Hver eru áhrif hlutfallslegs orkuskorts á heilsu og árangur íþróttafólks?
Mörg höfum við einhvern tíma fundið fyrir því að skorta orku og kraft við hreyfingu og þjálfun. Skýringarnar á því geta verið margvíslegar: of lítill svefn eða hvíld, of mikið æfingaálag eða hreinlega of lítil orkuinntaka. En hvað gerist þegar viðvarandi skortur verður á tiltækri orku og hvaða áhrif hefur það á heilsu og íþróttaárangur? Við þessa spurningu fæst Birna Varðardóttir, doktorsnemi í íþrótta- og heilsufræði og aðjunkt á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, í rannsóknarverkefni sem er að fara af stað.
„Verkefnið heitir RED-Í og er fyrsta íslenska rannsóknarverkefnið sem tekur til hlutfallslegs orkuskorts í íþróttum (e. Relative Energy Deficiency in Sport, RED-s). RED-s stafar af viðvarandi skorti á tiltækri orku en tiltæk orka er sú orka sem stendur eftir fyrir grunnstarfsemi líkamans þegar búið er að draga þá orku sem varið er við líkamlega þjálfun frá orkunni sem fæst úr fæðunni sem neytt er dag hvern. Meginmarkmið verkefnisins verður að meta tiltæka orku, algengi og áhættuþætti RED-s meðal íslensks íþróttafólks,“ útskýrir Birna.
Hún segir að Alþjóða Ólympíunefndin hafi fyrst vakið athygli á RED-s og mögulegum áhrifum þess á heilsu og árangur íþróttaiðkenda árið 2014. RED-s hafi síðan þá fengið verðskuldaða athygli í erlendum rannsóknum. „Okkur, sem komum að RED-Í verkefninu og höfum lengi deilt áhuga á viðfangsefninu fannst tímabært að skoða þetta hjá íslensku íþróttafólki,“ segir Birna og vísar þar til sín og leiðbeinenda sinna innan Deildar heilsueflingar, íþrótta og tómstunda, þeirra Sigríðar Láru Guðmundsdóttur dósents og Önnu Sigríðar Ólafsdóttur prófessors.
Birna, sem hefur sjálf verið í hópi fremstu kvenna landsins í lengri hlaupavegalengdum, segir RED-s geta haft ýmsar birtingarmyndir og að það virðist, af erlendum rannsóknum að dæma, misalgengt milli íþróttagreina. Miðað við núverandi þekkingu sé áhættan mest í úthalds-, fagurfræðilegum og þyngdarflokkaíþróttum en RED-s geti þó komið fram hjá öllu íþróttafólki, óháð kyni, aldri og getustigi. „RED-s getur meðal annars haft neikvæð áhrif á efnaskiptahraða, hormónastarfsemi og tíðahring kvenna, beinheilsu, ónæmisvarnir, nýmyndun próteina og starfsemi hjarta- og æðakerfis. Slíkar truflanir á líkamsstarfsemi geta haft neikvæð áhrif á heilsu og íþróttaárangur til lengri og skemmri tíma,“ segir hún.
Rannsóknin getur orðið grunnur að góðu mælitæki
Birna fékk styrk til verkefnisins úr Doktorsstyrkjasjóði Háskóla Íslands sumarið 2020 og hefur síðan þá unnið að undirbúningi rannsóknarinnar. Hún segir þær stöllur stefna á að hefja mælingar á allra næstu mánuðum. „Þátttakendur í verkefninu verða íslenskt íþróttafólk á afreks- og framhaldsstigi í sinni íþróttagrein. Til að geta svarað helstu rannsóknarspurningum munum við m.a. leggja fyrir valda spurningalista, meta orku- og næringarefnainntöku, áætla heildarorkuþörf og orkunotkun við þjálfun og framkvæma mælingar á líkamssamsetningu, beinþéttni og völdum efnum í blóði,“ útskýrir hún.
Ávinningurinn af rannsókninni getur sannarlega reynst mikill fyrir íþróttafólk sem leitast sífellt við að bæta árangur sinn. „Rannsóknin kemur til með að styrkja samtal okkar við íslenska íþróttahreyfingu enn frekar og mun eflaust ala af sér nýjar rannsóknarspurningar tengdar þessu inn í framtíðina. Verkefnið hefur auk þess mikilvægt gildi fyrir íþróttahreyfinguna þar sem niðurstöðurnar geta hjálpað okkur að þróa íslensk skimunartæki og ráðleggingar, sem aftur getur eflt forvarnir og meðferð,“ segir Birna að lokum.