Hvernig bætum við námsárangur íslenskra barna?
Ljóst er að engin einföld lausn er til að bæta árangur íslenskra nemenda í PISA. Horfa þarf til margra þátta og vinna samkvæmt skýrri stefnumörkun til lengri tíma eigi að snúa neikvæðri þróun við. Þetta er á meðal þess sem fram kom á kynningarfundi um niðurstöður PISA-rannsóknarinnar 2015 sem haldinn var við Háskóla Íslands í gær.
Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Menntamálastofnun boðuðu til fundarins en sérfræðingar beggja stofnana hafa unnið að greiningu gagna og túlkun niðurstaðna síðustu vikurnar. Þetta er í fyrsta sinn sem slíkur fundur er haldinn hér á landi en mikilvægt er að auka skilning á þýðingu niðurstaðna PISA fyrir íslenskt menntakerfi
Lykilatriði að efla orðaforða og lesskilning
Almar M. Halldórsson, sérfræðingur í PISA hjá Menntamálastofnun, kynnti frammistöðu nemenda í náttúruvísindum. Færni íslenskra nemenda í náttúruvísindum hefur hrakað mest frá árinu 2012. Þá er læsi á náttúruvísindi lakara á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum. Auður Pálsdóttir, lektor við Menntavísindasvið, fjallaði um mögulegar skýringar og hvaða aðgerða þurfi að grípa til í framhaldinu. Í erindi hennar kom fram að íslenskir nemendur upplifa ríkari stuðning frá kennurum í náttúrufræðitímum en jafnaldrar þeirra á Norðurlöndum, hafa einna mesta trú á eigin getu í náttúruvísindum og hafa auk þess jákvætt viðhorf til náttúruvísinda. Þá hefur vitund um umhverfismál aukist frá síðustu könnun. Aftur á móti fái þeir langminnsta endurgjöf um árangur sinn miðað við jafnaldra á Norðurlöndum og stunda talsvert minna af tilraunum og rannsóknum. Til að efla læsi í náttúruvísindum þarf að bæta orðaforða og lesskilning unglinga, styrkja endurgjöf til nemenda, styðja kennara í að veita nemendum endurgjöf, gefa út námsefni og kennsluleiðbeiningar með tillögum að endurgjöf um stöðu nemenda, styrkja teymiskennslu og styðja betur unglingakennara.
Kortleggja þarf menntun stærðfræðikennara
Almar kynnti einnig niðurstöður nemenda í stærðfræði. Stærðfræðilæsi við lok grunnskóla er lakara á Íslandi en í meirihluta OECD-ríkjanna og lægra hér en annars staðar á Norðurlöndum. Ekki er marktækur munur á frammistöðu nemenda í stærðfræðilæsi frá 2012. Í framhaldinu fjallaði Freyja Hreinsdóttir, dósent við Menntavísindasvið, um hugsanlegar ástæður versnandi árangurs í stærðfræði. Hún velti upp nokkrum spurningum á borð við hvort breyta þurfi námskrá og/eða námsefni og hvort að kennarar á mið- og unglingastigi væru nægilega vel menntaðir. Þá virðist stærð skóla skipta máli í þessu samhengi. Freyja benti á að aðgerðir til að bæta árangur nemenda í stærðfræði gætu m.a. falist í því að kortleggja menntun stærðfræðikennara og styðja betur við starfsþróunarmöguleika kennara, styðja faglegt samstarf kennara svæðisbundið og rannsaka hvernig sérkennsla á unglingastigi fer fram og hvernig hún nýtist nemendum. Síðast en ekki síst þarf að kynna niðurstöður um námsaðferðir og færnisvið í skólakerfinu.
Aðkallandi að fjárfesta í íslenskri tungu
Lesskilningur íslenskra nemenda var loks til umfjöllunar. Almar kynnti frammistöðu nemenda í lesskiningi. Ísland er neðst Norðurlanda í lesskilningi og neðarlega í hópi OECD-ríkja og hafa fá þátttökuríki PISA lækkað jafnmikið frá síðustu aldamótum. Sigríður Ólafsdóttir nýdoktor og Baldur Sigurðsson dósent, bæði við við Menntavísindasvið, ræddu mögulegar skýringar á frammistöðu íslenskra ungmenna og tillögur um úrbætur og aðgerðir. Í erindi þeirra kom m.a. fram að gæði menntunar eru ekki eingöngu á valdi skóla og menntayfirvalda heldur er þörf á samstilltu átaki allra sem koma að velgengni og námsárangri barna og unglinga. Til að bæta árangur nemenda í lesskilningi þarf fyrst og síðast að fjárfesta í íslenskri tungu. Það má t.d. gera með því að auka framleiðslu og útgáfu á íslensku og þýddu efni, auðvelda aðgengi að efni á íslensku, afnema virðisaukaskatt á útgefið efni á íslensku, stuðla að áframhaldandi metnaði í talsetningu barnaefnis, efla gerð, viðhald og þróun gagnabanka um íslenskt mál, stórefla íslenska tungutækni og gera íslenskt viðmót sjálfgefið í innfluttum tölvubúnaði.
Mikill jöfnuður í íslensku menntakerfi
Þótt niðurstöður PISA 2015 séu vissulega mikið áhyggjuefni þá býr íslenskt menntakerfi yfir styrkleikum sem rétt er að halda á lofti. Í skýrslu Menntamálastofnunar um PISA segir að jöfnuður hér á landi sé mikill sem kemur fram í því að munur í árangri milli skóla er minnstur af öllum OECD-ríkjum. Þá skipti litlu máli í hvaða skóla nemendur ganga og það sama megi segja um þjóðfélagsstöðu. Mikilvægt er að byggja á þessum styrkleikum þegar unnið er að því að bæta árangur íslenskra nemenda.
Á annað hundrað manns sóttu fundinn og helstu fjölmiðlar landsins gerðu honum skil.
Um PISA-rannsóknina
PISA-rannsóknin var lögð fyrir í 72 löndum um allan heim. Könnuð var frammistaða nemenda í stærðfræðilæsi, lesskilningi og náttúrulæsi. Í könnuninni 2015 kom Singapúr best út en þar á eftir koma Japan, Eistland, Finnland og Kanada. Athyglisvert er að Norðmenn og Danir bæta sig í öllum þáttum frá 2012 en frammistaða finnskra nemenda versnar. Ísland er lægst Norðurlanda í öllum flokkum og undir meðaltali OECD-ríkjanna.