Skip to main content
13. ágúst 2021

Heimilt að víkja frá grímuskyldu eftir að sest er í skólastofum

Heimilt að víkja frá grímuskyldu eftir að sest er í skólastofum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Í dag voru birtar leiðbeiningar á vef Stjórnarráðsins vegna núgildandi reglugerðar heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum. Markmið sóttvarnaráðstafana í skólum eru að stuðla að öryggi og velferð nemenda, kennara og annars starfsfólks og tryggja, eftir því sem kostur er, kraftmikið og fjölbreytt skólastarf. Leiðbeiningarnar fela m.a. eftirfarandi í sér fyrir Háskóla Íslands:

  • Nemendur og starfsfólk eiga að bera grímu þar sem ekki er hægt að virða 1 metra nándarreglu.
  • Heimilt er að víkja frá grímuskyldu eftir að nemendur eru sestir niður inni í skólastofu.
  • Leyfilegur hámarksfjöldi starfsfólks og nemenda er 200 í rými.
  • Blöndun hópa er heimil, hvort sem um ræðir nemendur eða starfsfólk. 
  • Um viðburði á vegum skóla eða nemendafélaga þeirra gilda sömu sóttvarnaráðstafanir og 200 manna fjöldatakmörkun fullorðinna.

Að öðru leyti er vísað í orðsendingu Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskólans, frá því 11. ágúst þar sem áhersla er lögð á að skólahald verði með sem eðlilegustum hætti. Jafnframt hvatti rektor nemendur og starfsfólk til að vera ábyrg og meðvituð og huga sérstaklega að einstaklingsbundnum sóttvörnum.

Núgildandi reglugerð heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum gildir til og með 27. ágúst nk.
 

Nemandi í stofu