Hvalahljóð úr rannsóknum við HÍ í nýrri barnabók um rostunginn Valla
Rostungurinn Valli, sem gerði sig heimakominn hér við land í fyrrahaust, og sjávarspendýr við Íslandsstrendur eru í aðalhlutverki í nýrri barnahljóðbók sem var að koma út. Meðal höfunda bókarinnar er Edda Elísabet Magnúsdóttir, sérfræðingur í sjávarspendýrum og lektor við Menntavísindasvið HÍ, en rannsóknir hennar og fleiri vísindamanna á hljóðheimi spendýra hafsins eru m.a. nýttar í bókinni.
Bókin heitir „Valli litli rostungur: Ævintýri byggt á sannri sögu“ og kemur út á vegum bókaútgáfunnar Sögur. „Þetta kom þannig til að Tommi hjá Sögur útgáfu hafði samband við mig þar sem ég hef verið að taka upp og rannsaka hvalahljóð en þau hjá útgáfunni höfðu áhuga á að gefa út bók þar sem hvalahljóð við Íslandsstrendur kæmu við sögu. Útgefendur höfðu einnig augastað á hinum ótrúlega Valla rostungi (eða Wally) sem mögulegri söguhetju bókarinnar, en ungi rostungurinn kom hér að landi fyrir um ári og vakti mikla athygli eins og eflaust flestir muna eftir. Ég tók strax vel í þá hugmynd þar sem ég sá þarna frábært tækifæri til að miðla fróðleik um undirdjúpin og hljóðheim dýranna í hafinu umhverfis Ísland í gegnum Valla,“ útskýrir Edda sem hefur unnið að bókinni undanfarið hálft ár ásamt meðhöfundum sínum, Helga Jónssyni og Önnu Marinósdóttur, en auk þess er bókin skreytt glæsilegum teikningum Freydísar Kristjánsdóttur.
Ástarsöngvar hnúfubaka og höfrungablístur
Í bókinni er Valla fylgt eftir í ævintýrum sínum við Íslandsstrendur en þar hittir hann bæði bæjarbúa á Höfn í Hornafirði og ýmis dýr við strendur landsins sem gefa frá sér hin ólíkustu hljóð. „Mörgum hvalahljóðanna í bókinni safnaði ég þegar ég stundaði doktorsnám mitt við Rannsóknasetur HÍ á Húsavík og tók upp hljóð úr Skjálfandaflóa allt árið um kring. Dæmi um þau hljóð sem heyra má í bókinni eru fjölbreytt hljóð frá hnúfubökum, bæði félagshljóð og „ástarsöngvar“ sem hnúfubakstarfarnir syngja á æxlunartímanum,“ segir Edda.
Einnig er þar að finna höfrungablístur og ýmis önnur hvalahljóð. „Filipa Samarra hjá Rannsóknasetri HÍ í Vestmannaeyjum hefur lengi unnið að rannsóknum á hljóðmyndun háhyrninga og við fengum frá henni ýmis háhyrningahljóð frá Íslandi og grindhvalahljóð frá doktorsnema hennar, Önnu Selbmann. Einnig er að finna í bókinni fjölbreytt hljóð frá rostungum og fleiri selategundum sem fengin voru erlendis frá auk hljóða frá mjöldrum og sléttbak,“ segir Edda.
Aðspurð um helstu áskoranir við vinnslu bókarinnar segir Edda að erfitt hafi reynst að velja úr þeim ótrúlega mörgu hugmyndum að atburðarásum sem höfundana langaði að hafa í bókinni. „Í bókinni eru alls konar senur sem byggjast á raunverulegum sögum úr dýraríkinu við Ísland og á norðurslóðum sem ég eða Helgi þekktum sjálf. Þær eru aðeins brot ef þeim hugmyndum sem spruttu fram í ferlinu. Einnig var krefjandi að velja og hafna hljóðum en það voru ýmis hljóð sem þurfti að sleppa, þá aðallega vegna gæða þar sem upptökur neðansjávar eru ekki beint framkvæmdar í hljóðveri og ýmiss konar bakgrunnsniður sem fylgir eða hljóðgjafinn er of langt í burtu,“ segir Edda.
Edda Elísabet Magnúsdóttir, lektor við Menntavísindasvið, hefur um langt skeið stundað rannsóknir á samskiptum hvala og verið óþreytandi í að miðla rannsóknum og sérþekkingu sinni. „Við þurfum að efla krakkana og auðvitað allan almenning í að sýna náttúrunni virðingu, elska hana og að finna sinn innri hvata til að leggja sitt lóð á vogarskálarnar í verndun lífríkisins. Ég sem sjávarlíffræðingur, kennari og lektor við Menntavísindasvið HÍ er eðlilega í góðri stöðu til að miðla. Því finnst mér það vera skylda mín að miðla þekkingunni um mitt fag til almennings þegar ég fæ góð tækifæri til þess.“
Skylda að miðla sérþekkingu sinni og rannsóknum til allra hópa
Bókin er að sögn Eddu skrifuð fyrir 7-9 ára börn „en hún hentar í raun öllum aldurshópum þar sem kjarninn í bókinni eru hljóðin sem henni fylgja og gefa innsýn í hljóðheim hafsins. Í bókinni er jafnframt fræðsla um líffræði rostunga í N-Atlantshafi og fleiri dýra sem koma við sögu, ógnina sem steðjar að lífríki hafsins vegna rusls í sjónum, lífsbaráttu dýranna, landafræði Íslands og norðurhjarans sem og mannlífið á þessum slóðum.“
Í stefnu skólans, HÍ26, er lögð mikil áhersla á samstarf við samfélag og margvíslegar leiðir til miðlunar á þeim rannsóknum sem fram fara innan hans. Bókin um Valla er afar gott dæmi um það hvernig rannsóknum á lífríki sjávar er miðlað með skemmtilegum hætti til yngstu kynslóðarinnar um leið og vakin er athygli á þeim ógnum sem blasa við lífríkinu. Edda segist telja gríðarlega mikilvægt fyrir vísindamenn að miðla þekkingu um sérsvið sitt og rannsóknir, hvort sem það sé í gegnum tíst eða aðrar færslur á samfélagsmiðlum, í gegnum fjölmiðla eða skáldsögur eins og í þessu tilviki.
„Að hafa vettvang til að vekja áhuga á náttúrunni og lífverum hennar er ótrúlega mikilvægt enda stendur náttúran höllum fæti og á hún nánast allt undir manninum um þessar mundir. Við þurfum að efla krakkana og auðvitað allan almenning í að sýna náttúrunni virðingu, elska hana og að finna sinn innri hvata til að leggja sitt lóð á vogaskálarnar í verndun lífríkisins. Ég sem sjávarlíffræðingur, kennari og lektor við Menntavísindasvið HÍ er eðlilega í góðri stöðu til að miðla. Því finnst mér það vera skylda mín að miðla þekkingunni um mitt fag til almennings þegar ég fæ góð tækifæri til þess. Að fá að miðla á svona skapandi máta eins og í sögunni um Valla með ótrúlega hæfileikaríku listafólki er mögulega besta leiðin til miðlunar þekkingar,” segir Edda um verkefnið.
Bókin um Valla er vissulega skáldsaga en hún er innblásin af heimsókn hins víðförla rostungs sem sást á ýmsum stöðum í Evrópu í fyrra. En er eitthvað vitað hvað varð um hann? „Það hefur ekki spurst til Valla eftir að hann yfirgaf Ísland svo ég viti til að minnsta kosti. Við vonum að hann hafi komist nær sínum heimaslóðum og sameinast öðrum rostungum. Þrátt fyrir flökkueðlið þá eru rostungar miklar félagsverur enda lífslíkur þeirra síðri ef þeir halda lengi til einir. Fleiri rostungar hafa verið á flakki langt frá heimaslóðum líkt og rostungurinn Freyja sem á endanum var lógað í Noregi vegna ágengi forvitins mannfólks sem var talið hætta sér ítrekað of nálægt henni. Mögulega fréttist síðar af Valla, lifandi eða liðnum, hver veit,“ segir Edda að endingu.