Skip to main content
9. apríl 2021

Helgarkveðja

Helgarkveðja - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (9. apríl):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk.

Öflugur háskóli, farsælt samfélag er yfirskrift núverandi heildarstefnu Háskóla Íslands. Við sem störfum og nemum í Háskólanum vinnum saman að því á hverjum degi að gera góðan háskóla betri. Við höfum einsett okkur að allt starf skólans, kennsla, þjónusta, rannsóknir og prófgráður standist fullkomlega alþjóðleg viðmið. Markmiðin með víðtækri áherslu á gæði eru margvísleg en þannig aukum við m.a. náms- og starfsánægju og stuðlum um leið að jákvæðri þróun samfélagsins alls með betri menntun, öflugri rannsóknum og upplýsingu að leiðarljósi. Til að leggja mat á gæði í starfi okkar munum við í næsta mánuði funda með hópi erlendra sérfræðinga sem taka mun út fjölbreytta þætti í starfi okkar. Ytri matshópurinn mun hitta á annað hundrað starfsmenn og nemendur á stafrænum fundum og hvet ég alla sem að því koma til að undirbúa sig af kostgæfni svo skólinn okkar verði metinn að verðleikum. 

Háskólinn stefnir að því að bjóða upp á sumarnám og sumarstörf í ár með stuðningi stjórnvalda líkt og gert var í fyrra. Núna er m.a. verið að skoða mögulegt námsframboð fræðasviða, bæði að umfangi og innihaldi. Það mun skýrast fyrir miðjan maí hvaða nám verður í boði að þessu sinni. Mannauðssvið Háskólans mun halda utan um sumarstörfin og verður fyrirkomulagið kynnt mjög fljótlega. 

Háskóli Íslands vinnur stöðugt að því að aðstæður starfsfólks og nemenda séu með allra besta móti. Samhliða þessu er lagt kapp á að tengingar milli bygginga skólans séu einfaldar og samgöngur þjálar og umhverfisvænar. Því stefnum við m.a. að því að meginstarfsemi okkar verði öll hér á háskólasvæðinu. Viðræður skólans við umráðendur Hótel Sögu snúast einmitt um að gera þetta kleift, þ.e. að gera góðan aðbúnað betri og flytja starf Menntavísindasviðs og ýmsa aðra starfsemi skólans hingað á háskólasvæðið. Viðræðurnar við Hótel Sögu eru í gangi og lyktir þeirra ættu að skýrast á næstu vikum.  

Framkvæmdamálin hafa verið í brennidepli að undanförnu. Bygging húss Heilbrigðisvísindasviðs við nýjan Landspítala er í undirbúningi, en mikilvægt er að húsið verði tilbúið á sama tíma og meðferðarkjarni Landspítalans verður tekinn í notkun. Bygging Húss íslenskunar gengur mjög vel. Háskólinn treystir á framlög frá Happdrætti Háskóla Íslands til að fjármagna þessar og aðrar mikilvægar framkvæmdir. Í vikunni skipaði ég hóp undir forystu Ingibjargar Gunnarsdóttur, prófessors og varaforseta Háskólaráðs, til að fara yfir álitaefni varðandi tekjuöflun Happdrættisins. Verkefni starfshópsins verður að vinna greiningu út frá fyrirliggjandi gögnum, m.a. rannsóknum á spilafíkn, viðhorfum í samfélaginu ásamt þáttum sem tengjast húsbyggingum Háskólans og lagaramma. Hópurinn mun skila sameiginlegri umsögn að vinnunni lokinni.

Þótt veturinn vilji ekki alveg sleppa af okkur takinu þessa dagana þá er vorið svo sannarlega í augsýn og því styttist óðum í árviss lokapróf. Við vitum að prófatímabil einkennast af álagi og á vefsvæði Háskólans er að finna góðar ábendingar um undirbúning fyrir próf sem dregið geta úr streitu og kvíða. Ég hvet ykkur til að lesa þetta gagnlega efni kæru nemendur en þarna má auk þess finna góð ráð um próftökuna sjálfa. 

Við framkvæmd prófanna munum við að sjálfsögðu taka mið að aðstæðum hverju sinni og fylgja ítrustu fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda. Við gerum okkur samt vonir um að framkvæmd lokaprófa geti að mestu orðið eins og áður var auglýst og birt er í próftöflu skólans.

Kæru nemendur og samstarfsfólk. Þekkingin er máttur og upplýsingar eru frelsandi, sagði Kofi Annan, fyrrverandi aðalritari Sameinuðu þjóðanna, en hann ávarpaði stúdenta og starfsfólk Háskóla Íslands fyrir réttum tíu árum. Menntun er sannarlega forsenda framfara en gleymum okkur samt ekki í amstri daganna í mikilvægri þekkingarleitinni. Oft er gott að leggja námsefni og verkefni til hliðar og slaka aðeins á áður en hafist er handa að nýju. Hugum stöðugt að andlegri heilsu okkar.

Góða helgi. 

Jón Atli Benediktsson, rektor“

Nemendur fyrir utan Háskólatorg

Háskólinn stefnir að því að bjóða upp á bæði sumarnám og sumarstörf fyrir nemendur líkt og í fyrra en þá var mikið líf á háskólasvæðinu. MYND/Kristinn Ingvarsson