Hefjum haustið með vistvænum samgöngum
Háskóli Íslands tekur þátt í átaki næstu vikur ásamt Landspítalanum, Háskólanum í Reykjavík, Reykjavíkurborg, Strætó, ÍSÍ, stúdentaráðum háskólanna, Vegagerðinni og Umhverfisstofnun þar sem allir leggjast á eitt um að auka hlutdeild vistvænna samgangna í höfuðborginni. Háskólaborgarar eru hvattir til að hvíla bílinn og nýta sér vistvæna ferðakosti, bæði fyrir einstaklinga og umhverfið.
Tiltekið þema verður í hverri viku. Í fyrstu vikunni er áhersla lögð á örflæði (e. micromobility) en hugtakið á við um farartæki sem eru knúin af líkamlegu afli eða rafmagni og komast að alla jafna ekki eins hratt og vélknúin farartæki. Undir þennan flokk falla m.a. hjól, rafhjól, rafskútur og hjólabretti. Á komandi vikum verður svo áhersla lögð á almenningssamgöngur (Strætó), hjólreiðar, heilsu og nagladekk.
Vikuna 6. – 17. september mun Háskóli Íslands efna til hjólaátaks í anda Hjólað í vinnuna sem ber heitið Hjólað í Háskólann. Hvetur HÍ alla innan háskólans, bæði nemendur og starfsmenn, til að taka þátt, en hægt er að skrá sig til leiks hér.
Háskóli Íslands vill leggja sitt að mörkum við að hvetja starfsmenn og nemendur til að nýta vistvæna samgöngumáta. Stærsti hluti af losun af starfsemi skólans er vegna samgangna og með því að velja vistvænan ferðamáta er hægt að stíga stórt skref í átt að umhverfisvænni skóla. Auðvelt er að draga úr eldsneytisnotkun, losun og mengun með því að hvíla bílinn heima og ferðast með öðrum hætti í skóla eða vinnu. Með því að hvíla bílinn einungis einu sinni í viku dregur eigandi úr notkun hans um 20% á virkum dögum! Að auki léttir það á umferð og öngþveiti, sparar pening – svo ekki sé talað um að stuðla að bættri heilsu með því að nýta eigin orku til að komast milli staða!
Hvað get ég gert?
Byggingar Háskóla Íslands liggja flestar afar vel við strætósamgöngum og hjóla- og göngustígum.
- Tekið strætó: Strætisvagnar stoppa nálægt flestum byggingum skólans og hægt er að kynna sér leiðakerfi og tímatöflur á vef Strætó.
- Hjólað í háskólann: Hjólastandar eru við allar byggingar skólans auk þess sem finna má yfirbyggð hjólaskýli við Lögberg, VR-II og Stakkahlíð. Við Háskólatorg, VR-II og í Stakkahlíð er enn fremur að finna viðgerðarstanda fyrir minni háttar viðgerðir á hjólum. Hversu lengi er ég að hjóla heiman frá mér? Þú getur séð það á kortinu hér að neðan
- Nýta rafskútu: Rafskútur njóta vaxandi vinsælda og háskólinn hyggst koma upp sleppisvæði við Háskólatorg þar sem hægt verður að nálgast slík farartæki frá rafskútufyrirtækjum bæjarins. Auk þess býður OSS háskólaborgurum sem nýta rafhjól og rafskútur fyrirtækisins sérkjör.
- Samnýtt bílferðir: Þau sem kjósa að koma á bíl á háskólasvæðið eru hvött til að samnýta ferðir með vinum og kunningjum ef hægt er. Á Uglunni er hægt að sjá nánari útlistanir á þessum möguleika og mynda hópa um samnýtingu bíla. Einnig má lesa nokkur góð ráð til að fækka bílferðum.