Hlutu viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur við Lagadeild
Fjórir nemendur við Lagadeild hlutu viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur á móttöku sem deildin efndi til á föstudaginn var, daginn fyrir brautskráningu.
Alls brautskráðust 93 einstaklingar frá Lagadeild við hátíðlega athöfn í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal á laugardaginn. Á skólaárinu 2023-2024 hafa 112 brautskráðst frá deildinni. Að venju bauð Lagadeild til móttöku daginn fyrir brautskráningu þar sem veittar voru viðurkenningar fyrir framúrskarandi námsárangur. Trausti Fannar Valsson, forseti Lagadeildar, ávarpaði boðsgesti en að því búnu voru veittar eftirtaldar viðurkenningar.
Salka Sigmarsdóttir hlaut viðurkenningu Bókaútgáfunnar Codex fyrir að hafa í fyrstu tilraun staðist öll námskeið fyrsta árs í BA-námi við Lagadeild með hæstu meðaleinkunn. Í viðurkenningarskyni færði bókaútgáfan Sölku að gjöf allar námsbækur annars og þriðja árs í BA-námi í lögfræði sem gefnar eru út af Codex. Atli Már Eyjólfsson afhenti viðurkenninguna fyrir hönd bókaútgáfunnar Codex.
Sara Mansour hlaut viðurkenningu Hollvinafélags Lagadeildar Háskóla Íslands fyrir hæstu einkunn á BA-prófi við Lagadeild meðal brautskráðra BA-nema skólaárið 2023 til 2024. Trausti Fannar Valsson, forseti Lagadeildar, afhenti Söru viðurkenninguna fyrir hönd Hollvinafélagsins og nam hún 150 þúsund kr.
Margrét Sjöfn Magnúsdóttir hlaut viðurkenningu LOGOS lögmannsþjónustu fyrir hæstu einkunn á meistaraprófi við Lagadeild meðal brautskráðra meistaranema skólaárið 2023-2024. Benedikt Egill Árnason, framkvæmdastjóri LOGOS, afhenti Margréti af þessu tilefni verðlaun frá lögmannstofunni sem námu 250 þúsund kr.
Þá veittu LLG Lögmenn verðlaun að upphæð 250 þúsund kr. í viðurkenningarskyni þeim stúdent sem skilaði bestu lokaritgerð til meistaraprófs í lögfræði á almanaksárinu 2023. Að þessu sinni varð fyrir valinu meistararitgerð Guðrúnar Sólveigar Sigríðardóttur Pöpperl „Sambúð 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu. Standa rök til breytinga á nálgun íslenskra dómstóla?“ Leiðbeinandi hennar var Víðir Smári Petersen, dósent við Lagadeild. Sigurður Kári Kristjánsson afhenti verðlaunin fyrir hönd LLG.