Skip to main content
30. mars 2016

Heilsa og heilbrigði fyrir háskólasamfélagið

Heilsa og heilbrigði fyrir háskólasamfélagið - á vefsíðu Háskóla Íslands

Heilsa og heilbrigði verða í forgrunni á Háskólatorgi 31. mars en þá mun sviðsráð og fulltrúaráð Heilbrigðisvísindasviðs bjóða háskólasamfélaginu á Heilsudaginn. Mikið verður um dýrðir og á dagskrá eru kynningar, málþing og heilbrigðisQuiz sem sýna heilbrigðisvísindi á lifandi hátt.

„Heilbrigðiskerfið og tækifæri framtíðarinnar“ er yfirskrift málþingsins en þar munu nokkrir valinkunnir sérfræðingar taka til máls. Á meðal mælenda verða Birgir Jakobsson landlæknir, Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala, og Halldóra Jónsdóttir, yfirlæknir á geðsviði Landspítala. Pallborðsumræður verða að loknum erindum. Inga Þórsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs, mun setja málþingið.

Á Háskólatorgi fer fram kynning á námi og starfsemi Heilbrigðisvísindasviðs. Nemendum og starfsfólki Háskóla Íslands gefst þar einstakt tækifæri til að fræðast og spyrja spurninga um heilsutengd málefni. Mikil verkleg kennsla er við Heilbrigðisvísindasvið og fá framhaldsnemendur m.a. þjálfun hjá Sálfræðiráðgjöf háskólanemaTannlæknaþjónustunni og á Heilsutorgi undir dyggri leiðsögn kennara við skólann. Þessi þjónusta er öll opin nemendum Háskóla Íslands. 

Fulltrúar frá nemendafélögum kynna til sögunnar ýmis spennandi samfélagsleg verkefni, s.s. Lýðheilsufélag læknanema sem stendur fyrir hinum sívinsæla bangsaspítala, Ástráð, forvarnarstarf læknanema gegn kynsjúkdómum og ótímabærum þungunum, Bjargráð, félag læknanema sem beita sér fyrir því að efla skyndihjálparkunnáttu, Skjöld, félag hjúkrunarfræðinema sem vinnur að forvörnum og fræðslu fyrir ungt fólk, og Hlíf, áhugafélag hjúkrunarnema um skaðaminnkun og jaðarsetta hópa. Spítalinn okkar – landsamtök um uppbyggingu húsnæðis Landspítala verða enn fremur með kynningu á sinni starfsemi.

Heilsudagurinn fór fram í fyrsta sinn árið 2015 og heppnaðist mjög vel. Markmiðið með heilsudeginum er að kynna heilsu, heilbrigði og velferð í víðum skilningi, á aðgengilegan hátt, fyrir nemendum og starfsfólki Háskóla Íslands.

Heilsudagurinn á Facebook.

Nemendur á Heilbrigðisvísindasviði