Hvernig stuðlum við að góðum samskiptum foreldra og barna?
Hrund Þórarins Ingudóttir, lektor við Uppeldis- og menntunarfræðideild, og Sigrún Aðalbjarnardóttir, prófessor við sömu deild, fjalla um uppeldishætti og hvernig stuðla má að góðum samskiptum foreldra og barna í erindi sem nefnist „Ræðum í stað þess að rífast: Mikilvægi samskipta fyrir þroska barna og ungmenna“ fimmtudaginn 8. febrúar kl. 17-18.30 á Litla torgi Háskólatorgs. Um er að ræða annan viðburðinn í nýrri fræðslufundaröð Háskóla Íslands sem nefnist Best fyrir börnin.
Flestir telja foreldrahlutverkið hina mestu áskorun og flókið að ala upp barn í nútímasamfélagi. Öll viljum við standa okkur vel í uppeldishlutverkinu. Í erindi Hrundar og Sigrúnar verður fjallað um uppeldishætti foreldra en fjöldi rannsókna, þar á meðal á Íslandi, bendir til að leiðandi uppeldishættir séu heillavænlegir við að efla þroska og velferð barna og ungmenna. Rætt verður um samskipti foreldra og barna, mikilvægi samveru og samræðna og uppeldissýn foreldra og gefin góð ráð þar að lútandi. Gert er ráð fyrir virkri þátttöku gesta á fundinum en upptaka af honum verður aðgengileg á vef Háskóla Íslands að fundinum loknum fyrir þá sem ekki eiga heimangengt.
Um er að ræða annan fundinn í nýrri fyrirlestraröð sem rektor Háskóla Íslands hleypir af stokkunum á árinu 2018 og ber heitið Háskólinn og samfélagið. Viðfangsefni fyrirlestraraðarinnar verða af ýmsum toga en eiga það sameiginlegt að hafa verið áberandi í samfélagsumræðunni síðustu misseri. Í fyrstu fræðslufundaröðinni, sem ber heitið Best fyrir börnin, verður velferð barna og ungmenna í brennidepli, með áherslu á andlega líðan, hreyfingu, svefn, læsi, mataræði og samskipti.
Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir.
Nánari upplýsingar um fundaröðina er að finna á vef Háskóla Íslands.