Skip to main content
21. mars 2016

Hlutu styrk til eflingar íslenskri tungu

Tveir fræðimenn á Menntavísindasviði hlutu nýverið styrk úr Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur til eflingar íslenskri tungu. Alls voru veittir sex styrkir úr sjóðnum og renna þeir til fræðimanna við Háskóla Íslands sem vinna að rannsóknum og verkefnum sem snúa að stöðu íslenskrar tungu í samtímanum, ekki síst í síbreytilegu tækniumhverfi.

Styrkþegar og verkefni þeirra eru:

Kristján Jóhann Jónsson, dósent í íslensku við Menntavísindasvið, fékk styrk til rannsóknarinnar Íslenska sem námsgrein og kennslutunga. Í henni er kannað hvaða þekkingu er miðlað og hvaða færni byggð upp í námsgreininni íslensku í grunn- og framhaldsskólum. Um framhaldsstyrk er að ræða en Kristján fékk styrk úr sjóðnum fyrir fyrri áfanga verkefnsins í fyrra.

Tungumálið mótar hugsun okkar og þekkingu. Skólastarf verður árangursríkt ef móðurmálið er öflugt og gerir okkur kleift að skilja og útskýra þær upplýsingar sem til okkar berast. Kennarar á öllum skólastigum þurfa að nota íslensku sem kennslutungu til að miðla þekkingu í vaxandi alþjóðavæðingu. Í rannsókninni er spurt hvað börn og unglingar læri um móðurmálið og hvernig það dugi til þess að kenna og útskýra nýja og síbreytilega heimsmynd.

Í rannsókninni er höfð hliðsjón af þrískiptingu Aristótelesar í þekkingu, hæfni og gagnrýna hugsun. Söfnun og úrvinnsla gagna tekur mið af þessari skiptingu. Heimsóttir eru skólar sem valdir eru með slembiúrtaki, fylgst með því sem fram fer í kennslustundum og byggt á vettvangslýsingum og viðtölum. Rannsóknin er vistuð hjá Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Í stjórn verkefnisins sitja sjö manns: Kristján Jóhann Jónsson, Ásgrímur Angantýsson, Jón Yngvi Jóhannsson og Sigurður Konráðsson frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands, Dagný Kristjánsdóttir frá Hugvísindasviði Háskóla Íslands og Brynhildur Þórarinsdóttir og Finnur Friðriksson frá Háskólanum á Akureyri.

Baldur Sigurðsson, dósent í íslensku við Menntavísindasvið og Jóhannes Gísli Jónsson, prófessor í íslenskri málfræði við Hugvísindasvið, fengu styrk til samvinnuverkefnis á vegum Ritvers Menntavísindasviðs og Ritvers Hugvísindasviðs. Markmiðið með verkefninu er að búa til almennar leiðbeiningar á vefnum um fræðileg skrif í háskólanámi en þær eiga að koma til móts við þarfir nemenda á ólíkum fræðasviðum og námsstigum. Leiðbeiningarnar munu einkum taka til ýmissa atriða sem tengjast ritunarferlinu sjálfu og liprum og blæbrigðaríkum stíl sem hæfir formlegu málsniði og rökréttu samhengi milli málsgreina, efnisgreina og einstakra kafla í ritgerðum. Tekin verða dæmi úr fræðilegum textum af ýmsu tagi og lögð verður áhersla á jákvæðar og uppbyggilegar ráðleggingar fremur en boð og bönn.

Í verkefninu verður höfð hliðsjón af ritunarleiðbeiningum sem til eru á vefjum ýmissa ritvera í Bandaríkjunum en einnig verður reynt að nýta kennsluefni sem til er um fræðileg skrif á íslensku. Lögð verður áhersla á mikilvæg atriði í fræðilegum textum sem eiga sérstaklega við um íslensku.

Kristján Jóhann Jónsson og Baldur Sigurðsson