Skip to main content
10. ágúst 2022

HÍ áttundi bestur í heimi á sviði fjarkönnunar 

HÍ áttundi bestur í heimi á sviði fjarkönnunar  - á vefsíðu Háskóla Íslands

-    Háskóli Íslands er alls á 12 listum ShanghaiRanking á afmörkuðum fræðasviðum
-    Stendur einnig framarlega í rafmagns- og tölvuverkfræði, jarðvísindum og hjúkrunarfræði

Háskóli Íslands er í áttunda sæti yfir bestu háskóla heims á sviði fjarkönnunar samkvæmt lista ShanghaiRanking Consultancy sem birtur var nýverið. Alls er skólinn á 12 listum samtakanna yfir fremstu háskóla heims á tilteknum fræðasviðum í ár og er áfram eini íslenski háskólinn sem raðast á einhverja af listum ShanghaiRanking.

Háskóli Íslands hefur komist á lista samtakanna ShanghaiRanking Consultancy sem taka til afmarkaðra fræðasviða undanfarin sex ár. Samtökin birta einnig árlega heildarlista yfir fremstu háskóla heims sem þekktur er undir nafninu Shanghai-listinn og er annar af tveimur virtustu og áhrifamestu matslistunum á þessu sviði. 

Matið nær til um 5.000 háskóla

Mat og röðun ShanghaiRanking Consultancy byggist á ýmum þáttum í vísindastarfi háskóla, svo sem birtingu vísindagreina í virtum fræðitímaritum, fjölda tilvitnana annarra vísindamanna í rannsóknir á vegum skólans, alþjóðlegu samstarfi um vísindarannsóknir og fjölda starfsmanna sem hjóta vísindaverðlaun fyrir framlag sitt innan einstakra fræðagreina.

Mat ShanghaiRanking Consultancy nær að þessu sinni til fremstu háskóla heims á 54 ólíkum fræðasviðum innan náttúruvísinda, verkfræði, lífvísinda, læknavísinda og félagsvísinda. Alls voru um 5.000 háskólar um allan heim metnir og komust 1.800 þeirra á einhvern hinna 54 lista. 

Fjarkönnunin nýtist við vöktun eldgosa

Samkvæmt listunum í ár er Háskóli Íslands sá áttundi besti í heiminum á sviði fjarkönnunar en hann hefur verið meðal 10 bestu á því sviði frá því að byrjað var að birta þessa lista árið 2017. Fjarkönnun felst m.a. í því að taka stafrænar myndir úr flugvélum og gervitunglum og vinna úr þeim hvers kyns upplýsingar um yfirborð jarðarinnar. Fjarkönnun er t.d. nýtt til þess að fylgjast með framvindu eldsumbrota eins og þess sem hófst á Reykjanesi í liðinni viku. 

Tólf fræðasvið í hópi 500 bestu

Shanghai-listarnir nýju leiða einnig í ljós að Háskóli Íslands er í sæti 51-75 á sviði rafmagns- og tölvuverkfræði og 101-150 á sviði jarðvísinda og hjúkrunarfræði. Þá er hann í hópi 200 bestu á sviði lífvísinda, í sæti 201-300 innan landfræði, lýðheilsuvísinda og stjórnmálafræði, á topp 400 á sviði vistfræði og líffræði mannsins og í hópi 500 bestu háskólanna á sviði klínískrar læknisfræði og sálfræði.

Lista ShanghaiRanking Consultancy sem ná til fræðigreina og upplýsingar um grundvöll matsins má nálgast á heimasíðu ShanghaiRanking Consultancy.

Háskólasvæðið