Skip to main content
15. desember 2020

Hverjir móta hugmyndir okkar um kórónuveirufaraldurinn?

Hverjir móta hugmyndir okkar um kórónuveirufaraldurinn? - á vefsíðu Háskóla Íslands

Óhætt er að segja að fréttir af COVID-19-faraldrinum hafi verið alls ráðandi í fjölmiðlum bæði hér á landi og annars staðar allt frá því að veiran skæða fór að breiðast út um heimsbyggðina snemma á árinu. En hvernig er umræðan um skaðvaldinn mikla í íslenskum fjölmiðlum og hverjir hafa áhrif á umræðuna og þar með hugmyndir okkar um hana? Við þessa stóru spurningu fást þau Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, og Jón Gunnar Ólafsson, nýdoktor við Stjórnmálafræðideild, í stóru rannsóknarverkefni sem unnið er í samstarfi við þrjá nemendur í félagsfræði.   

„Markmið verkefnisins er að greina fjölmiðlaumfjöllun um COVID-19 á Íslandi, allt frá því að fyrstu fréttir berast um veiru í Wuhan í Kína, sem hugsanlega gæti ógnað okkur hér á landi, þangað til í rauninni og vonandi faraldurinn hefur dáið út eftir að búið er að bólusetja nægilega stóran hluta Íslendinga,“ segir Sigrún um verkefnið.

Ætlunin er að greina þemu sem birtast í umræðunni um faraldurinn, eins og til dæmis hvort verið sé að fjalla um hann sem heilbrigðisvá eða um efnahaglegar afleiðingar faraldursins, og jafnframt hvernig rætt er um þessi þemu. „Við skoðum einnig hverjir það eru sem hafa rödd í fjölmiðlum, hverjir það eru sem hafa aðgang að orðræðunni og geta mögulega haft áhrif á það hvernig við hugsum um COVID-19 sem samfélag,“ segir Jón Gunnar og bætir við að sérlega áhugavert sé að skoða hvernig orðræðan breytist eftir því sem líður á faraldurinn. 

Sigrun Olafs

Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands. MYND/Kristinn Ingvarsson

Rýnt í falsfréttir og upplýsingaóreiðu

Jafnframt hyggst hópurinn skoða tengsl umfjöllunarinnar við alþjóðasamfélag og -stjórnmál. „Þar skoðum við til dæmis hvort fjallað sé um ákveðin ríki á ákveðnum tímum faraldursins og hvernig sú umfjöllun er. Að lokum höfum við sérstakan áhuga á því sem oft er talað um sem falsfréttir eða upplýsingaóreiðu. Slíkri umfjöllun er gjarnan skipt upp í hvort vísvitandi sé reynt að afvegaleiða fólk eða hvort það sé án ásetnings verið að koma röngum upplýsingum á framfæri. Við skoðum alla fjölmiðlaumfjöllun sem við greinum út frá þessum hugtökum,“ bætir Jón Gunnar við en hann var einmitt fyrr á árinu skipaður í vinnuhóp þjóðaröryggisráðs Íslands sem falið var kortleggja upplýsingaóreiðu í tengslum við faraldurinn. Hópurinn skilaði af sér skýrslu í október síðastliðnum

Sérhæfing Jón Gunnars er á þessu sviði en hann kláraði nýlega doktorsgráðu í fjölmiðlafræði í Bretlandi þar sem hann skoðaði umfjöllun fjölmiðla um stjórnmál og dreifingu upplýsinga á samfélagsmiðlum og hvaða áhrif hún hefur fjölmiðlaumfjöllun. Áherslur Sigrúnar innan félagsfræðinnar hafa hins vegar verið á sviði samanburðarrannsókna á heilsu, ójöfnuði og velferðarkerfinu. „Við tókum eftir því fljótlega eftir að við hittumst fyrst að þó að viðfangsefni okkar í fræðunum væru um margt ólíkt þá var greinilegt að við höfðum ástríðu fyrir svipuðum hlutum og hugsuðum oft um fræðin á líkan hátt. Það var síðan kannski COVID-19 sjálft og þær aðgerðir sem gripið var til vegna faraldursins sem gerði þessar hugmyndir og vangaveltur að veruleika,“ segir Sigrún um kveikjuna að verkefninu.

Þau fengu í sumar styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna sem gerði þeim kleift að ráða til sín þrjár félagsfræðinema í sumarvinnu og þannig ýta verkefninu úr vör. Það eru þær Adda Guðrún Gylfadóttir, Gréta Jónsdóttir og Jónína Riedel. „Þetta voru allt nemendur sem höfðu tekið námskeið hjá Sigrúnu og staðið sig mjög vel þannig að við höfðum samband við þær um hvort þær hefðu áhuga á að vera með á umsókn um styrk úr sjóðnum,“ segir Jón Gunnar.

fjolmiðlalogo

Tuttugu og einn fjölmiðill rýndur – allt frá Fréttablaðinu til Útvarps Sögu

Verkefnið er afar umfangsmikið og felst í því að innihalds- og orðræðugreina umfjöllun í 21 fjölmiðli. „Þetta er aðferð sem er mikið notuð bæði í félagsfræði og fjölmiðlafræði. Hún veitir innsýn í hvernig talað er um ákveðin málefni í fjölmiðlum og hver hefur vald til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Þessi aðferð er mjög mikilvæg þar sem við vitum að almenningur fær mikið magn af upplýsingum úr mismunandi fjölmiðlum og þær geta mótað skoðanir, viðhorf og heimsmynd fólks,“ segir Sigrún.

Þau leggja mikið upp úr því að greina efni úr fjölmiðlum með breiða skírskotun, allt frá hefðbundnum miðlum eins og Fréttablaðinu og Morgunblaðinu yfir í minni miðla og jaðarmiðla eins og hinn nýja vel þekkta Vilja og Útvarp Sögu. „Við vorum svo heppin að fá aðgang að gagnagrunninum Fjölmiðlavaktinni hjá Creditinfo sem styrk við verkefnið og skipti það sköpum við að gera það að veruleika,“ segir Jón Gunnar.

Nærri 9.000 fréttir um COVID-19 í mars

Með því að leita í gagnagrunninum út frá tilteknum leitarorðum tengdum faraldrinum á fyrstu fimm mánuðum ársins komu 22.776 fréttir í ljós. „Við töldum það fullmikið magn til að greina þannig að við tókum lagskipt úrtak þar sem fjöldi frétta frá hverjum mánuði endurspeglar heildarfjölda frétta í þeim mánuði,“ útskýrir Sigrún. Sem dæmi má nefna þá birtust 390 fréttir í janúar, 1.292 í febrúar og svo varð sprenging í mars samhliða útbreiðslu faraldursins hér á landi en þá reyndust fréttirnar 8.824. 

Við rannsóknina bjó hópurinn til kóðabók til greiningar sem samanstendur af 15 yfirflokkum og alls 183 atriðum eða breytum sem kóðað er fyrir. „Þar var til dæmis kóðað eftir því hver hefur möguleika á að koma skoðunum sínum á framfæri, hvaða ríki eða landshluta á Íslandi er fjallað um og hvort umfjöllun um COVID-19 fellur innan ramma til dæmis heilbrigðismála, efnahagsmála eða atvinnumála. Þær Adda, Gréta og Jónína skiptu greinunum á milli sín eftir að við vorum búin að fara í gegnum ferli þar sem við tryggðum innri áreiðanleika og samræmi á milli þeirra og eru núna að verða búnar að kóða janúar, febrúar og mars en eins og áður kom fram var mars langumfangsmesti mánuðurinn,“ segir Sigrún enn fremur.

„Við stefnum að því að klára fyrsta hluta af gagnaöflun, sem er fyrsta bylgjan, og halda áfram með hann fram í maí en erum síðan mjög spennt að opna fyrir kóðun á annarri og þriðju bylgju þar sem við sjáum nú þegar mjög miklar breytingar á orðræðunni eftir því sem líður á faraldurinn. Það má reyndar geta þess að þær stöllur hafa sagt okkur að það sé ótrúlega skrítið að lesa fréttaumfjöllun núna síðan í mars og það sé eins og að lesa eitthvað sem gerðist fyrir mörgum árum, þó einungis séu liðnir nokkrir mánuðir,“ segir Jón Gunnar. 

Jón Gunnar Ólafsson

Jón Gunnar Ólafsson, nýdoktor við Stjórnmálafræðideild. MYND/Kristinn Ingvarsson

Þórólfur oftast í fréttum af þríeykinu í upphafi árs

Eins og gefur að skilja liggja endanlegar niðurstöður ekki fyrir en í skýrslu sem þær Adda, Gréta og Jónína skiluðu til Nýsköpunarsjóðs námsmanna í haust eru nokkrar tíundaðar. Þar kemur til dæmis í ljós að fyrstu þrjá mánuði ársins eru það aðallega fulltrúar opinberra stofnana, fyrirtækja og að einhverju leyti almennings sem koma skoðunum á framfæri. „Á bilinu 17-27% frétta á þessu tímabili vitna í einhvern frá opinberri stofnun og 14-20% í fulltrúa frá fyrirtæki. Almenningur lét sérlega mikið í sér heyra í febrúar en þá heyrðist rödd almennings í rúmlega 19% greina. Athygli vekur að læknar, aðrar heilbrigðisstéttir og fræðafólk fær minna vægi í umræðunni en ofangreindir aðilar, sem auðvitað að hluta til skýrist af fjölda lækna miðað við til dæmis fjölda almennings, en segir okkur kannski líka eitthvað um hversu margar aðrar raddir höfðu áhrif á þessum fyrstu mánuðum faraldursins,“ segir Sigrún. 

Hópurinn skoðaði hið landsfræga þríeyki sérstaklega. „Þórólfur fékk mest vægi þessa fyrstu mánuði en hlutfallið var jafnara á milli Ölmu og Víðis. Sem dæmi má nefna þá var vitnað í Þórólf í tæplega 13% af öllum greinum í febrúar,“ bætir Jón Gunnar við. MYND/Kristinn Ingvarsson

Veiran og tölfræði áberandi í janúar og mars

Ekki kemur á óvart að mest er fjallað um Ísland á tímabilinu en umfjöllun í íslenskum fjölmiðlum fylgir annars þeim ríkjum þar sem faraldurinn er mest áberandi á hverjum tíma. „Þannig var minnst á Kína í 67% allra þeirra greina frá janúar sem greindar voru og í tæplega 45% greina í febrúar, en sú tala er svo dottin niður í 5% í mars. Að sama skapi sjáum við að umfjöllun um Ítalíu og Spán er ráðandi í febrúar. Einnig er töluvert fjallað um Bandaríkin og þá í raun áður en faraldurinn nær sér á flug þar. Til dæmis eru rúm 13% greina í janúar þar sem minnst er á Bandaríkin,“ segir Jón Gunnar.

Þær Adda, Gréta og Jónína greindu sérstaklega annars vegar umfjöllun um atvinnumál og atvinnuvegi og hins vegar heilbrigðismál í skýrslu sinni. „Það kemur kannski ekki á óvart að umfjöllun um ferðaþjónustu er ráðandi í janúar og febrúar en í þessum mánuðum fjallar yfir helmingur þeirra greina sem tengjast COVID-19 um atvinnumál í þeirri grein. Þegar kemur fram í mars minnkar sú umfjöllun og umfjöllun um til dæmis atvinnuleysi og úrræði á vegum ríkisins eykst,“ segir Sigrún.

Í umfjöllun um heilbrigðismál reyndist mikill meirihluti greina taka til sóttvarna eða um og yfir helmingur allra frétta þar sem fjallað er um COVID-19 snertir þann málaflokk. „Síðan sjáum við breytingar yfir tíma, til dæmis eru nærri 30% greina í janúar sem fjalla um heilbrigðisbúnað en það er komið niður í 12-14% í febrúar og mars, sem endurspeglar auðvitað áhyggjur okkar innanlands af því að vera nægilega vel búin undir faraldurinn. Einnig var mjög mikið fjallað um veiruna sjálfa í janúar og febrúar, en það minnkaði í mars. Síðan má geta þess að þó að spálíkön fari að koma almennilega inn í umfjöllunina í mars þá inniheldur verulegt hlutfall umfjöllunar um COVID-19 vísan í tölfræði, eða um og yfir 40% í janúar og febrúar,“ segir Jón Gunnar. Hann undirstrikar jafnframt að í þessum fyrstu niðurstöðum verkefnisins sé fyrst og fremst fjallað um og rýnt í tölfræði í umfjöllun. Næstu skref séu að lengja tímabilið en líka að fara dýpra í orðræðuna og greina hana.

Landspitali

Nærri 30% greina um COVID-19 í fjölmiðlum í janúar fjalla um heilbrigðisbúnað en það hlutfall fór niður í 12-14% í febrúar og mars. MYND/Þorkell Þorkelsson

Mikilvægt að meta umfang misvísandi upplýsinga

Ekki þarf að efast um gildi rannsóknarinnar fyrir bæði fræðin og samfélagið enda varpar hún mikilvægu ljósi á umfjöllun um heimssögulegan viðburð sem hefur áhrif á líf okkar allra. „Rannsóknin sýnir okkur hvernig umfjöllun þróast yfir tíma, hvernig hún tengist því sem er að gerast á hverjum tíma, hvenær og hvernig gagnrýnisraddir á aðgerðir byrja og það sem skiptir kannski einna mestu máli, hverjir það eru sem hafa valdið til að hafa áhrif á umfjöllunina og þar með móta hugmynir okkar um faraldurinn og hvernig á að bregðast við honum,“ segir Sigrún.

Jón Gunnar bendir enn fremur á að miklu máli skipti að meta umfang rangra og misvísandi upplýsinga og hvernig þær eru settar fram. „Þetta gefur okkur ákveðinn ramma sem síðan er hægt að fylgja eftir, til dæmis með rannsóknum sem skoða hvers konar hugmyndir almenningur og mismunandi hópar samfélagsins hafa um faraldurinn og veiruna. Almennt má segja að þessi rannsókn muni, þegar henni lýkur, geta gefið heildsteypta mynd um hvernig talað var um þann viðburð sem sennilega hefur haft mest áhrif á heimsbyggðina, þar með talið Ísland, í að minnsta kosti nokkuð marga áratugi. Hún mun einnig geta gefið innsýn í hvernig koma má upplýsingum á framfæri við almenning á áhrifaríkan hátt og því hafa gildi fyrir stefnumótun í heilbrigðismálum þegar nýjar heilbrigðisógnir koma fram,“ bætir hann við.  

Sigrún og Jón Gunnar segja það hafa verið einstaklega gefandi að vinna með Öddu, Grétu og Jónínu og aðdáunarvert hversu mikið sjálfstæði þær hafi sýnt og hversu miklu þær hafa komið í verk. „Það hefur líka verið skemmtilegt að sjá hvað þær vinna vel saman og hversu mikinn áhuga þær hafa á efninu. Það er gaman frá því að segja að tvær þeirra eru að gera verkefni í félagsfræði þar sem þær halda áfram að kóða fréttir og allar hafa áhuga á að vinna með okkur að þessu áfram þar sem við munum leggja áherslu á að birta niðurstöður í innlendum og erlendum fræðatímaritum.“ 

Rannsóknarhópurinn saman kominn í sumar þegar samkomutakmarkanir voru umtalsvert minni en nú. Frá vinstri: Sigrún Ólafsdóttir, Gréta Jónsdóttir, Jónína Riedel, Adda Guðrún Gylfadóttir og Jón Gunnar Ólafsson.