Hönnuðu öruggt rými fyrir hinsegin fólk
„Listaverkið minnir okkur á að Skúti er öruggt rými fyrir hinsegin fólk til að vera það sjálft,“ segir Andrea Ósk Sigurbjörnsdóttir, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands. Litríkt listaverk eftir nemendur prýðir nú vegg í Skúta sem hýsir starfsemi nemendafélaga á Menntavísindasviði í Stakkahlíð. Listaverkið hefur vakið talsverða athygli og er fyrirmyndin baráttufáni hinsegin fólks.
Burt með fordóma!
Rýmið var skapað til að veita hinsegin stúdentum öruggt skjól þar sem fordómalaus samskipti eru viðhöfð. „Innan okkar veggja leggjum við t.d. upp með að notkun rangra fornafna sé leiðrétt ef einhver mismælir sig. Við notum ekki úrelt og niðrandi orð, spyrjum ekki út í kyneinkenni, við drögum kynhneigð eða kyntjáningu einstaklinga ekki í efa og þar fram eftir götunum. Þá er einstaklingurinn álitinn eitthvað stærra og meira en hinseginleikinn sinn,“ lýsir Andrea og leggur áherslu á að umfram allt sé leyfilegt að brjóta reglur kynjakerfisins án þess að mæta fordómum.
Sólveig Daðadóttir, varaforseti Q – félags hinsegin stúdenta, er afar ánægð með framtakið og vonast til að nemendur á fleiri fræðasviðum Háskólans taki upp svipaðar áherslur. Q-félagið var stofnað árið 2008 í því skyni að þjóna hagsmunum fjölbreyttra hópa hinsegin fólks. „Örugg rými eru nauðsynleg fyrir hinsegin fólk sem verður reglulega fyrir fordómum eða þarf að fela hver þau eru fyrir öðrum. Sviðsráð nemenda á Menntavísindasviði hefur einnig barist fyrir því að einstaklingsklósett í húsinu verði gerð kynlaus með kynlausum merkingum. Slíkar aðgerðir eru til þess fallnar að fjölga öruggum rýmum,“ útskýrir Sólveig og vonast til að hugmyndinni verði hrint í framkvæmd hið fyrsta.
Öruggt rými
„Listaverkið minnir okkur á að Skúti er öruggt rými fyrir hinsegin fólk til að vera það sjálft,“ segir Andrea Ósk Sigurbjörnsdóttir, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands. Litríkt listaverk eftir nemendur prýðir nú vegg í Skúta sem hýsir starfsemi nemendafélaga á Menntavísindasviði í Stakkahlíð. Listaverkið hefur vakið talsverða athygli og er fyrirmyndin baráttufáni hinsegin fólks.
Bera hagsmuni hinsegin fólks fyrir brjósti
Staða hinsegin fólks hefur verið áberandi í þjóðfélagsumræðunni upp á síðkastið. Ný lög um kynrænt sjálfræði voru samþykkt á Alþingi fyrr á árinu en lögin fela í sér mikilvæga breytingu á réttarstöðu hinsegin fólks. Þau staðfesta m.a. rétt einstaklinga til að breyta opinberri kynskráningu sinni í samræmi við eigin upplifun.
Sjá: Ísland í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks
Sólveig segir að þrátt fyrir að lögin séu veigamikill þáttur í bættri stöðu hinsegin fólks þá sé mikið verk óunnið. „Ísland er í 18. sæti á lista ILGA Europe þegar kemur að lagalegum réttindum hinsegin fólks og er því engin paradís líkt og ráðamenn hafa ítrekað bent á. Það hefur sýnt sig að fólk utan hinsegin samfélagsins veit í raun og veru lítið um veruleika þeirra.“
Að sögn Andreu vinnur Stúdentaráð Háskóla Íslands ötullega að málefnum hinsegin stúdenta enda sé það eitt af meginhagsmunamálum ráðsins að háskólasamfélagið sé fyrir okkur öll. „Samkvæmt jafnréttisstefnu SHÍ eiga gagnkynhneigð viðmið, tvíhyggja og kynjuð orðræða að heyra sögunni til í Háskólanum. Í fyrra breyttum við einnig titlum og heitum í lögum ráðsins með það fyrir augum að draga úr kynjaðri orðræðu. Stúdentaráð bæði styður og leitar til Q-félagsins og hefur samstarfið við þau reynst okkur dýrmætt. Það er allmikið af hinsegin fólki í samfélaginu og það á ekki síður við þau sem stunda nám eða starfa við Háskólann,“ bætir Andrea við og segir enn fremur að margar hinsegin fyrirmyndir þjóðarinnar séu nemendur eða starfsfólk skólans.
Sjá: Stúdentaráð gerir titla sína ókynjaða
Breytt hugarfar með aukinni umræðu og fræðslu
Fulltrúum stúdentaráðs finnst brýnt að auka fræðslu meðal nemenda og starfsfólks, fjölga kynlausum rýmum og klósettum og stuðla að meiri umræðu um málefni hinsegin fólks. „Það er hægt að fara margar ólíkar leiðir til að auka fræðslu og opna umræðuna enn frekar. Við hvetjum nemendafélög innan skólans til að fara í vísindaferðir til Q-félagsins og Samtakanna ‘78. Með aukinni umræðu verður samfélagið opnara og fólk sem er í hinsegin pælingum lærir um hugtök sem eiga mögulega við um það sjálft,“ bendir Andrea á.
Sólveig tekur í svipaðan streng og telur að fræðsla sé lykilatriði til að bæta stöðu hinsegin fólks. „Við sjáum marga snertifleti við Menntavísindasvið því þar er verið að mennta nemendur sem munu að öllum líkindum starfa í skólakerfinu. Ef staða hinsegin fólks er hluti af þeirri fræðslu sem þetta fólk mun miðla í starfi, þá er það risastórt skref í rétta átt.“
Öflugt jafnréttisstarf er unnið innan Háskólans og er jafnrétti eitt af þremum megingildum í stefnu skólans. „Háskólarnir eiga að vera leiðandi í umræðu fyrir auknu jafnrétti og þá verður umræðan líka að ná til alls hinsegin fólks. Málefni hinsegin fólks eiga að vera tekin fyrir í námsefni, námskeiðum, verkefnum og rannsóknum. Við verðum að gera okkur grein fyrir mikilvægi þess að háskólasamfélagið endurspegli raunverulega fjölbreytni og búi nemendur undir framtíðina á réttan og viðeigandi hátt. Við viljum því hvetja alla háskóla á landinu til að vera í góðu samstarfi við Samtökin ´78 og Q-félagið því saman getum við gert samfélagið betra fyrir alla,“ segir Sólveig að lokum.
Vefur Sviðsráðs Menntavísindasviðs
Vefur Q – félags hinsegin stúdenta