Skip to main content
13. september 2017

HÍ í fyrsta sinn á meðal 250 fremstu háskóla á sviði hugvísinda

Háskóli Íslands er í hópi 250 bestu háskóla heims á sviði hugvísinda samkvæmt nýjum lista Times Higher Education University Rankings sem birtur var í dag og tekur sérstaklega til fræðasviða háskóla. Niðurstaðan undirstrikar bæði að hugvísindi við Háskóla Íslands eru mjög sterk í alþjóðlegum samanburði og alhliða styrk Háskóla Íslands á helstu fræðasviðum.

Tímaritið Times Higher Education birti í liðinni viku sinn árlega lista yfir bestu háskóla heims en hann er annar af áhrifamestu og virtustu matslistunum á þessu sviði. Háskóli Íslands er þar í 241. sæti og í 16. sæti á Norðurlöndum.

Times Higher Education birtir einnig árlega lista yfir öflugustu háskóla heims á átta fræðasviðum, á sviði hugvísinda, lífvísinda, náttúruvísinda, verkfræði og tækni, tölvunarfræði, félagsvísinda, viðskipta og hagfræði og loks á sviði læknisfræði og lýðheilsuvísinda. Við mat á gæðum einstakra fræðasviða er horft til sömu þátta og við mat á háskólum í heild, þ.e. rannsóknastarfs, áhrifa rannsóknanna í alþjóðlegu vísindastarfi, gæða kennslu, námsumhverfis og alþjóðlegra tengsla. Jafnframt er tekið tillit til rannókna- og birtingarhefða á hverju fræðasviði fyrir sig. 

Times Higher Education birtir nú í fyrsta sinn lista yfir 400 bestu háskóla heims á sviði hugvísinda en tímaritið hefur hingað til aðeins birt lista yfir þá hundrað bestu. Matið nær til allra helstu fræðigreina hugvísinda, þ.e.  tungumála, bókmennta, málvísinda, sagnfræði, fornleifafræði, heimspeki, guðfræði, arkítektúrs og ýmissa listgreina.  Samkvæmt Times Higher Education raðast Háskólinn í sæti 201-250 á þessum sviðum en nánari greining leiðir í ljós að Háskólinn er í 227. sæti yfir bestu háskóla heims á sviði hugvísinda og 12. sæti á Norðurlöndum.

„Þessi niðurstaða er okkur hugvísindafólki gríðarleg hvatning því að Háskóli Íslands hefur lykilhlutverki að gegna við rannsóknir og kennslu á hinum ýmsu sviðum íslenskrar menningar og tengslum hennar við umheiminn. Okkur hefur lengi verið ljóst mikilvægi skólans á heimavelli en niðurstaða Times Higher Education staðfestir sterka stöðu hans á alþjóðlegum vettvangi. Það mun örugglega nýtast okkur vel við þróun náms og rannsókna við Hugvísindasvið í framtíðinni,“ segir Guðmundur Hálfdánarson, forseti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands.

Staða Háskóla Íslands á matslista Times Higher Education yfir bestu háskóla heims á sviði hugvísinda og á nýbirtum Shanghai-lista yfir sterkustu háskóla heims innan einstakra fræðasviða staðfestir enn og aftur að styrkur Háskólans á alþjóðavettvangi liggur ekki á afmörkuðum fræðasviðum heldur í öflugum rannsóknum og vísindastarfi innan fjölbreyttra fræðasviða. Þessi styrkur skólans skapar íslensku samfélagi og atvinnulífi samkeppnisforskot í harðri samkeppni þjóða og er jafnframt grundvöllur þess að hér á landi verði áfram fjölbreytt menningar- og atvinnulíf og góð lífskjör til framtíðar.

„Hugvísindin eru afar mikilvæg í starfi Háskóla Íslands og hafa verið frá upphafi. Mannauður Háskóla Íslands er mikill og skólinn hefur markað sér stefnu um að vera í fremstu röð. Það er því afar ánægjulegt að sjá þennan frábæra árangur hugvísindafólks í Háskóla Íslands staðfestan á lista Times Higher Education. Ég óska öllu starfsfólki og stúdentum Háskóla Íslands til hamingju með þennan frábæra árangur,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. 

Nánari upplýsingar um lista Times Higher Education yfir bestu háskóla heims á sviði hugvísinda má finna á heimasíðu tímaritsins.
 

Frá Veröld - húsi Vigdísar