Heimilin og háskólinn – Fræðsla fyrir foreldra
Menntavísindasvið Háskóla Íslands ýtir á morgun, föstudaginn 3. apríl, úr vör foreldrafræðslu á netinu í samstarfi við Heimili og skóla. Foreldrafræðslan hefur fengið nafnið Heimilin og háskólinn og þar mun fræðifólk Menntavísindasviðs ásamt góðum gestum úr samfélaginu og af öðrum fræðasviðum Háskólans fjalla um ólíkar hliðar fjölskyldulífsins á þeim óvenjulegum tímum sem við lifum: Stuðning við nám barna og ungmenna, uppeldi og samskipti, tengsl heimila og skóla, ólíkar námsgreinar, leik og upplifun, frítíma og rútínu, svefn og heilsu, bugun og bjartsýni.
Foreldrafræðslan er frá kl. 15:00-15.45 alla virka daga fram að páskum í opnum aðgangi á ZOOM. Foreldrar geta sent inn spurningar jafnóðum til þeirra sem fræða í hvert skipti. Allir nettengdir foreldrar geta fylgst með en hlaða þarf niður ZOOM-forritinu áður, en á vef kennslusmiðstöðvar Háskólans má m.a. finna upplýsingar um hvernig það er gert.
Kristín Jónsdóttir, lektor í kennslu- og menntunarfræði og sérfræðingur í tengslum heimila og skóla, og Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla, hefja leik á morgun, föstudag. Þeirra fræðsla nefnist „Tengsl heimila og skóla á kórónatímum – tækifæri eða tjúlluð togstreita!“
Dagskráin fram að páskum er svo sem hér segir:
Mánudagur 6. apríl kl. 15:00
- Hollráð til foreldra um þeirra líðan og geðheilsu
Bergljót Gyða Guðmundsdóttir, aðjunkt og sálfræðingur, og Helga Theódóra Jónasdóttir, sálfræðingur hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og stundakennari við Háskóla Íslands, fjalla um ýmis hollráð sem foreldrar geta tekið með sér í páskafríið.
Þriðjudagur 7. apríl kl. 15:00:
- Upplifum saman – að samræma vinnuna heima og samveru með leikskólabarni
Ingibjörg Ósk Sigurðardóttir, lektor í leikskólafræðum, og Svava Björg Mörk, aðjunkt og leikskólakennari, fara yfir þessa heljarinnar áskorun sem margir foreldrar takast á við um þessar mundir.
Miðvikudagur 8. apríl kl. 15:00
Förum út að læra!
Ingileif Ástvaldsdóttir og Jakob Frímann Þorsteinsson aðjunktar fjalla um samstarf foreldra og barna á grunnskólaaldri, áskoranir og tækifæri í náminu, sem farið getur fram heima, í skóla, á netinu – en líka úti!
Eftir páska halda fræðsluerindin áfram á ZOOM, en allar upplýsingar um fyrirlestraröðina Heimilin og háskólinn verður að finna á Facebook-síðu Menntavísindasviðs og á nýrri vefsíðu Bakhjarla skóla- og frístundastarfs.