Hvalir skilja eftir sig DNA í hafinu

Vísindafólk við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík vinnur nú að því að þróa nýstárlega aðferð til hvalarannsókna sem byggist á svokölluðu umhverfis-DNA (eDNA). Aðferðin felst í því að vísindafólkið safnar sýnum úr sjó á þeim stöðum þar sem hnúfubakar hafa kafað örskömmu áður.
Vísindafólkið siglir út á Skjálfandaflóa, annaðhvort á báti Háskóla Íslands eða með hvalaskoðunarbátum frá Húsavík til að sækja sýnin.
Í sýnunum má finna örfrumur og DNA-sameindir sem hvalir skilja eftir sig, til dæmis úr húð, slími eða saur. Þannig er ætlunin að kanna hvort unnt verði að greina flókna þætti út frá þeim gögnum sem fást, m.a. um lífsferil hvalsins og einstaklingseinkenni hans. Þessi nýja aðferð gerir það kleift að safna gögnum án þess að trufla hvalinn á nokkurn annan hátt en að vera það nærri að komast megi að svæðinu þar sem hann kafaði.
Hér má sjá myndband með nánari upplýsingum um rannsóknirnar.
Í Skjálfandaflóa hefur sýnum verið safnað beint úr sporðbaugum sem eru hringlaga merki á vatnsyfirborði sem myndast þar sem hnúfubakur slær sporði sínum niður í yfirborðið andartaki áður en hann kafar. DNA-eindirnar sem sitja eftir í vatninu eru í raun sóttar með því eindfalda verki að ausa sjónum upp með fötu. Hann er svo síaður með sérstökum búnaði og DNA-sameindirnar sitja eftir. Þær eru síðan greindar á rannsóknarstofu eftir að komið er í land.
Doktorneminn Belen Garcia Ovide, sem ólst upp fjarri sjó í borginni Madrid á Spáni, er í teymi við Rannsóknasetrið á Húsavík sem sinnir þessum rannsóknum. Belen segir ótrúlegt hvað verði hugsanlega hægt að fá fram með einum vatnsdropa úr hafinu. „Það verður ekki einungis hægt að sjá hvað hvalurinn étur heldur einnig alls kyns upplýsingar sem snúa að sjálfum einstaklingnum, um lífsferil hans og aðstæður.“

Rannsóknasetrið á Húsavík tekur þátt í evrópska samstarfsverkefninu eWHALE, sem miðar að því að þróa aðferðir til vöktunar á hvalastofnum og öðrum sjávarspendýrum. Verkefnið felur m.a. í sér sýnatökur á mismunandi dýpi í hafinu og tengir saman nýjustu erfðatækni við hefðbundnar rannsóknaraðferðir eins og ljósmyndagreiningu og hljóðupptökur.

Marianne Rasmussen að störfum úti á Skjálfanda.
Að sögn Marianne Rasmussen, forstöðumanns rannsóknasetursins, getur þessi nýja tækni haft veruleg áhrif á hvalarannsóknir á Íslandi og víðar. Tæknin gerir kleift að fylgjast með breytingum í stofnum, að kortleggja ferðir hvala og styðja við verndunaráætlanir á einfaldari og umhverfisvænni hátt en áður hefur þekkst.
Aðferðin felur í raun í sér byltingu í hvalarannsóknum, hvalirnir eru rannsakaðir án áreitis og vísindafólkið undir stjórn Marianne fær nýja og umhverfisvæna leið til að afla nákvæmra erfðaupplýsinga.
