Skip to main content
21. október 2021

HÍ í hópi 50 bestu háskólanna í löndum á uppleið

HÍ í hópi 50 bestu háskólanna í löndum á uppleið - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands er í 50. sæti á nýjum lista tímaritsins Times Higher Education sem tekur til fremstu háskóla heims í löndum þar sem efnahagslífið er í örri framþróun.

Listinn nefnist  „The Emerging Economies University Rankings“. Hann nær til nærri 700 háskóla í 50 löndum sem skilgreind eru út frá gæðum fjármálamarkaða og efnahagslífs. Skilgreiningin byggist á flokkun London Stock Exchange’s FTSE Group á löndunum en þeim er skipað í þrjá flokka: komin afar vel á leið (e. Advanced Emerging), komin vel á leið (e. Secondary Emerging) og á vaxtarjaðri (e. Frontier).

Við samanburð á háskólum í umræddum löndum horfir Times Higher Education til sömu 13 þátta og þegar tímaritið vinnur sinn árlega lista yfir bestu háskóla heims. Þeirra á meðal eru frammistaða skólanna í rannsóknum, áhrif þeirra í alþjóðlegu vísindastarfi, gæði kennslu og námsumhverfis og alþjóðleg tengsl. Vægi einstakra þátta er þó með öðrum hætti á listanum nýja en þar er m.a. tekið mið af einkennum þeirra skóla sem starfa í þeim löndum sem til skoðunar eru. Þessi nálgun tímaritsins skilar Háskóla Íslands í 50. sæti á listanum sem fyrr segir.

Háskóli Íslands hefur komist á fjölmarga lista Times Higher Education í haust. Hann var á heildarlista tímaritsins yfir bestu háskóla heims 11. árið í röð og enn fremur á átta listum sem taka til afmarkaðra fræðasviða. 

Þessu til viðbótar rataði skólinn á 14 lista ShanghaiRanking Consultancy yfir fremstu háskóla heims á afmörkuðum fræðasviðum fyrr á árinu. Listar Times Higher Education og ShanghaiRanking Consultancy, eða Shanghai-listinn eins og hann er kallaður, eru jafnan taldir áhrifamestu og virtustu matslistar heims á þessu sviði.

Heildarlista Times Higher yfir fremstu háskóla heims í löndum þar sem efnahagslífið er í örri framþróun er að finna á vef tímaritsins.
 

Frá háskólasvæðinu