Skip to main content
19. desember 2025

Hluti leikskólabarna með mjög einhæft fæðuval

Hluti leikskólabarna með mjög einhæft fæðuval - á vefsíðu Háskóla Íslands

Fyrstu niðurstöður doktorsrannsóknar sem miðar að því að þróa leiðir til að draga úr matvendni meðal leikskólabarna sýna að hluti barnanna sem tekur þátt í rannsókninni borðar innan við 10 fæðutegundir. Um er að ræða fyrstu rannsókn sinnar tegundar hér á landi.

Berglind Lilja Guðlaugsdóttir, doktorsnemi við Menntavísindasvið, vinnur að rannsókninni undir leiðsögn Önnu Sigríðar Ólafsdóttur, prófessors í næringarfræði við sama svið. Rannsóknin grundvallast á verkefninu Bragðlaukaþjálfun, sem Anna Sigríður þróaði í samstarfi við Sigrúnu Þorsteinsdóttur, nýdoktor við Menntavísindasvið, og sneri að því að þróa fjölskyldumiðað úrræði gegn matvendni fyrir fjölskyldur 8-12 ára barna með og án taugaþroskaraskana. „Rannsóknin okkar snýst um að rannsaka matvendni og fæðuvenjur leikskólabarna og nota Bragðlaukaþjálfun til að koma í veg fyrir og/eða draga úr matvendni á meðal þeirra ásamt því að hafa áhrif á fæðuumhverfið heima fyrir með það fyrir augum að auka fæðufjölbreytni, sérstaklega neyslu ávaxta og grænmetis,“ segir Berglind.

Berglind aðstoðaði einnig í fyrri rannsókn Brauðlaukaþjálfunarinnar. „Sú rannsókn sýndi mjög jákvæðar niðurstöður þar sem matvendni minnkaði, fæðufjölbreytni jókst ásamt því að erfið hegðun í kringum matmálstíma minnkaði. Það varð kveikjan að því að ég fór að velta fyrir mér hvort hægt væri að yfirfæra þessar aðferðir á leikskólaaldurinn sem er sá aldur þar sem matvendni er í hámarki,“ segir Berglind.

Fyrstu æviár skipta sköpum fyrir framtíðarheilbrigði

Berglind bendir enn fremur á að algengt sé að börn með matvendni skorti fjölbreytileika í fæðuvali og þá helst neyslu á grænmeti, ávöxtum og grófmeti. „Einnig getur matvendni valdið streitu og kvíða meðal foreldra og barna í kringum matmálstíma og foreldra og leikskólastarfsfólk skortir oft úrræði þegar kemur að matvendni barna. Röng viðbrögð við matvendni geta gert illt verra,“ segir Berglind.

Auk þess að vinna gegn matvendni hyggst Berglind skoða í doktorsrannsókninni hvort inngrip eins og Bragðlaukaþjálfun geti haft áhrif á vaxtarferla barna til lengri tíma litið, en það gerir hún í samvinnu við heilsugæslur. „Fyrstu æviár barna skipta sköpum fyrir framtíðarheilbrigði þeirra og þroska þar sem fjölbreytt og hollt mataræði er grundvallaratriði. Þetta er því mjög mikilvægur aldur,“ undirstrikar Berglind og bendir á að mikill skortur sé á rannsóknum á þessu sviði og efniviðurinn því spennandi í alþjóðlegu vísindasamhengi.

Aðferðir og námsefni unnið með leikskólastarfsfólki

Berglind hefur unnið að rannsókninni undanfarin misseri í samstarfi við fjóra leikskóla bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Þar varð Bragðlaukaþjálfun hluti af daglegu leikskólastarfi sem náði til allra aldurshópa á leikskólunum. „Börnin verja stærstum hluta úr degi sínum á leikskóla og þá lá því beinast við að aðlaga aðferðir Bragðlaukaþjálfunar að leikskólaumhverfinu,“ útskýrir Berglind en bætir við fjölskyldur barnanna séu einnig virkjaðar til þátttöku enda eru þær mikilvægur þáttur þegar kemur að breyttri fæðuhegðun barna.

Aðferðirnar sem þróaðar voru í Bragðlaukaþjálfun eru notaðar til að koma í veg fyrir og/eða draga úr matvendni og auka fæðufjölbreytni hjá börnunum. „Þær ganga út á að þjálfa börn markvisst í að upplifa mat með öllum skynfærum sínum. Aðferðirnar og námsefnið var unnið í samhönnun með leikskólastarfsfólki til að það félli sem best að leikskólaumhverfinu en leikskólastarfsfólkið fékk einnig þjálfun í notkun á aðferðunum. Þetta nýja námsefni og útfærslu Bragðlaukaþjálfunar fyrir leikskólana köllum við Litlu lauka,“ segir Berglind sem segist vonast til að rannsóknin skili sambærilegum árangri og Bragðlaukarannsókn Önnu Sigríðar og Sigrúnar sem náði til eldri barna.

Þær Berglind, Anna Sigríður og Sigrún hafa m.a. kynnt Bragðlaukaverkefnið á Vísindavöku og gefið gestum færi á að smakka alls kyns grænmeti sem er í senn hollt og bragðgott. MYND/Arnaldur Halldórsson 

Auk þeirra Önnu Sigríðar og Sigrúnar er Ragnar Grímur Bjarnason, prófessor og barnalæknir, í doktorsnefnd Berglindar. „Að auki erum við með ýmsa reynslumikla samstarfsaðila hérlendis og erlendis sem eru með fjölbreyttan og ólíkan bakgrunn sem gerir teymið okkar þverfaglegt og sterkt. Við erum til dæmis í samstarfi við Þróunarmiðstöð Íslenskrar Heilsugæslu,“ segir Berglind um samstarfsaðila sína í rannsókninni.

Helmingur þátttakenda sýnir einhver einkenni matvendni

Formlegri gagnasöfnun Berglindar lauk nú í haust og hún segir gagnaúrvinnslu því stutt á veg komna. „Við erum hins vegar byrjuð að skoða gögnin frá upphafspunkti rannsóknarinnar áður en íhlutun hófst. Þar erum við að sjá að rúmlega helmingur barnanna sem tóku þátt sýnir einhver einkenni matvendni út frá svörun foreldra en misjafnt er hvað einkennir hana. Til dæmis er algengast að börnin hafni fæðutegundum sem eru beiskar og súrar á bragðið en sjaldnast mat sem er sætur á bragðið. Hluti barnanna er með mjög einhæft fæðuval að mati foreldra, sem felur í sér að þau borða færri en tíu fæðutegundir og forðast fleiri en einn fæðuflokk sem er áhyggjuefni. Við sjáum einnig að matur sem hefur sleipa áferð, t.d. steiktir sveppir og linsoðin eða steikt egg, er erfiður fyrir börnin en einnig blandaður og samsettur matur þar sem þau geta síður sundurgreint hráefnin í samsettum réttum,“ segir Berglind um fyrstu niðurstöður sínar.

Spurð um ávinning rannsóknarinnar bendir Berglind á að hún skapi nýja þekkingu auk þess sem úrræðið, sem er í þróun í verkefninu, geti gagnast breiðum hópi í samfélaginu. „Mjög fáar sambærilegar rannsóknir hafa verið gerðar erlendis og þetta er fyrsta rannsókn sinnar tegundar hér á landi. Ef vel tekst til og aðferðirnar reynast áhrifaríkar langar okkur að þróa þær enn frekar og þær mætti jafnvel samþætta inn í námskrá leikskóla. Þá getur afurðin um leið skapað dýrmætan stuðning við foreldra sem skortir oft úrræði til að takast á við matvendni barna sinna. Fæðuuppeldi sem byggir á að þjálfa fæðutengda færni eins og Bragðlaukaþjálfun nýtist best gegnum samvinnu og sameiginlega sýn heimilis og skóla,“ segir Berglind að endingu.

Berglind Lilja Guðlaugsdóttir