Skip to main content
4. desember 2023

Heilbrigðisvísindasvið með flesta doktora

Heilbrigðisvísindasvið með flesta doktora - á vefsíðu Háskóla Íslands

Á síðustu 12 mánuðum hafa 83 doktorar brautskráðst frá Háskóla Íslands. Líkt og í fyrra var Heilbrigðisvísindasvið það svið Háskólans sem útskrifaði flesta doktora eða 24.

Doktorarnir 83 koma af öllum fimm fræðasviðum skólans en í hópnum eru 34 karlar og 49 konur. Sameiginlegar doktorsgráður með öðrum háskólum eru tvær talsins auk þess sem á árinu brautskráðist nemandi sameiginlega frá tveimur fræðasviðum skólans. 37% doktoranna eru með erlent ríkisfang. Brautskráðir doktorar frá stofnun Háskóla Íslands telja nú á annað þúsund en sá áfangi náðist í fyrra að þúsundasti doktorinn brautskráðist frá skólanum. Það er til marks um hversu mikið doktorsnám hefur eflst við skólann á öldinni að árið 2001 voru fjórir nýir doktorar brautskráðir frá háskólanum, en undanfarinn áratug hafa þeir að meðaltali verið um 70 á ári.

„Doktorsnám við skólann er eftirsótt af innlendum og erlendum nemendum og verkefnin eru iðulega unnin í alþjóðlegu samstarfi. Um leið gerir það skólanum kleift að sinna hlutverki sínu sem stærsti og breiðasti háskóli þjóðarinnar, háskóli sem brautskráir nemendur á öllum námsstigum á 5 fræðasviðum og í 26 deildum. Þetta er afar mikilvægt því rannsóknir og góð og fjölbreytt menntun eru jafnan talin vera ein helsta forsenda hagvaxtar og aukinnar velsældar þjóða,“ segja þau Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Ingibjörg Gunnarsdóttir, aðstoðarrektor vísinda, í ávarpi sínu í riti sem gefið er út í tilefni doktorshátíðarinnar sem haldin var 1. desember. Þar er að finna yfirlit yfir brautskráða doktora á tímabilinu 1. desember 2022 til 1. desember 2023 og tölfræði um þróun doktorsnáms við HÍ á undangengnum árum. 

Háskóli Íslands óskar þeim stóra og glæsilega hópi sem lokið hefur doktorsnámi frá skólanum undanfarna 12 mánuði innilega til hamingju með áfangann og velgengni í þeim verkefnum sem taka við að lokinni útskrift.
 

Nýir doktorar á Heilbrigðisvísindasviði ásamt rektor, aðstoðarrektor vísinda og sviðsforseta.
Rektor, aðstoðarrektor vísinda, forseta fræðasviða og doktorarnir nýju sem sóttu athöfnina 1. desember. MYND/Kristinn Ingvarsson