Hversu vel þekkir þú andlit og hluti? – Ný rannsókn vísindamanna HÍ
Hefur þú lent í því að hitta manneskju á förnum vegi, þér finnst þú kannast við hana en manst bara ekki hvaðan? Alveg örugglega, enda hittum við flest ótrúlegan fjölda fólks á lífsleiðinni og fæst okkar muna eftir öllum andlitum. Sum eru þó ofurmannglögg en önnur aftur á móti haldin algjörri andlitsblindu. Hvort tveggja þessara fyrirbrigða koma við sögu í nýrri rannsókn vísindamanna við Sálfræðideild Háskóla Íslands. Þeir leita nú að þátttakendum fyrir rannsóknina þar sem fólk getur komist að því hversu mannglöggt það er.
Hér er hægt að taka þátt í rannsókninni
Aðalmarkmiðið með rannsókninni er að skilja hvað veldur því að sumir eiga auðvelt en aðrir erfitt með að þekkja fólk í sjón. „Andlit eru svolítið sérstök – við vitum til dæmis að nýfædd ungabörn vilja frá náttúrunnar hendi frekar horfa á andlit en ýmsa aðra hluti og sömuleiðis eru ákveðin heilasvæði sem virkjast mikið þegar horft er á andlit. En andlit hafa líka ákveðið útlit og það eru tilteknir sjónrænir eiginleikar sem greina andlit hvert frá öðru. Við viljum skilja hvort fólk sem er gott, í meðallagi eða slakt í að þekkja andlit sé líka gott, í meðallagi eða slakt í að þekkja í sundur aðra hluti og hvað einkennir þá hluti,“ útskýrir Heiða María Sigurðardóttir, doktor í í taugavísindum og dósent við Sálfræðideild Háskóla Íslands, sem stendur að rannsókninni ásamt samstarfsfólki innan Rannsóknamiðstöðvar um sjónskynjun (e. Icelandic Vision Lab).
Heiða María segir að rannsakendurnir leiti að þátttakendum fyrir rannsóknina á öllum skalanum. „Allt frá andlitsblindum yfir í ofurmannglöggt fólk og allt þar á milli. Rannsóknin gæti svarað því hvort í heilanum sé sérstakur andlitsskynjunarbúnaður sem er sérhæfður í að þekkja andlit eða hvort slíkur búnaður taki líka þátt í að greina í sundur aðra hluti í sjón og þá hvers konar hluti.“
Allt að 2 prósent með andlitsblindu
Heiða María segir að talið sé að allt að 2% fólks, eða einn af hverjum 50, geti verið með andlitsblindu. „Andlitsblinda, einnig kölluð andlitsókenni (e. prosopagnosia), er þegar fólki finnst sérlega erfitt eða jafnvel ómögulegt að þekkja annað fólk í sjón út frá andlitinu einu saman. Það verður því stundum að nota aðrar vísbendingar, svo sem raddblæ, líkamsburð, klæðnað eða hárgreiðslu, til að þekkja aðra. Fólk sem er andlitsblint veit almennt hvort eitthvað sé andlit eða ekki en fyrir því eru andlit í sumum tilfellum ef til vill jafneinkennandi og hné fólks – það er vel hægt að sjá að eitthvað sé hné án þess að geta þekkt fólk út frá því hvernig hné það er með,“ segir hún.
Andlitsblinda getur bæði verið meðfædd og stafað af slysi eða sjúkdómi. „Hún getur komið fram eftir heilaskaða en nú vitum við að fólk getur verið andlitsblint „frá náttúrunnar hendi“ án þess að nokkuð hafi komið fyrir það og þessi þroskafræðilega andlitsblinda virðist að einhverju leyti ganga í ættir. Andlitsblindan er þó misalvarleg, en getur háð fólki þar sem það getur til dæmis farið að forðast félagslegar aðstæður þar sem það er hrætt um að þekkja ekki aðra og þess vegna móðgað þá,“ segir Heiða María sem hefur m.a. helgað vísindaferil sinn svokallaðri æðri sjónskynjun, hlutaskynjun og sjónrænni athygli.
Og talandi um hluti, fólk getur líka verið blint á þá. „Alvarleg sjónræn kennslablinda kemur hins vegar helst fram eftir heilaskaða. Í alvarlegum tilfellum getur fólk horft á hluti og ekki skilið hvernig þeir eru í laginu og getur þess vegna ekki borið kennsl á þá þótt það sjái hlutina vissulega. Einnig eru til dæmi um að fólk sjái hvernig hlutir eru í laginu og geti jafnvel teiknað eftir þeim en viti samt ekki á hvað er horft – það er eins og tengslin á milli sjónar og merkingar glatist. Blinda á andlit og aðra hluti fer að einhverju leyti saman en samt ekki að öllu leyti. Rannsókninni er einmitt ætlað að svara því hvort og þá hvernig tengsl séu á milli styrkleika/veikleika í andlitsskynjun og styrkleika/veikleika í hlutaskynjun,“ segir Heiða María.
Ofurmannglöggir hafa hjálpað löggunni að leita glæpamanna
Hinum megin á skalanum er ofurmannglöggt fólk (e. superrecognizers). „Það getur jafnvel þekkt einhvern í sjón mörgum árum eftir að það hitti viðkomandi síðast, jafnvel þótt það hafi hitt hann aðeins stuttlega einu sinni. Að vera góður í andlitum, rétt eins og að vera lélegur í andlitum, virðist að einhverju leyti vera ættgengt,“ segir Heiða María enn fremur.
Rannsóknir á ofurmannglöggu fólki eru mun færri en á andlitsblindu og að sögn Heiðu Maríu er erfitt að meta hversu algeng ofurmanngleggni er. „Ég hef séð tölur á borð við 9% en í rauninni fer það svolítið eftir skilgreiningu á því hversu góð í að þekkja andlit manneskja þurfi að vera til að geta talist ofurmannglögg,“ útskýrir hún og bætir við að fólk með slíkan hæfileika hafi m.a. aðstoðað lögregluna. „ Já, til dæmis veit ég til þess að ofurmannglöggir hafa verið fengnir í samstarf við lögregluna erlendis, svo sem við Scotland Yard, til þess að bera kennsl á eftirlýsta glæpamenn í upptökum af eftirlitsmyndavélum.“
Lærðu meira um sjálfa/n/t þig
Heiða María hvetur öll sem áhuga hafa til að taka þátt í rannsókninni en það er gert með því að fara inn á vef Rannsóknamiðstöðvar um sjónskynjun og bæði svara spurningum og leysa ýmis skemmtileg verkefni. „Ég held að fólk hafi oft gaman að því að vita meira um sjálft sig, þar með talið um styrkleika sína og veikleika. Um leið og fólk er búið að taka þátt fær það að vita um helstu niðurstöðurnar sínar, þá sérstaklega hvernig andlitsskynjun þess er miðað við aðra,“ segir Heiða María.
Jafnframt segist hún von að rannsóknin veki líka fólk til umhugsunar um að við erum öll misjöfn með okkar styrkleika og veikleika. „Þegar þú hittir einhvern sem þú veist hver er en kannast ekki við þig á móti, ekki gera ráð fyrir að viðkomandi hafi fundist þú óáhugaverð manneskja eða sé viljandi að hunsa þig – sumir eiga bara erfitt með þetta og skilningur á því gæti hjálpað okkur öllum.“