnið hefur því úr 330 milljónum kr. að spila og er veitt til Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Háskólans á Akureyri, Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri. 

Samningur um uppbyggingu færni- og hermikennslu í heilbrigðisvísindum var undirritaður um miðjan júní af ráðherrum háskóla og heilbrigðismála og forsvarsmönnum háskóla og heilbrigðisstofnana sem standa að verkefninu. Skömmu síðar hófust framkvæmdir í húsnæði Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar Háskóla Íslands í Eirbergi til að stækka færni og hermisetið sem þar er. Þar stýrir málum Þorsteinn Jónsson hjúkrunarfræðingur og aðjunkt við deildina en hann er líklega sá einstaklingur hér á landi sem hefur mesta reynslu af hermikennslu og uppbyggingu á færni- og hermisetrum. Í aðdraganda framkvæmdanna í Eirbergi hefur Þorsteinn ferðast víða til að sjá hvað fremstu háskólar á sviði heilbrigðisvísinda eru að gera á þessu sviði.
 

Þorsteinn Jónsson, sérfræðingur í hjúkrun og aðjúnkt við Háskóla Íslands er líklega sá einstaklingur hér á landi sem hefur mesta reynslu af hermikennslu og uppbyggingu á færni- og hermisetrum. Í aðdraganda framkvæmdanna í Eirbergi hefur Þorsteinn ferðast víða til að sjá hvað fremstu háskólar á sviði heilbrigðisvísinda eru að gera á þessu sviði.

Sýndarsjúklingar sem svitna, blána og hafa púls

Þorsteinn segir til mikils að vinna að vel takist til við stækka færni- og hermisetrið, sem mun vera nýtt af bæði Háskóla Íslands og Landspítala, því kennsla í slíku setri sé á margan hátt bæði skilvirkari og öruggari en hefðbundið klínískt nám. Sem dæmi þá hefur komið fram að einn tími í hermisetri geti verið sambærilegur við 3-4 tíma í klínísku námi inni á heilbrigðisstofnun.
 

En hvað er færni- og hermikennsla?

„Við erum við að tala um tvær kennsluaðferðir sem styðja hvor aðra,“ segir Þorsteinn Jónsson. „Í báðum tilvikum er gjarnan verið að vinna með svokallaðan sýndarsjúkling sem hægt er að æfa sig á og umhverfi eins og við sjáum inni á sjúkrastofnunum. Ef við byrjum á færnikennslu þá er þar verið að kenna og æfa einstaka verkþætti, s.s. að setja upp æðalegg, þvaglegg, sprauta í æð og losa aðskotahlut úr hálsi svo einhver dæmi séu nefnd. Þetta er það sem á ensku er kallað skills training. Svo er það hinn hlutinn sem er vaxandi í okkar kennsluháttum og það er hermikennsla eða simulation. Þar er verið að taka þætti eða atriði saman og búa til það sem gætu verið raunverulegar aðstæður. Nemendur þurfa þá t.d. að setja upp æðalegg en jafnframt að bregðast við óvæntum aðstæðum, þar sem kennarar geta framkallað ótal mismunandi uppákomur og viðbrögð hjá sýndarsjúklingunum sem munu liggja hér inni hjá okkur í færni- og hermisetrinu. Ég nefni sem dæmi hjartastopp, andnauð og byrjun á heilablóðfalli, en ekki síður þjálfun í teymisvinnu þvert á stéttir og almenna þjálfun í samskiptum. Möguleikarnir eru endalausir. Sýndarsjúklingarnir verða af fullkomnustu gerð. Þeir eru í stærð fullorðinnar manneskju. Þeir eru með púls út í alla útlimi, geta svitnað, blánað í framan, gefið frá sér hljóð, fætt barn, veikst af öllum mögulegum vandamálum og sýnt ýmiskonar önnur viðbrögð. Svo geta þeir misst útlim og það er hægt að skera þá upp. Möguleikarnir skipta þúsundum. Þessar „dúkkur“ má segja að séu hálfgert tækniundur enda kosta þær sitt. Ávinningurinn af þessari kennsluaðferð er hins vegar óumdeildur og slíkt styðja fjölmargar rannsóknir. Nemendur fá kennslu í öruggum aðstæðum sem eykur faglegt sjálfstraust, teymisvinna eflist og nemendurnir læra betur inn á sjálfa sig og sín viðbrögð í krefjandi og afar raunverulegum aðstæðum.“

Að upplifa, sjá og reyna

Háskóli Íslands stækkaði færnisetrið í Eirbergi fyrir kennslu í Hjúkrunar- og ljósmóðurfræði árið 2016. Um hvað snúast þessar endurbætur núna?

„Færnisetrið, sem er byggt upp innan Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar og hefur hingað til verið nær eingöngu ætlað nemendum þeirrar deildar, er fyrir löngu orðið of lítið. Við erum því að stækka rýmið umtalsvert til að taka inn fleiri deildir háskólans og einnig Landspítala og um leið erum við að umbylta tæknihlutanum. Tæknilega erum við að taka risaskref og ef okkar áform ganga eftir þá má alveg segja að aðstaðan hér fyrir Háskóla Íslands og Landspítala verði á heimsmælikvarða þegar kemur að hermikennslu í heilbrigðisvísindum,“ segir Þorsteinn.

„Stefnt er að því að allar sex deildir Heilbrigðisvísindasviðs HÍ nýti sér þessa aðstöðu. Hjúkrunarfræðin, ljósmóðurfræðin, læknisfræðin og sjúkraþjálfunin líklega mest en einnig nemendur í öðrum heilbrigðisvísindagreinum eins og t.d. lyfjafræði, næringarfræði og sálfræði auk annara deilda utan sviðsins, eins og Félagsráðgjafardeild. Það er auðvitað fagnaðarefni því þessi tegund kennslu hefur sýnt sig að vera mjög öguð, krefjandi, markviss og árangursrík. Í hermikennslu er nemandinn sjálfur að upplifa viðfangsefni þar sem hann verður að taka þekkinguna sem er að verða til hjá honum og setja í puttana. Upplifa, sjá og reyna. Svo er samtalið eftir herminguna mikilvægasti þátturinn í þessari kennsluaðferð. Þar sest hópurinn niður með kennaranum og fer yfir; hvað gerðum við vel, hvað mátti gera betur og hvað lærðum við af þessu? kennslan er því einstaklingsmiðuð“ segir Þorsteinn og heldur áfram.

„Þróun í sýndarveruleikakennslu með sýndarveruleikagleraugu er á fleygiferð en við erum bara rétt að byrja að snerta á henni, en gerum ráð fyrir að hún verði hluti af kennslu í setrinu áður en langt um líður. Þá verðum við með stofur sem hægt er að breyta á einfaldan hátt í skurðstofu, bráðamóttöku, samtalsherbergi, geðdeild eða apótek, svo dæmi séu tekin. Veggir eru þaktir skjám þannig að umhverfið tali inn í þær aðstæður sem verið er að búa til hverju sinni. Svo er hægt að hafa þessa skjáveggi gagnvirka þannig að þeir virki eins og risastórir tölvuskjáir.“

Stækkun færni- og hermisetursins í Eirbergi er samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Landspítala og er aukið samstarf á sviði færni- og hermikennslu líklegast mesti ávinningurinn í þessu öllu þar sem sameiginlegt markmið allra er betri undirbúningur og þjálfun heilbrigðisstarfsfólks og -nemenda. Með öflugra setri verður til aðstaða til að mennta fleiri hermileiðbeinendur, sem allir háskólar sem sinna heilbrigðisvísindakennslu njóta góðs af.

Þorsteinn segist ekki í nokkrum vafa um að kennsla í hermisetrum sé eitthvað sem við munum sjá meira af í háskólanámi á Íslandi. „Kennsla í heilbrigðisvísindagreinum í háskólum víðsvegar í heiminum er mikið að fara í þessa átt. Ég held við getum alveg talað um byltingu í verklegri kennslu í heilbrigðisvísindum við Háskóla Íslands þegar stærra og öflugra færni- og hermisetur verður tekið í notkun. Aðstaðan hjá okkur mun verða á heimsmælikvarða, kennsla markvissari og við útskrifum heilbrigðisstarfsfólk sem er betur tilbúið að takast á við krefjandi uppákomur inni á heilbrigðisstofnunum landsins,“ segir Þorsteinn Jónsson, aðjunkt við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild HÍ og helsti sérfræðingur landsins í hermikennslu.
 

Þorsteinn segist ekki í nokkrum vafa um að kennsla í hermisetrum sé eitthvað sem við munum sjá meira af í háskólanámi á Íslandi. „Kennsla í heilbrigðisvísindagreinum í háskólum víðsvegar í heiminum er mikið að fara í þessa átt. Ég held við getum alveg talað um byltingu í verklegri kennslu í heilbrigðisvísindum við Háskóla Íslands þegar stærra og öflugra færni- og hermisetur verður tekið í notkun. Aðstaðan hjá okkur mun verða á heimsmælikvarða.