HÍ og Landspítali efla samstarf sitt
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala, undirrituðu í dag endurnýjaðan samstarfssamning á milli stofnananna tveggja og einnig samning um að standa saman að nýrri Miðstöð í öldrunarfræðum.
Samstarfssamningurinn tekur við af eldri samningi en þessir mikilvægu samstarfsaðilar hafa um langt árabil átt í náinni samvinnu á mjög breiðum grundvelli, m.a. á sviði menntunar heilbrigðisstétta, rannsókna og nýsköpunar sem tengjast heilsu og heilbrigði. Tilgangur samningsins er að skilgreina verkefni og þjónustu sem hagkvæmt er að stofnanirnar starfræki sameiginlega. Þar á meðal eru umbætur tengdar heilbrigðisfræðum, en einnig er markmiðið að styðja og efla Landspítala sem háskólasjúkrahús bæði í alþjóðlegu og innlendu samhengi, þar sem þjónusta, menntun og vísindi eru samofin daglegu starfi.
Sameiginlegur stýrihópur HÍ og Landspítala, sem í eiga sæti stjórnendur innan stofnananna og stýrt er af rektor og forstjóra, hefur yfirumsjón með samstarfinu og hittist hann mánaðarlega. Hlutverk stýrihópsins er m.a. að móta og framfylgja stefnu í sameiginlegum málefnum HÍ og Landspítala, þar á meðal stefnu um námsframboð sem krefst aðstöðu á Landspítala, og stuðla að nánu samstarfi í vísindum og nýsköpun. Á samningstímanum, sem er til fimm ára, er jafnframt ætlunin að rýna í fyrirkomulag sameiginlegra starfa og málefni starfsfólks sem hefur starfsskyldur gagnvart báðum stofnunum.
Háskóli Íslands og Landspítali hafa í aldarfjórðung rekið saman Rannsóknarstofu í öldrunarfræðum (RHLÖ) og samkvæmt nýjum þjónustusamningum við stjórnvöld verður hún efld. Nafni rannsóknarstofunnar verður jafnframt breytt í Miðstöð í öldrunarfræðum (MÖ) og mun Háskóli Íslands leiða starf hennar.
Miðstöðin verður starfrækt innan Heilbrigðisvísindastofnunar HÍ og hlutverk hennar verður að vera miðstöð rannsókna á sviði öldrunarfræða sem taka til lífsgæða eldra fólks og fjölskyldna þess á breiðum grundvelli. Miðstöðin verður jafnframt vettvangur samvinnu innan og utan HÍ og Landspítala á sviði öldrunarfræða, styður við kennslu í tengdum fagreinum og veitir ráðgjöf til stjórnvalda, stofnana, félagasamtaka og annarra aðila sem tengjast eldra fólki. Jafnframt er miðstöðinni nýju ætlað að stuðla að samstarfi þeirra sem vinna að rannsóknum og nýsköpun á sviði öldrunar og kynningu á þeim rannsóknum.
Sérstök þriggja manna stjórn, sem rektor skipar, hefur umsjón með Miðstöð í öldrunarfræðum, en í henni munu sitja fulltrúar Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands, Félagsvísindasviðs skólans og Landspítala.