Skip to main content
29. nóvember 2017

Hljóta viðurkenningu fyrir lofsverðan árangur í starfi

""

Þrír starfsmenn Háskóla Íslands, þau Fjóla Jónsdóttir, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild, Vilhjálmur Árnason, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild, og Sigríður Harðardóttir, aðalritstjóri Háskólaútgáfunnar, hlutu í dag viðurkenningu fyrir lofsverðan árangur í starfi. Viðurkenningarnar voru veittar á upplýsingafundi Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands, með starfsfólki skólans í Hátíðasal Aðalbyggingar.

Fjóla Jónsdóttir, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði, hlaut viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til kennslu við skólann. Fjóla lauk B.S.-prófi í vélaverkfræði frá University of Minnesota í Bandaríkjunum 1990, M.S.-prófi frá Brown University í Bandaríkjunum 1992 og doktorsprófi í sömu grein frá sama háskóla árið 1994.

Fjóla var ráðin dósent í vélaverkfræði við Háskóla Íslands árið 2000 og prófessor 2012. Hún hefur bæði kennt fjölmenn grunnnámskeið á sviði burðarþolsfræði og efnisfræði og fámennari framhaldsnámskeið, svo sem um tölvuvædda greiningu. Auk þess hefur Fjóla leiðbeint myndarlegum hópi meistara- og doktorsnema.  

Í umsögn valnefndar segir: „Fjóla hefur frá fyrstu tíð lagt mikla alúð og einlægni í sína kennslu. Hún er alltaf með þeim hæstu í kennslukönnunum innan sinnar deildar. Hún nær strax persónulegu sambandi við nemendur sína sem hvetur þá til að helga sig náminu og að leggja sig fram til að verðskulda stolt kennara síns. Fjóla hefur gert sér far um að flétta rannsóknir sínar inn í þau námskeið sem hún kennir, en þær beinast meðal annars að notkun snjallefna í stoðtækjum. Fjóla hefur einnig verið ómetanleg fyrirmynd fyrir kvennemendur sem lagt hafa stund á nám í véla- og iðnaðarverkfræði og hefur það átt sinn þátt í að fjölga konum og þannig að rétta kynjahlutfall nemenda í þeim greinum.“ 

Vilhjálmur Árnason, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild á Hugvísindasviði, hlaut viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til rannsókna við skólann. Vilhjálmur Árnason lauk B.A.-prófi í heimspeki frá Háskóla Íslands árið 1978, meistaraprófi frá Purdue-háskóla í Bandaríkjunum 1980 og doktorsprófi frá sama háskóla árið 1982. 

Vilhjálmur starfaði sem stundakennari við Háskóla Íslands frá 1983, varð lektor í heimspeki 1990, dósent 1991 og prófessor 1996. Hann hefur verið farsæll kennari og hefur sinnt margháttuðum stjórnunarstörfum. Var hann m.a. formaður Siðaráðs Landlæknis 1998-2000 og forseti Heimspekideildar Háskóla Íslands 2000-2002. Vilhjálmur var leiðandi í uppbyggingu Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands og hefur verið stjórnarformaður hennar frá 1997.

Í rökstuðningi valnefndar segir: „Vilhjálmur á að baki glæsilegan rannsóknaferil og hefur um árabil verið einhver afkastamesti rannsakandi á Hugvísindasviði Háskóla Íslands. Hann hefur verið leiðandi rödd í alþjóðlegum vísindaheimi á sviði siðfræði, ekki síst lífsiðfræði þar sem hann hefur verið í fremstu röð meðal evrópskra fræðimanna í áraraðir. Vilhjálmur hefur einnig verið virkur í rannsóknum á lýðræði og hefur þar fléttað saman athuganir á íslensku samfélagi og alþjóðlegt sjónarhorn.

Árangur Vilhjálms endurspeglast í fjölda ritverka sem hann hefur birt á vettvangi þar sem gerðar eru ýtrustu kröfur til gæða, í innlendum og alþjóðlegum samstarfsverkefnum sem hann hefur tekið þátt í og í þeim fjölda styrkja sem hann hefur aflað hérlendis og erlendis.
Vilhjálmur hefur ævinlega lagt áherslu á að miðla rannsóknum sínum til almennings og að efla fræðilega umræðu um heimspeki á Íslandi með því að birta rannsóknir sínar á íslensku í greinum og bókum.

Þá hefur Vilhjálmur tekið virkan þátt í íslenskri samfélagsumræðu og þannig leitast við að nýta í almannaþágu þekkingu sína á siðfræði, stjórnmálaheimspeki og öðrum sviðum heimspekinnar. Veigamesta framlag hans í þá veru er starf hans í rannsóknanefnd Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008. Er þar fjallað af yfirvegun og hlutlægni um pólitískt viðkvæm viðfangsefni.“

Sigríður Harðardóttir, aðalritstjóri Háskólaútgáfunnar, hlaut viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til stjórnsýslu og stoðþjónustu við Háskóla Íslands. Sigríður lauk B.A.-prófi í enskum bókmenntum frá Jacksonville University í Bandaríkjunum 1972 og lagði að því búnu stund á cand. mag.-nám í enskum bókmenntum við Háskóla Íslands 1982. Auk kennslu og skrifstofustarfa hefur hún starfað við bókaútgáfu frá árinu 1982, m.a. við ritstjórn orðabóka og annarra viðamikilla bókverka. Hún var deildarstjóri Orðabókadeildar Arnar og Örlygs 1990-1995 og ritstjóri hjá Vöku-Helgafelli 1997-1999. Á næstu árum var hún aðalritstjóri Genealogia Islandorum og síðan meðstofnandi og aðalritstjóri JPV útgáfu uns hún gekk til liðs við Háskólaútgáfuna, en þar hefur hún starfað sem ritstjóri frá upphafi árs 2009. Á þeim tíma hefur Sigríður leitt ritstjórnarvinnu útgáfunnar og tekið þátt í að lyfta grettistaki í átt til gæðastjórnunar bóka með ritrýningu og ritstjórn.

Rökstuðningur valnefndar rektors hljóðar svo: „Í starfi sínu hefur Sigríður iðulega sannfært höfunda um að betur sjá augu en auga og að umfangsmikil reynsla af textarýni og ritstjórn skilar betri afurð en ella. Þá hefur hún unnið mikið starf og gagnlegt fyrir Háskóla Íslands með því að gera bækur starfsmanna og stofnana hans aðgengilegri öllum almenningi. Þetta hefur leitt til þess að í ritstjórnartíð Sigríðar hefur Háskólaútgáfan hlotið fleiri verðlaun, viðurkenningar og tilnefningar til verðlauna en nokkru sinni fyrr.“

Þetta er í 15. sinn sem starfsmenn við Háskóla Íslands eru heiðraðir fyrir vel unnin störf en viðurkenningar voru fyrst veittar árið 1999. Forsendur viðurkenningar eru ágæti í kennslu, rannsóknum, stjórnun eða í öðrum störfum í þágu Háskólans. 

Staðið er að kennsluviðurkenningunni með þeim hætti að öllum stúdentum Háskóla Íslands gefst kostur á að tilnefna framúrskarandi kennara auk þess sem kennslumálanefnd háskólaráðs tilnefnir a.m.k. þrjá kennara. Staðið er þannig að viðurkenningunni fyrir rannsóknir að allir akademískir starfsmenn geta sent inn tilnefningar auk þess sem vísindanefnd háskólaráðs tilnefnir a.m.k. þrjá vísindamenn. Loks geta allir starfsmenn Háskóla Íslands sent inn tilnefningar um viðurkenningu fyrir önnur störf í þágu skólans. 

Þriggja manna valnefnd fer síðan yfir tilnefningarnar og velur einn úr hverjum hópi. Að þessu sinni var valnefndin skipuð þeim Ebbu Þóru Hvannberg, prófessor og fv. varaforseta háskólaráðs, sem var formaður, Höskuldi Þráinssyni, prófessor emeritus, sem var fulltrúi fyrrverandi starfsmanna, og Ásthildi Margréti Otharsdóttur, ráðgjafa og formanni stjórnar Marel hf., fulltrúa í háskólaráði, sem var jafnframt fulltrúi fyrrverandi nemenda. 

Upplýsingar um þá starfsmenn sem áður hafa fengið viðurkenningu fyrir lofsverðan árangur í starfi er að finna á vef Háskóla Íslands

Frá vinstri: Jón Atli Benediktsson, Vilhjálmur Árnason, Sigríður Harðardóttir og Fjóla Jónsdóttir.
Fjóla Jónsdóttir og Jón Atli Benediktsson
Vilhjálmur Árnason og Jón Atli Benediktsson
Sigríður Harðardóttir og Jón Atli Benediktsson.