Skip to main content
8. desember 2021

Hraðpróf í boði á Háskólatorgi

Hraðpróf í boði á Háskólatorgi - á vefsíðu Háskóla Íslands

Nemendum og starfsfólki Háskólans, og raunar hverjum sem er, býðst nú að fara í hraðpróf á Háskólatorgi. Með þessu vill háskólinn stuðla að enn betri sóttvörnum á háskólasvæðinu.

Aðstöðu til að taka hraðpróf hefur nú verið komið upp nærri sviði Háskólatorgs í samstarfi við fyrirtækið Arctic Therapeutics. Það hefur leyfi heilbrigðisyfirvalda til að framkvæma hraðpróf og gefa út vottorð um slíkt og rekur nú þegar hraðprófsstöðvar í Hörpu, við Kleppsmýrarveg og á Akureyri.

Bóka þarf hraðpróf fyrir fram á netinu, á vefsíðunum covidtest.is eða hradprof.is, en það tekur einungis 15 sekúndur að taka sýni. Niðurstaða prófsins er svo send á rafrænu formi innan við klukkustund frá sýnatöku. 

Boðið er upp á sýnatöku milli kl. 10 og 13.45 alla virka daga og er þjónustan ókeypis. Þess má geta að meðal þeirra sem taka sýni eru nemendur Háskólans sem hafa fengið þjálfun til starfsins.

Með því að opna hraðprófsstöð á Háskólatorgi vill Háskóli Íslands stuðla að enn betri sóttvörnum og auknu öryggi starfsfólks og stúdenta á háskólasvæðinu á meðan kórónufaraldurinn gengur yfir og um leið leggja sitt af mörkum til baráttu samfélagsins við faraldurinn. 

Skólinn hefur þegar gripið til ýmissa aðgerða í tengslum við faraldurinn. Má þar m.a. nefna QR-kóðakerfi sem finna má í öllum kennslustofum skólans og ætlað er að tryggja lágmarksröskun í starfi Háskólans, komi upp COVID-19-smit í kennslu, og styðja við skjótari smitrakningu.
 

Hraðprófsstöðin á Háskólatorgi