Skip to main content
19. desember 2025

Hljóta styrki frá Nordforsk fyrir samstarfsnet um rannsóknarinnviði

Hljóta styrki frá Nordforsk fyrir samstarfsnet um rannsóknarinnviði - á vefsíðu Háskóla Íslands

Vísindamenn við Háskóla Íslands koma að fjórum norrænum samstarfsnetum um rannsóknarinnviði sem norræna stofnunin Nordforsk veitti styrki nýverið. Alls skipta 11 samstarfsnet á milli sín 2,3 milljörðum króna en samkeppni um styrki var hörð því 51 umsókn barst Nordforsk að þessu sinni.

Samstarfsnetin sem vísindamenn Háskóla Íslands koma að eru:

Nordic Historical Population Data (NordHistPop)

Verkefnið er hýst hjá Miðstöð stafrænna hugvísinda og lista við Háskóla Íslands og verkefnisstjóri er Ólöf Garðarsdóttir, prófessor í félagssögu og sviðsforseti Hugvísindasviðs. Samstarfsaðilar eru frá öllum Norðurlöndunum, en líka frá Kanada og Bandaríkjunum ásamt evrópska rannsóknainnviðinum DARIAH-ERIC. Verkefnið byggist á þeim einstöku sögulegu mannfjöldagögnum sem til eru á Norðurlöndum, í Kanada og Bandríkjunum um einstaklinga og stöðu þeirra. „Markmið verkefnisins er m.a. að tengja saman gögn til að unnt sé rannsaka hagi og sögu einstaklinga þvert á landamæri. Verkefnið leiðir saman sagnfræðinga, lýðfræðinga, gagnafræðinga og tölvunarfræðinga í vinnustofum, sumarskólum og „hakkaravökum“ (e. hackathon) til að deila reynslu og gera tilraunir með gögnin sem eru til,“ segir Ólöf.

Bridging Nordic Microscopy Infrastructures-II (BNMI-II)

BNMI er samstarf allra innviða á Norðurlöndum sem vinna með smásjártækni í lífvísindum og Lífvísindasetur Háskóla Íslands hefur tekið þátt í samstarfinu frá upphafi. Mikilvægi smásjártækni í lífvísindum hefur aukist mjög síðustu áratugi og hefur gert vísindamönnum kleift að svara mörgum spurningum um starfsemi próteina og sameinda í innstu kimum frumunnar og jafnvel skoða byggingu og starfsemi smæstu hluta hennar. Tæknin er mjög sérhæfð og dýr og mikilvægt að hafa sérfræðinga sem þekkja hana vel og geta hjálpað til við notkun hennar. Því hafa norrænir aðilar tekið sig saman og byggt upp BNMI til að efla samskipti og samstarf, þjálfa bæði sérfræðinga sem vinna með tækin og nema sem nýta þau og byggja upp samnýtingu tækjanna þvert á norrænu ríkin. „Við HÍ starfar myndgreiningarsetur og tveir sérfræðingar sem aðstoða við notkun tækninnar og það er alveg ljóst að þeir og nemendur á sviðinu hafa haft mikið gagn af þessu samstarfi. Í gegnum samstarfið erum við með aðgang að tækjum sem ekki eru til á Íslandi og í mörgum tilfellum tækjum sem aldrei verða keypt hingað heim. Þetta opnar því víddir myndgreininga í lífvísindum margfalt,“ segir Eiríkur Steingrímsson, prófessor við Lífvísindasetur HÍ, sem sem er tengiliður samstarfsins við HÍ.

NORDSTRUCT

NORDSTRUCT eru nýstofnuð norræn regnhlífarsamtök fyrir heildræna byggingarfræðilega líffræði (e. integrative structural biology) og sameinar 26 háskóla í fimm norrænum ríkjum. Í byggingarfræðilegri líffræði er beitt hátækniaðferðum til að greina byggingu og virkni lífefna, sem er grundvallaratriði í læknisfræði, líftækni og sjálfbærum lausnum. „Í NORDSTRUCT verður boðið upp á sérhæfð doktorsnámskeið, þverfaglegan sumarskóla fyrir framhaldsnemendur, hópstjórafundi og könnunarstyrki fyrir nýtt samstarf með það að markmiði að veita samræmdan aðgang að rannsóknarinnviðum og sérþekkingu á þessu sviði innan Norðurlandanna. Með stuðningi sínum býður Norforsk íslensku vísindafólki upp á ný tækifæri til rannsókna og norræns samstarfs,“ segir Jens G. Hjörleifsson, lektor við Líf- og umhverfisvísindadeild, sem er tengiliður NORDSTRUCT-verkefnisins hér á landi.

Nordic-Baltic Dataverse Hub

Markmið Nordic-Baltic Dataverse Hub er að skapa samstarfsvettvang stofnana á Norðurlöndum sem nota Dataverse-hýsingarkerfið við rekstur gagnasafna fyrir rannsóknargögn. Dataverse er opinn hugbúnaður sem þróaður var af Harvard-háskóla til að auðvelda trausta varðveislu á rannsóknargögnum og hefur síðan verið tekimm í notkun af fjölmörgum stofnunum víða um heim, þar á meðal af GAGNÍS - Gagnaþjónustu vísinda á Íslandi. „Sífellt ríkari krafa er gerð til vísindasamfélagsins um trausta meðhöndlun og langtíma varðveislu rannsóknargagna. Í því augnamiði hefur verið unnið ötullega að því innan Háskóla Íslands að byggja upp ýmsa gagnainnviði, þar á meðal GAGNÍS sem getur tekið við rannsóknargögnum til hýsingar eftir alþjóðlegum viðmiðum. Þátttaka í Nordic-Baltic Dataverse Hub mun nýtast í áframhaldandi þróun og uppbyggingu þessarar mikilvægu þjónustu fyrir vísindasamfélagið á Íslandi,“ segir Kjartan Ólafsson, rannsóknalektor við HÍ, sem kemur að verkefninu fyrir hönd Háskóla Íslands.

Að auki taka íslenskar stofnanir þátt í þremur öðrum verkefnum og heildarlista yfir samstarfsnet sem fengur styrk frá Nordforsk má finna hér.

 Ólöf Garðarsdóttir, Eiríkur Steingrímsson, Jens G. Hjörleifsson og Kjartan Ólafsson