Hefur lúsasmit frá eldi áhrif á far villtra stofna?
Á árum áður þótti ekki vont að veiða lúsugan lax á stöng eins og kallað var en þá þótti það merki um að laxinn væri nýgenginn í fallvatn úr sjó. Með auknu laxeldi í sjókvíum hér við land hefur lúsin hins vegar fengið á sig allt annað yfirbragð og miklu neikvæðara.
„Fiskifræðingar hafa oft sérstaklega miklar áhyggjur af fjölgun laxalúsar í nágrenni við fiskeldi og þeim áhrifum sem hún kann að hafa á villta laxfiska. Smitist fiskarnir illa getur það haft áhrif á heilsu og lífslíkur villtu fiskanna. Það er því nauðsynlegt að vakta bæði fjölda lúsa í eldinu sjálfu og á villtum fiskum í nágrenni fiskeldis til að fylgja því eftir að lúsasmit sé undir viðmiðunarmörkum.“
Þetta segir Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, líffræðingur og forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands í Bolungarvík. Guðbjörg hefur stundað mjög fjölbreyttar rannsóknir á lífríki sjávar og fjölmargar þeirra hafa mikil tengsl við atvinnulíf og nytjastofna sem Íslendingar byggja að stórum hluta lífsgæði sín á. Þannig hefur Guðbjörg Ásta rannsakað um langt skeið áhrif hlýnunar og framkvæmda mannsins á strandsvæðum á uppvöxt bolfisks. Þetta hefur hún gert nærri fjörunni á ýmsum svæðum í Ísafjarðardjúpi. Nú beinir Guðbjörg Ásta hins vegar augum að fiskilús í rannsóknum sínum en laxalúsin tilheyrir einmitt þeim flokki dýra sem getur reynst gríðarlegur skaðvaldur þegar fisktegundir eru í miklum þéttleika.
Partur af verkefninu felst í því að merkja fiska og fylgjast með þeim og hér sleppir Michelle Valliant, doktorsnemi í líffræði, merktum fiskum.
Hvaða áhrif hefur laxalús frá sjókvíum á villta stofna?
„Fiskilýs eru smá krabbadýr sem lifa sníkjulífi á fiskum. Lýsnar finnast víða í náttúrunni en þar sem fiskur er staðbundið í miklum þéttleika eiga lýsnar sérstaklega auðvelt með að dreifa sér og þeim fjölgar oft mjög mikið. Það þarf því engan að undra að lúsum fjölgar oft mjög í og við sjókvíar.“
Guðbjörg Ásta segir að fjöldi lúsa á villtum fiski segi þó ekki allt þegar verið er að kanna magnið og áhrifin því villti fiskurinn hafi ýmis ráð til að losna við lýsnar.
„Laxalús þolir hvorki ferskvatn né mikinn kulda. Smitaðir villtir fiskar geta því tekið til þess ráðs að færa sig í ferskvatn eða á kaldari slóðir til að losna við lýsnar. Þannig breytingar á farhegðun geta hins vegar haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir laxfiskinn en án fæðugangna í sjó tapar fiskurinn mikilvægum tíma til að nærast og fitna fyrir hrygningu og vetursetu í fersku vatni.“
Það sem Guðbjörg ætlast fyrir með rannsóknum sýnum er að meta hvort sjókvíar og lúsasmit hafi áhrif á far og dreifingu villtrar sjóbleikju og sjóbirtings í nærsjó. „Mér hefur alltaf fundist farhegðun og umhverfisáhrif á dreifingu fiska einstaklega áhugaverð. Í þessu verkefni sé ég tækifæri til að sameina þann áhuga hagnýtri nálgun og leggja þannig af mörkum við að byggja upp fræðilegan grunn að mati á umhverfisáhrifum fiskeldis.“
Guðbjörg Ásta og teymi hennar hafa þurft að byrja frá grunni í þessu verkefni þar sem mjög fáar rannsóknir hafa verið gerðar á dreifingu og fari sjóbleikju og sjóbirtings hér við land.
„Þess vegna höfum við nú þegar fengið úr verkefninu mjög áhugaverð gögn um þessa grunnþætti. Þá eru vísbendingar um að sjóbirtingur, sem er mikið smitaður af lús haldi sig á meira dýpi en fiskur sem er lítið smitaður. Það er þó ekki vitað hvort hér sé um orsakasamhengi að ræða því fjöldi sýna er ennþá lítill.“
Samstarfsfólk Guðbjargar Ástu og nemendur við HÍ, Kolbeinn Sæmundur Hrólfsson og Michelle Valliant, draga gildrur úr sjó. „Það er mjög mikilvægt fyrir fyrirtæki sem byggja framleiðslu sína á náttúruauðlindum að sterkur vísindalegur grunnur sé fyrir nýtingunni – sá grunnur kemur ekki fram nema með rannsóknum. Hér er dæmi um verkefni sem leggur bæði mikið til grunnvísindaþekkingar á náttúru Íslands ásamt því að stuðla að sjálfbærri nýtingu náttúrunnar og auðlinda hennar.“
Rannsókn sem stuðlar að sjálfbærri nýtingu auðlinda
Í nýrri stefnu Háskóla Íslands, HÍ26, er sérstaklega tekið á tengslum skólans við atvinnulíf en áhersla er á að nám og rannsóknir mæti þörfum íslensks samfélags og atvinnulífs og stuðli að sjálfbærum heimi. Guðbjörg Ásta segir að þetta verkefni sé einmitt unnið í samstarfi við fiskeldisfyrirtæki sem hér starfar og að leiðarljósið sé sjálfbær nýting náttúruauðlinda.
Þegar vikið er að því hvort hagsmunir vísindafólks og atvinnulífs fari alltaf saman segir Guðbjörg Ásta að í tengslum við þetta verkefni sérstaklega felist ávinningurinn ekki síst í því að akademían og atvinnulífið vinni saman með opnum og heilum hug.
„Það getur nefnilega verið hagur vísindafólks að kanna áhugaverða og hagnýta vinkla í rannsóknum og sömuleiðis hagur fyrirtækja að vinna með vísindafólki innan háskólanna þar sem nálgunin á viðfangsefnið er oft mjög ólík. Það er mjög mikilvægt fyrir fyrirtæki sem byggja framleiðslu sína á náttúruauðlindum að sterkur vísindalegur grunnur sé fyrir nýtingunni – sá grunnur kemur ekki fram nema með rannsóknum. Hér er dæmi um verkefni sem leggur bæði mikið til grunnvísindaþekkingar á náttúru Íslands ásamt því að stuðla að sjálfbærri nýtingu náttúrunnar og auðlinda hennar.“
Guðbjörg Ásta segir að rannsóknin sé auk þess í anda heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna þar sem áhersla er á að vernda og nýta hafið og auðlindir þess á sjálfbæran hátt. Í undirmarkmiðum við áherslur um líf í vatni er einnig krafa um sjálfbært fiskeldi í sjó. Guðbjörg segir að verkefnið hafi að auki augun á því að stuðla að fæðuöryggi.
„Grunnrannsóknir eins og í þessu verkefni eru á margan hátt undirstaða nýrrar þekkingar og á grunni hennar getum við mennirnir þróast og þroskast í takt við breytingar í heiminum.“